Það tók mig langan tíma að drífa mig á Ford v Ferrari. Góður leikstjóri og fínustu dómar breyttu ekki þeirri staðreynd að myndin var um kappakstur – mest óþolandi íþróttagrein alheimsins, að minnsta kosti til að horfa á, það er alla vega hægt að sofna yfir golfi. Óþolandi suðið í kappakstursbílunum er aftur á móti stærsti galli kappakstursins. Fyrir utan það að sjá aldrei keppendurna, sem eru vel faldir inni í blikkdollu.

En myndin er blessunarlega töluvert forvitnilegri en sjónvarpskappakstur. Ekki bara af því að við fáum að vera inni í bílnum með aðalpersónunum, fá smá nasaþef af háskanum – það er nú hvort eð er lágmarkskrafa til bíómyndar, trompið sem hún hefur alltaf fram yfir beina útsendingu í sjónvarpi – og það er allt feykivel gert hér.

Það sem  skiptir hins vegar öllu meira máli er að karakterarnir eru fjandi vel skrifaðir – og sérstaklega þá Ken Miles (Christian Bale), bílakall sem er allt öðruvísi en flestir ef ekki allir bílakallar kvikmyndasögunnar; rómantíker, þverhaus og heimspekingur.

Carroll Shelby (Matt Damon) er ekki alveg sami rómantíkerinn – en nógu mikill rómantíker þó til þess að skilja hann, og þegar ferli Shelby lýkur vegna hjartatruflanna (sem hann heldur vitaskuld rækilega leyndu á öld bældrar karlmennsku) þá er hann fljótlega fenginn í að hafa yfirumsjón með kappakstursdeild Ford – sem snýst á endanum aðallega um að berjast fyrir því að leyfa skaphundinum Miles að keppa.

Hann er vafalítið besti kappakstursmaðurinn – en líka sá erfiðasti. Eitt möppudýrið hjá Ford hnussar og segir að hann sé ekki „a Ford man,“ heldur helvítis bítnikk. Þarna skella fimmtugurinn og sextugurinn harkalega saman, þetta snýst ekki um íþróttina heldur ímyndina, eitthvað sem kemur betur og betur í ljós þegar á líður.

Skrifborð með áfasta jakkafatabúka

Hér er raunar rétt að muna af hverju Ford-menn fara að taka kappakstur alvarlega til að byrja með: við erum stödd á fundi þar sem Henry Ford II (afinn, sá upprunalegi, er látinn þegar þarna er komið sögu en erfinginn er með endalausa minnimáttarkomplexa gagnvart honum) öskrar á starfsmenn sína að koma með lausnir við vandamálum fyrirtækisins (sem virðist furðu árangursrík stjórnunaraðferð). Og einhver stingur upp á því að setja allt í að vinna Le Mans kappaksturinn, sólarhringslanga þrekraun í Frakklandi. Ferrari hafi jú unnið keppnina fjórum sinnum í röð og komist þannig á kortið. Þá er orðið tekið af honum, bent á að Ferrari framleiði jafnmarga bíla á ári og Ford á einum degi. Svarið: það er öllum sama hver framleiðir flesta bíla, fólk vill besta bílinn, eiga hlutdeild í sigrinum. Vera kúl, vera sigurvegarar.

Þetta er algjör lykilsena í myndinni; þarna eru kerfiskarlar – nánast eins og ein lífvera, skrifborð með áföst jakkaföt, í sameiningu að átta sig á að hún þarf að breytast, læra á nýja kynslóð – annars verður hún útdauð.

En það er fjandanum erfiðara að breytast. Það eru einmitt auglýsingamennirnir sem tala fyrir byltingunni á fundinum sem hræðast hana mest þegar hún mætir þeim, holdgervð í uppreisnarseggnum Miles.

Þetta er hins vegar fyrst og fremst mynd um það hvernig kapítalisminn gleypir á endanum byltinguna, finnur leið til þess að sporðrenna henni þrátt fyrir meltingartruflanir og lærir að tala byltingarlingóið og öðlast nýtt þol gegn vandræðapésum á borð við Miles.

Nafn myndarinnar er raunar nokkuð kyndugt – Ferrari kemur í raun mjög lítið við sögu, og í Evrópu heitir myndin raunar á flestum stöðum Le Mans ´66. Meira réttnefni væri líklega Ford v vinnumaurarnir. Þar hefur Miles verið lengi neðst í fæðukeðjunni í bílabransanum, hann virðist loks ætla að fá sína uppreisn æru – sinn sigur – en húsið vinnur alltaf á endanum.

Ferrari er þó sannarlega forvitnilegur fýr – Evrópskur heiðursmaður sem er vissulega slóttugur bissnessmaður, en fyrir honum snýst þetta þó um stolt fyrst og peninga seinna, öfugt við Ford. Hann, Miles og Carroll eru í raun skyldar sálir – og þeir Carroll horfa stundum löngunaraugum hvor til annars úr fjarlægð á meðan á kappakstrinum stendur; sú einkennilega spenna sem myndin skapar verður til þess að maður heldur vissulega með Miles á kappakstursbrautinni sjálfri en heldur með Ferrari í stóra samghenginu og vonast eiginlega til að þeir geri okkar mönnum bara tilboð svo þeir geti spilað með meira heiðursliði.

Þá má í framhjáhlaupi geta þess að margt í myndinni minnir lúmskt mikið á aðra nýlega mynd frá svipuðum tíma, First Man. Nema hvað, þessi gerir flest vel sem hún gerir illa – og þar má kannski fyrst nefna eiginkonu Miles, hana Mollie, sama hárgreiðslan og í raun svipað hlutverk – langþreytt eiginkona frumkvöðuls. Munurinn er bara sá að í þetta skiptið nenntu handritshöfundarnir að skrifa hlutverkið almennilega og Caitriona Balfe leikur Mollie prýðilega.

Í gegnum persónurnar sjáum við líka hvernig nokkrar útgáfur Amerísku einstaklingshyggjunnar mætast og kljást, áður en kerfiskarlarnir hafa á endanum sigur. Leiðtoginn með silfurskeið í munninum þarf á lónernum að halda – en losar sig alltaf við hann við fyrsta tækifæri.

Þetta er líka ágætis áminning um að það eru líka uppreisnarseggir í viðskiptum og lögfræði, rétt eins og það eru líka kerfiskarlar meðal ljóðskálda og pönkara, þótt hlutföllin séu vissulega misjöfn.

Þegar bíllinn varð töff

Leikstjórinn James Mangold gerði Logan næst á undan þessari, dystópíska ofurhetjumynd sem ásamt The Dark Knight er líklega besta ofurhetjumyndin til þessa. En Ford v Ferrari er í vissum skilningi forleikur að Logan, dystópían í þeirri mynd, dystópían sem við erum að sigla inní, á eitt sitt mikilvægasta frjókorn í því hvernig bíllinn sigraði á tuttugustu öld borgir og bæi Ameríku og svo heimsins alls – og breytti um leið í bensíngráar borgir sem varla er hægt að labba um lengur þegar verst lætur. Og nú er ægivald bílsins þvílíkt að jafnvel róttækustu stjórnmálaflokkar veigra sér að leggja til atlögu við hann.

Fyrstu skrefin voru fjöldaframleiðslan sem Ford hinn fyrsti kom á, auk annars sögufrægs kappaksturs sem sannfærði marga um gildi bílsins. Þegar búið var að selja fiftís-kynslóðinni, í leit að öryggi eftir blóðug stríð, öryggið í úthverfaveröld bílsins þurfti líka að selja byltingarsinnaðri afkomendum þeirra skrjóðinn – og þá þurfti einfaldlega að gera bílinn kúl, eitthvað sem Hollywood og Ford tókst alveg prýðilega í sameiningu. Einmitt hér sjáum við það hættulegasta við kapítalismann, hvernig hann étur upp allar byltingar og gerir þær að sínum, finnur á endanum leiðir til að græða á þeim og um leið draga tennurnar úr þeim.

Þannig náðu þessar málmdollur að vera hvort tveggja í senn, öruggar og hættulegar, plebbalegar og töff. Og jafnvel þótt þær verði vonandi ekki töff aftur þá eru þær í hugum margra eitthvað miklu hættulegra; lífsnauðsynlegar.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson