Það er skringileg íslensk hefð að eyða megninu af áramótakvöldinu við sjónvarpsgláp – eitthvað sem rennur af þeim um leið og þeir koma til útlanda, þessi þrjú áramót sem ég hef eytt með mjög ólíkum Íslendingahópum í útlöndum hefur sjónvarpsgláp einfaldlega varla komið til umræðu.

En auðvitað horfir maður á skaupið daginn eftir – og jafnvel aftur af því maður ákveður að skrifa um það. Mögulega ekki nógu ölvaður, kannski hefði þetta virkað betur með réttu áramótaáfengisblöndunni – og þó, þá hefði held ég einmitt hugurinn fyrr tekið að reika í slöppu atriðunum.

En skaup getur verið gott og vont á mjög mismunandi hátt. Það getur verið fyndið eða ófyndið – en það getur líka verið beitt eða bitlaust. Og allt þar á milli auðvitað. Einstaka skaup hafa raunar farið þá leið að skipta sér ekkert af pólitík, sem getur gengið á pólitískt tíðindalausum árum en virkar annars stundum dálítið eins og sérhlífni við pólitíkusa.

Sum nýleg skaup hafa einmitt verið skelfilega bitlaus, nánast eins og þau væru að klappa pólitíkusum létt á kinn – en fleiri hafa þó verið alveg þokkalega beitt. Þetta hins vegar hlífði í raun engum – en það var samt ekki beitt, því það var einfaldlega alls ekki nógu fyndið, brandararnir alltof margir of augljósir.

Þetta byrjaði samt þrælvel – opnunarinnslag Ævars vísindamanns var skemmtilega sérviskulegt og brjálaða fólkið í bílunum mögulega besta atriði skaupsins í einfaldleika sínum. Landaatriðin voru óttalega daufleg og endurtekningasöm en skensið um sparnaðarráðleggingar bankanna og konuna hans Gunnars Sigvalda var þrælgott og flest annað fyrstu 20 mínúturnar allavega þokkalegt.

Niðurtúrinn á Dalvík

En síðan vorum við komin í matsalinn til Samherja og skyndilega varð skrítinn snúningur. Símtölin sem Þorsteinn Már tók voru að vísu ágæt – en að breyta lúpulegum starfsmönnum að sitja undir ræðu forstjórans í verkalýðshetjur að rífa kjaft virkaði einfaldlega ekki. Þessi sena, sú raunverulega, var einfaldlega eitt það ljótasta sem maður sá á síðata ári og fékk æluna alveg upp í kok, og þótt Þorsteinn Bachmann næði nafna sínum vel (sérstaklega hvernig hann stóð í stiganum) þá féll þessi sena algjörlega flöt.

Og einhvern veginn náði skaupið sér aldrei á strik eftir þetta. Það sökk dýpst í vondu lagi um íslenska liti og ennþá verra lagi um stafina í LGBTQ þar sem ég þurfti hreinlega að standa upp og ganga í burtu á meðan atriðið kláraðist.

Svo voru frábærar hugmyndir í kringum meint siðrof og Jókerinn sem byrjuðu vel en slógu svo allar vitlausu nóturnar í kjölfarið. Eins kom fyrir að húmorinn í absúrd heimsku, mannvonsku eða græðgi týndist – mannvonska Sigríðar Andersen, kjánalegheitin í kringum Þú ert nóg og græðgi Gamma voru allt eitthvað sem var sjálfsagt að gera grín af, en grínið féll algjörlega flatt.

Þá hamlaði strangt form áramótaskaupsins, sem er jú bundið árum, atriðunum um Miðflokkinn og Skúla Mogensen – ágætis atriði sem manni fannst ósjálfrátt hafa átt heima í síðasta skaupi, sem hálfpartinn tæmdi þessa brunna, þótt bæði mál hafi haldið áfram fram á árið 2019, þannig að þetta voru eins og síðbúnar neðanmálsgreinar við síðasta skaup.

Það voru samt ljósir punktar í seinni hlutanum. Sérstaklega leiksigur kvöldsins hjá Láru Jóhönnu sem náði Katrínu Jakobs betur en nokkur hefur gert og skilaði um leið einu besta atriði skaupsins (en rosalega var Bjarni Ben hins vegar ósannfærandi) – og svo lokalagið sem var skemmtilega skrítið og sérviskulegt, eins og flest sem Prinsinn Póló gerir, fyrir utan að vera gott framhald af Gretu Thunberg atriði stuttu áður.

En þetta skaup „var eins og flugeldur sem byrjaði vel en fjaraði út á miðju flugi“ Agnar Kristján Þorsteinsson á Facebook). Ég var samt aldrei almennilega ósammála neinu, þetta var skaup sem var gert af fólki sem maður hafði á tilfinningunni að maður væri í grundvallaratriðum sammála í pólitík – en gleymdi bara að klára brandarana almennilega.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson