Ævintýrin eru misjafnlega vel þekkt. Sum þeirra eru eins og Gosi og Rauðhetta, það þekkja þau allir – og sum eru eins og Undine, maður þekkir þau lauslega, hefur óljósa minningu – jafnvel bara frá skyldu ævintýri með svipuð þemu.
Ævintýri um vatnagúur, selshama og hafmeyjar hafa skolast dálítið til í gegnum aldirnar og löndin, við gætum vitnað í Undine, rúmlega tvöhundruð ára gamla þýska nóvellu eftir Friedrich de la Motte Fouqué (þvílíkt nafn!), Litlu hafmeyjuna eftir H.C. Andersen eða íslenska ævintýrið Selshaminn, allar eru þær af sömu rót en fara misjafnlega með efniviðinn og það sama hefur gerst í bíó.
Þýska ævintýrið hans Fouqué er þó helst undirliggjandi í Undine, nýjustu mynd Christian Petzold. Sú ævintýralega bók var ein frægasta barnabók 19. aldar, eitthvað sem hvert einasta þýskt og enskt barn könnuðust við – en hún virðist ekki hafa náð sömu útbreiðslu á Íslandi, það virðist að minnsta kosti sem þýðing Steingríms Thorsteinssonar, Úndína, hafi ekki verið prentuð síðan fyrir fyrri heimstyrjöld.

Svo vinsæl var hún hins vegar á sínum tíma að tónskáld nítjándu aldar kepptust við að semja um hana óperur, Hoffman, Tsjækovskí og Dvorak þar á meðal, auk þess sem Debussy samdi píanóprelúdu upp úr verkinu. Fyrsta kvikmyndaaðlögunin var svo meira en aldargömul þögul mynd sem er löngu týnd, aðalhlutverkið var í höndum íþróttakonu að reyna fyrir sér í leiklistinni, Idu Schall, og gagnrýnendur veltu fyrir sér hvort Undress hefði verið réttmætari titill, sem segir líklega meira um siðgæði þess samtíma en myndina sjálfa, ef marka má þær stillur sem enn má finna.
Andy Warhol gerði svo illfinnanlega tilraunakennda mynd upp úr sögunni The Loves of Ondine, og loks gerði Neil Jordan, sá glæpsamlega vanmetni írski leikstjóri, ansi hreint magnaða mynd upp úr sögunni fyrir rúmum áratug – Ondine, sem ég skrifaði einmitt um hér. Það er nútímauppfærsla á sögunni, þar sem Jordan notar hana sem grunn til að segja ansi hreint merkilega sögu af flóttamönnum, alkóhólisma og örlagatrú.
Petzold er á svipuðum slóðum, ef maður mætir ólesinn í bíó er maður smátíma að átta sig á í hvert stefnir, framan af virkar myndin nefnilega afskaplega jarðbundin. Undine (Paula Beer) var að hætta með kærastanum og einbeitir sér að vinnu sinni á arkitektúrsafni í Berlín, hún virðist vera einhvers konar borgarskipulagssagnfræðingur, rekur sögu Berlínar í gegnum húsin og hverfin og arkitektúrinn.

Þessi fyrirlestur hennar er afskaplega fróðlegur en kannski örlítið þurrlega matreiddur, svona kvikmyndalega séð, sem gefur þó röng fyrirheit um myndina sem verður mun sjónrænni og djarfari þegar á líður.
Rétt eftir þetta kemur nefnilega eitt magnaðasta atriði myndarinnar, þar sem hún hittir kafarann Christoph (Franz Rogowski) fyrir framan risastórt fiskabúr á kaffihúsi rétt hjá safninu. Christoph var á fyrirlestrinum og var hrifinn, er að fara á fjörurnar við hana – þegar fiskabúrið springur. Ég þyrfti líklega að horfa aftur til að fá það á hreint hvað olli því, ef eitthvað – en þetta er göldrótt sena, með kafara í fiskibúri og einkennilega náinni senu þar sem þau liggja bæði og Christoph týnir úr henni glerbrotin.

Christoph þessi reynist vera iðnaðarkafari með skarð í vör. Það er rétt að minnast á skarðið, afskaplega fallegt hvernig myndin lætur mann með skarð í vör vera hönk myndarinnar, enda er Christoph myndarmaður og ekki með minnstu komplexa yfir skarðinu.
Starfi hans skiptir þó meira máli – hann er vatnasveinn og hún vatnadís, hann er í einhverjum skilningi jafningi hennar – og tenging þeirra í raun frávik frá helstu útgáfum sögunnar, þar eru ástmennirnir eru vissulega oftast sjómenn, en jafnvel þeir eyða tíma sínum að mestu ofansjávar, þótt nándin sé mikil. Christoph líður hvergi betur en í vötnum nálægt borginni, þar sem hann rekst á goðsagnakennda vatnafiska og graff með nafni Undine.

Einhvers staðar þarna byrjar maður að tengja; flestar eldri heimsborgir eiga það sameiginlegt að spretta af vatni. Ef þær eru ekki hafnarborgir liggur í gegnum þær einhver lífæð, einhver á, eða, eins og í tilfelli Berlínar, er borgin komin af mýri.
Þannig fer maður að skynja hvað Petzold sé að reyna að segja með þessari tengingu borgarsagnfræði, hafgúu og kafara; Undine er Berlín, þessi hættulega en heillandi borg sem hægt er að kafa endalaust í. Eins og Christoph sannarlega gerir. Samband þeirra, rétt eins og borgarinnar við íbúa sína, er flókið og þversagnakennt, en hvorugt geta án hvors annars verið. Þetta er kannski ekki síður aðlögun á Himninum yfir Berlín en ævintýrinu um hafgúuna, goðsagnaverurnar eru fyrst og síðast borgin sjálf sem þráir samneiti við manneskjurnar sem hana byggja, draugarnir sem eru í hverjum steini, hverjum minnisvarða.
Vandinn er hins vegar að þegar á líður er eins og Petzold liggi á að klára söguna, rétt um það leyti sem maður er byrjaður að tengja þemun saman, og þótt það sé draumkennt og heillandi um margt þá hefði hreinlega vel mátt bæta góðum hálftíma í miðja mynd (myndin er bara 90 mínútur sem stendur, þannig að það myndi ekki reyna um of á þolrifin) þar sem hugmyndirnar sem hann er að vinna með eru þróaðar betur áfram, þá hefði lokahluti myndarinnar – sem er vel úr garði gerður – haft mun meiri slagkraft.
Það er kannski helsti munurinn á mynd Petzold og Jordans, mynd Jordans átti erindi, það átti mynd Petzold líka, en það er dálítið eins og hún hafi gleymt því erindi í óþarfa flýti við að klára söguna.
Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð þess.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson