Þetta jóladagatal snýst að vissu leyti um höfundarrétt – og stundum útrunninn höfundarrétt. Þess vegna er rétt að hafa eina af fáum íslenskum bókum sem hafa fjallað um hugverkarétt á dögum internets með í dagatalinu, nánar tiltekið Ást er þjófnaður eftir Eirík Örn Norðdahl.

Þetta er safn stuttra ritgerða um höfundarrétt og bókaþjófnað – og miklu skemmtilegri en efnið gefur vísbendingar um. En ef þið lesið hana er vitaskuld æskilegt að þið kaupið bjór handa Eiríki næst þegar þið hittið hann, eða sendið honum nokkrar evrur, sbr.:

„Þú getur líka sent mér tölvupóst og sagt: Hæ, ég er blankur/blönk má ég næla mér í eintak – ég skal bjóða þér upp á bjór næst þegar við sjáumst og ég á pening? (Ekki samt gera það nema það sé satt – ég segi alveg já, ef þú spyrð, en ég er líka blankur og vantar meira að geta keypt í matinn, einsog mér finnst annars bjór fínn).

Þú getur sagt: Má ég fá kynningareintak? Ég ætla að skrifa um hana. Og smellt á hlekkinn. Og skrifað um hana.

Þú getur stungið upp á vöruskiptum.

Og svo geturðu borgað (5 til 15 evrur, eftir hentugleikum) fyrir rafbókina eða farið inn á Lulu og pantað þér bókina í fallegu vasabroti. Það væri auðvitað langt best fyrir mig. Ef ég á að segja alveg einsog er.“

Hér er svo hægt að finna bókina og lesa meira um hana.