„Þegar ég sá Sigur Viljans eftir Leni Riefenstahl í fyrsta skipti, þetta helsta áróðursverk nasismans, þá sló þetta mig helst: þetta leit út eins og risastórt skátamót. Ungmennafélagsmót frá helvíti.“

Þetta skrifaði ég í ritdómi um Korngult hár, grá augu eftir Sjón fyrir síðustu jól – og þetta á eiginlega ennþá betur við um Jojo Rabbit, sem hefst einmitt í einhvers konar sumarbúðum Hitlers-æskunnar. Munurinn er bara sá að á meðan myndavél Riefenstahl leitaði uppi alla hraustlegustu og föngulegustu piltana fjallar Taika Waititi hér um klaufalega strákinn og feita strákinn, næstbesta vin hans. Næstbesta af því vitaskuld er Hitler hans besti vinur, leikinn af leikstjóranum sjálfum.

Þessi fyrsti kafli myndarinnar, í sumarbúðunum, er drepfyndinn út í gegn – fyrir utan kannski eitt atriði, sem sýnir fram á að hann Jojo hefur gott hjartalag, þrátt fyrir allar sínar ranghugmyndir.

Jojo – sem er skýrður eftir kanínunni sem hann fær ekki af sér að drepa – er nefnilega sonur einstæðrar móður og hans einu vinir er hinn bústni Yorkie og ímyndaði vinurinn, hann Adolf Hitler. Það er óvíst hvort pabbinn sé lífs eða liðinn, og kannski ekki óeðlilegt að stráksi búi sér til karlmennskufyrirmynd úr þeim áróðri sem haldið er að honum. En aðalatriðið er samt að samspil þeirra Hitlers er stórskemmtilegt – og einstaklega kjánalegt, sem hamrar á lúmskt einföldum skilaboðum myndarinnar, einfaldlega þeim hversu kjánalegur og kómískur nasisminn og önnur öfgaþjóðernishyggja er í raun. Þangað til þeir komast til áhrifa, auðvitað, svo ekki sé minnst á þegar þeir komast til valda.

Það sem kemur þó helst á óvart í Jojo Rabbit er að þrátt fyrir að Jojo, Hitler og Yorkie virðast í fyrstu ætla að vera í forgrunni myndarinnar kemur í ljós að á bak við leynist í raun femínísk mynd um flónsku nasismans. Jojo, Yorke og Hitler eru nefnilega allir óttaleg flón, þótt þeir séu kannski góðlátleg flón (altso, þessi ímyndaða útgáfa af Hitler) – og það er í raun bara einn  karlmaður í myndinni sem er ekki bölvað flón, en hann lifir af með því að leika flón.

Þetta er heimur fullur af karlmönnum að reyna að sanna sig, finna sér félagskap, eignast vini í hvaða kjánalega áhugamáli sem þeir geta fundið sér – og þarna kallast myndin aftur á við áðurnefnda bók Sjóns, þetta er í raun kaflinn sem vantaði í þá bók um örlög nýnasistans Gunnars Kampen – hvernig verður einhver að nasista?

Því þótt Jojo sé góð sál þá er hann hættulegur, þessar ranghugmyndir gætu vel leitt hann í alls kyns ógöngur. Og – HÖSKULDARVIÐVÖRUN – hefðu kannski gert það ef ekki væri fyrir þá gæfu hans að eiga góðar konur að. Bæði mömmu sína, sem Scarlett Johansson gerir að frábærri, ljúfsárri og kostulegri andspyrnuhetju – og gyðingastúlkuna sem hún felur, hana Elsu, sem Thomasin McKenzie leikur.

Báðar voru þær barnastjörnur – en samt var Scarlett heillengi að finna sig sem leikkonu. Lengi framan af var hún köld og stirðbusaleg, sérstaklega þegar á leið ferilinn og hún var ítrekað stimpluð sem kyntákn – en síðan, skyndilega, fyrir áratug eða svo fór hún að slaka á – gott ef það var ekki þegar hún var að gantast með Loka í fyrstu Hefnendamyndinni – og allar götur síðan hefur hún verið allt önnur og betri leikkona, sérstaklega núna í haust, með stórkleik bæði hér og í Marriage Story.

Thomasin McKenzie er hins vegar stjarna myndarinnar. Elsa er engin músarleg Anna Frank (þótt útlitslega minni hún á hana), heldur úrræðagóð og meinfyndin, kann að gera grín að barnalegum nasisma Jojo, sem verður á endanum til þess að hann áttar sig á hversu kjánalegur hann er. Auk þess sem hún segir honum þetta á endanum hreint út: „Þú ert ekki nasisti, Jojo. Þú ert tíu ára strákur sem finnst gaman að klæða þig í fyndna búninga og vera hluti af félagsskap.“ Nákvæmlega þetta var kannski akkúrat það sem gleymdist að segja Gunnari Kampen.

McKenzie var svo ennþá betri í fyrra í Leave No Trace, einhverju mögnuðustu mynd síðustu ára – þetta er einfaldlega langefnilegasta leikkona Hollywood í dag.

Strákarnir standa sig vissulega ágætlega líka, Roman Griffin Davis og Archie Yates eru sannfærandi sem vinirnir ungu, enda Waititi löngu orðinn sérfræðingur í að gera fullorðinsmyndir um tíu ára stráka (Boy og Hunt for the Wilderpeople eru raunar enn betri dæmi um það). Svo er unun að slánanum Stephen Merchant sem Gestapó-manni, sérstaklega augnablikið sem hann notar skyndilega hæðina til að virka ógnandi, ekki bara slánalegur eins og venjulega. Sam Rockwell fer vel með bitastætt hlutverk Hitlers-æskuþjálfarans, Rebel Wilson á nokkur stórskemmtileg atriði og Taika er prýðilegur grín-Hitler. En þær Thomasin og Scarlett eiga samt þessa mynd með húð og hári, þær eru hjartað og sálin í þessum tryllta heimi.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson