Í upphafi apríl síðasta kviknaði í Notre Dame kirkjunni í París. Vonandi tekst þeim að endurbyggja hana með sæmilegum myndarbrag – en þangað til er tilvalið að rifja upp þögla mynd Lon Cheney um Hringjarann í Notre Dame. Já, eða Charles Laughton útgáfuna auðvitað – en hún er því miður ekki á Youtube.
Og látum fylgja þessa rúmlega hálfs árs hugleiðingu um kirkjuna góðu:
Þetta er bara hús.
Hús sem tók öld að byggja, hús sem milljónir hafa heimsótt, til að kveikja á kertum, til að leita skjóls, til að túristast, til að leita andagiftar, til að stelast í sleik, til að taka selfí, allt þetta og fleira til. Líka hús sem gnæfir yfir fólki þegar það fer í vinnu eða heim til sín eða á uppáhaldskaffihúsið, jafnvel fólki sem fer aldrei inn. Hús sem þýddi eitthvað allt annað í byrjun síðustu aldar en það þýðir í dag og þýddi eitthvað óskijanlegt okkur nútímafólki fyrir 300 eða 600 árum. En þýðir samt alltaf eitthvað, þýðir samt alltaf helling – og heldur áfram að þýða það, þótt það sé grafið djúpt í steininn eða gamlar skræður.
Auðvitað líka hús sem á sér sínar skuggahliðar. Eins og flest list fyrir tuttugustu öldina þá sáu trúarstofnanir um bygginguna, stofnanir sem eiga sér sína vafasömu sögu. En kannski ennþá frekar vert að nefna það að þúsundir voru skattpíndir til þess að byggja þetta hús, þúsundir unnu við að byggja þetta hús, sumir dóu örugglega eða fengu ömurleg eða engin laun eða fengu bakverki sem þeir losnuðu aldrei við. Sumir hötuðu þetta hús einnmitt út af því – en sumum þótti vænt um það af sömu ástæðum, allt þetta strit var þó til einhvers, bjó til eitthvað fallegt.
Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.
Mynd: LeLaisserPasserA38 – Own work, CC BY-SA 4.0, https://commons.wikimedia.org/w/index.php?curid=78064310