Hvernig er hægt að bregðast við nauðgun?

Til þess eru margar leiðir, margar rökréttar, margar órökréttar, sumar kolrangar, annað hvort af því þær eru móralskt vafasamar eða mannskemmandi.

Michéle kannar ansi margar þessar leiðir í Elle, bæði í fantasíu og alvöru, þótt hún útiloki snemma að leita til lögreglunnar – hún hefur of slæma reynslu af löggunni til þess.

Myndin fjallar um konu sem velur röngu leiðina, aftur og aftur, af því er virðist sökum blöndu af eigin samviskubiti og vantrausti á fólki og ennþá frekar öllum stofnunum samfélagsins.

Það kemur ýmislegt við sögu, jafnvel of mikið – eða kannski of mikið til þess að myndin geti kallast raunsæ, sem hún er kannski á yfirborðinu – en í raun er þetta miklu frekar táknsaga Verhoevens um hvernig angar feðraveldisins lauma sér inní alla lífsins afkima.

Feðraveldið birtist vitaskuld sterkast í pabbanum, skrímslinu sem gerði hana samseka í eigin fjöldamorðum strax tíu ára gamla. Sjálf virðist Michéle gegnsósa af heimi með ansi brenglaðar kynlífshugmyndir, samanber tölvuleikinn sem hún er að þróa – og virðist uppspretta auðæfa hennar. Við sjáum glefsur úr honum og þetta virðist fyrst og fremst nauðgunarfantasía með ævintýrapersónum, þar sem flestir viljast helst samsama sig skrímslinu. Eitthvað sem hún, bókmenntafræðingurinn, veit að mun selja og segir starfsmönnum sínum að leita að „boner“ augnablikinu.

Það er dálítið eins og hún haldi sífellt áfram að bæta við eigin erfðasynd – og það er ítrekað verið að refsa henni, hvort sem um er að ræða heimilisofbeldi eða nauðgun. Þetta er mynd um Stokkhólmsheilkenni en líka hvernig er hægt að yfirvinna það.

Ástæðan fyrir því að þessi þversagnakennda og um margt ólíkindalega persóna gengur upp er svo auðvitað Isabelle Huppert. Leikkona sem getur sveiflast frá því að vera tuttugu ára og sextíu ára í sömu senunni, sem sveiflast auðveldlega frá því að vera ísköld og hlátumild, frá því að vera trámatíseruð og frá því að vera konan með með völdin.

Sumir hafa velt upp þeirri spurningu hvort þarna sé nauðgunarmenning upphafin, jafnvel gefið í skyn að hún elski kvalara sinn. Það virðist nokkuð málum blandið, það er frekar að hún vilji tengja við hann, skilja hann, eitthvað sem mann grunar að spegli dálítið tilfinningarnar til pabbans.

Þetta er táknsaga um feðraveldið – og tilraun til þess að fara með þessa menningu í óvæntar áttir á breyttum tímum. Sumar persónurnar virðast þó sjá ýkt viðbrögð sumra bréfritara fyrir þegar ein þeirra segir í matarboði:

„Fólk áttar sig ekki á að listvöðvinn þarf æfingu, annars hrynur menningin, verður feit og löt. Það er staðan núna, við lifum í menningu letinnar.“

E.S.: Loks er rétt að nefna tvær greinar sem hafa í raun svarað því sem svara þarf varðandi opna bréfið sem barst RÚV í vikunni. Annars vegar skrifar Árni Pétur hér svarbréf á Stundina og Eiríkur Örn bloggar á Fjallabaksleiðina.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson