Á leiðinni niður stigann sé ég brúnt laufblað fjúka eftir jörðinni og held fyrst að það sé rotta. Af því ég er nýkominn af einhverri bestu hryllingsmynd sem ég hef séð lengi, þótt kannski sé hún ekkert hryllingsmynd. Þessi hversdagslegi hryllingur …

Svo kem ég í metróið, þetta eru bara fjögur stopp en kannski er það nóg fyrir stelpuna með slæðuna til að teikna okkur öll. Hún er með traustvekjandi teikniblokk, ég treysti henni til að teikna mig heiðarlega. Eða manninn á móti – eða einhvern sem fór út úr metróinu fyrir löngu.

Svo sest hún á móti mér, tvífari ljóðskáldsins sem skrifaði Berlínarljóðabókina sem ég elskaði og fannst sönn og kannski er tvífarinn hún núna, að hugsa um sömu bók en bara á öðru tungumáli? Ný tegund þýðingar, andsetning. Hún er smekklega og snyrtilega klædd – en hún gæti ákveðið að sofa á götunni í nótt til þess að tengja betur við sársaukann. Og þó, nei, ég held hún þurfi þess ekki. Hún er búin að skora sársaukann á hólm, búinn að setja fötin í hreinsun og er núna að fara heim að skrifa. Hún er tilbúin. Núna. Fer heim og klárar þessa helvítis bók og slær í gegn.

Ég er hins vegar örmagna, get ekki skrifað dómana sex sem ég skulda í kvöld – kannski á morgun. Kannski skrifar hún þá fyrir mig. En þær eru tvær frábærar, eiga skilið ritgerð. Ein ömurleg, á skilið allt mitt hatur – og svo þrjár einhvers staðar þarna á milli. En eins og þýskarinn segir, bis später!

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson