Maður finnst látinn í breskum lestarklefa. Hann er 24 ára gamall samkvæmt vegabréfi og titillinn er vísun í orðin sem lögreglumaður skrifar í minnisbók sína, ásamt því að teikna litla mynd af unga manninum, Gunnari Kampen. „Korngult hár, grá augu“ er lýsingin – og á ágætlega við hina arísku sjálfsmynd sem aðalpersóna sögunnar tileinkar sér.
Aðalpersónan er áðurnefndur Gunnar – í næsta kafla er spólað til baka um áratugi og alla leið í frumbernsku. Bernskan er rifjuð upp, bernska í skugga heimsstyrjaldar sem fyrst geisar í fjarska og er svo nýlokið þegar á líður. Stráknum lyndir illa við föður sinn, virðist einrænt barn, en áhugasamur um nágrannann Lúther sem er bæði kennari og formaður Hjólhestafjelagsins Sleipnis. Félags sem reynist einnig vera þýskuskóli.
Bókinni er skipt upp í þrjá álíka langa hluta og sá fyrsti birtir okkur fyrst og fremst bernsku Gunnars, frá fyrstu minningum til fermingar. Það er dregin upp sannferðug mynd af leitandi og dulu barni og það eru ýmsar lúmskar vísbendingar í þessum fyrsta hluta verksins um hvert framtíðin á eftir að leiða hann, eins og þýskuskóli Lúthers og stuttbylgjuútvarp föðurins. Í lok þessa hluta velur hann svo ritningarorð úr Lúkasarguðspjalli fyrir ferminguna sem presturinn bannar honum að flytja:
„Ef einhver kemur til mín og hatar ekki föður sinn og móður og konu og börn og bræður og systur, og jafnvel sitt eigið líf, hann getur ekki verið lærisveinn minn.“

Þetta sjálfshatur og kannski enn frekar þetta hatur gagnvart eigin uppruna, þetta föðurmorð, það rímar illa við jafn sjálfselska stjórnmálastefnu og nasismann, sem upphefur eina tegund af manneskjum sem merkilegri en aðrar fyrir það eitt að vera hver öðrum líkir.
En nasisminn hefur heldur ekki alltaf verið sérstaklega rökréttur í gegnum tíðina og Sjón birtir ágæta mynd af því í næsta hluta bókarinnar, sem samanstendur aðallega af sendibréfum sem Gunnar byrjar að skrifa á menntaskólaaldri, bæði til íslenskra skoðanasystkina sinna og til ýmissa leiðtoga þessara fyrstu nýnasistahreyfinga heimsins, bréf sem eru skrifuð á árunum 1954–1962.
Indverska nasistagyðjan og umhverfisverndarnasistarnir
Í þessum bréfum og í síðasta hlutanum koma fyrir ýmsar raunverulegar persónur og aðrar sem kæmi lítið á óvart að séu byggðar á raunverulegum persónum. Og Gunnar sjálfur virðist eiga sér nokkuð augljósa fyrirmynd í Bernhard Haarde. Þá er minnst á George Lincoln Rockwell, stofnanda ameríska nasistaflokksins, og Þóru Hallgrímsson, konu hans, sænska nýnasistann Göran Assar Oredsson, forsætisráðherrann Hermann Jónasson, sem kom í veg fyrir að margir gyðingar fengju hæli hérlendis, og rithöfundana Gunnar Gunnarsson og Ezra Pound, sem báðir valda Gunnari vonbrigðum. Hann segir að nafni sinn sé orðinn „rottuhundur Bandaríkjanna gegn heimskommúnismanum“ og rifjar upp þegar hann fann ljóð Ezra Pound á bókasafninu og varð fyrir vonbrigðum með að finna sáralítinn fasisma þar.
Athyglisverðust allra þessara sögulegu persóna er þó hin indverska Savitri Devi-Mukherji, sem hafði njósnað fyrir öxulveldin í stríðinu og blandaði nasisma saman við hindúisma, dulspeki og dýravernd og tókst einhvern veginn nánast að gera Hitler að kristgervingi nýnasismans, guðlegri veru í anda guðsins Vishnu.
Þetta er því ekki alveg sá nýnasismi sem við erum vön í dag, þessir nýnasistar virðast hallir undir Evrópusamvinnu og hatast við Bandaríkin, svo sitthvað sé nefnt. Og sumir þeirra hljóma á köflum eins og trjáfaðmandi hippar, eins og flæmskur félagi Gunnars til dæmis:
„Á meðan þeir borðuðu lýsti hann baráttu sinni og annarra flæmskra ungnasista fyrir mannúðlegri verndun búpenings og vernd villtra dýra og heimkynna þeirra. Í þeirra flokki væri mikil náttúruhyggja.“
Þetta er ágætis áminning um að stjórnmálastefnur taka á sig ýmsar myndir í gegnum árin og maður veltir raunar fyrir sér hvort þessir nýnasistar myndu fella sig við skógareyðingu Bolsonaro og and-náttúrulegar áherslur manna eins og Donald Trump og annarra fasískra leiðtoga nútímans.
En líklega myndu þeir sætta sig við það, ef þeir næðu að sannfæra sig um að það kæmi málstaðnum best. Nasistarnir vita líka að málstaður þeirra á ekki upp á pallborðið í augnablikinu, þeir þurfa að bíða þess að þeirra tími komi aftur. Á meðan finna þeir sér sinn felustað – og ílengjast þar sumir:
„Við hittum þá oft á fundum hjá Sjálfstæðisflokknum en í honum hafa allmargir þeirra hreiðrað um sig og hlotið að launum góðar stöður og bitlinga. Eins og við útskýrðum í fyrsta bréfinu til ykkar ætlum við að vera þar flokksbundnir uns við höfum náð að „rekrútera“ nógu marga til að eftir því verði tekið þegar við kljúfum okkur frá honum.“
Við skynjum hvernig ítök nasista ná upp í efstu lög samfélagsins, bankastjórinn sem er með Gunnar í vinnu rekur hann ekki þrátt fyrir yfirlýstar skoðanir hans, enda kemur upp úr dúrnum að hann sjálfur var fánaberi í göngu nasista fyrir stríð.
Ungmennafélög og hreystimennska
Þegar ég sá Sigur Viljans eftir Leni Riefenstahl í fyrsta skipti, helsta áróðursverk nasismans, þá sló þetta mig helst: þetta leit út eins og risastórt skátamót. Ungmennafélagsmót frá helvíti. Þetta er annað dæmi um vafasaman samslátt göfugra hugmynda og annarra vafasamari, eða eins og Gunnar sjálfur segir í einu bréfinu:
„Mér hefur þó reiknast til að það séu frekar þeir sem tóku sér stöðu sömum megin víglínurnar og faðir minn sem hafa þannig fallið fyrir þolinmóðum innri óvin en hinir, sem nærðust á hugsjónum um líkamlegan styrk og andlega vöku. (sé miðað við hvernig þetta samspil skoðana og krankleika birtist hér í Reykjavík.)“
Þarna er líka einna skýrasta vísbendingin um að Gunnar hafi hreinlega gerst nasisti í þvermóðskulegri unglingauppreisn gegn föður sínum og aðdáun á föðurbróðurnum sem hann aldrei hitti. En þar komum við þó að helsta galla bókarinnar, raunar þeim langstærsta: það er hreinlega eins og það vanti lykilkafla á milli fyrsta og annars hluta bókarinnar. Sá Gunnar sem ritar öll þessi sendibréf í öðrum hlutanum er þegar orðinn sannfærður nasisti, sá Gunnar sem birtist okkur í fyrsta hlutanum einrænt barn. Við fáum örlitlar vísbendingar hér um það hvernig hann gekk til liðs við málstaðinn, en ekki mikið meira en það – og það er slíkur lykilhluti sögunnar að það er illskiljanlegt að því sé sleppt og gerir þessa annars áhugaverðu persónu óþarflega tvívíða.
Mögulega er það bara þörf í félagsskap og skyldar sálir – maður skynjar félagsskap og samheldni í hóp nasistanna sem er ekkert svo ólík félagsskap sem önnur ungmenni fá í íþróttafélögum, bílskúrshljómsveitum, öðrum pólitískum ungmennahreyfingum, já eða súrrealismakreðsum úr Breiðholtinu, eins og þeirri sem Sjón hefur sagt í viðtölum að hafi verið hans leið inn í hausinn á Gunnari.
Það er til marks um að bókin sé tímabær að lítill hópur nasista hafi einmitt verið staddur á götum Reykjavíkur síðasta haust. En ólíkt flestum íslenskum öfgaþjóðernissinnum sem hafa látið í sér heyra undanfarin misseri þá er Gunnar ágætlega máli farinn og virðist sæmilega skarpt ungmenni, fyrir utan þessa risastóru hugsanavillu.
En mögulega er þessi saga vísbending um það að hafa beri í huga að skynsamari skoðanabræður þessa fólks kunni að bíða færis, bíða þess að skoðanir þeirra verði húsum hæfar aftur. Það hefur þegar gerst að einhverju leyti í ýmsum vestrænum ríkjum þar sem fasísk stjórnvöld og áherslur hafa náð fótfestu á ný.
Þannig kallast bókin að vissu leyti á Katrínarsögu Halldóru Thoroddsen sem kom út í fyrra, þar sem fram kom að nýfrjálshyggju-upparnir voru sjaldnast hippar sem höfðu beygt af leið, heldur miklu frekar hægri menn sem létu lítið fyrir sér fara og biðu færis, biðu þess að vindar sögunnar myndu blása aftur í þeirra átt. Á sama hátt hafa nasistar heimsins einfaldlega þurft að bíða eftir að heimsstyrjöldin hyrfi úr reynsluminni almennings. Sem virðist vera að gerast einmitt núna.
Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.
Birtist upphaflega í Stundinni þann 6. desember 2019.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson