Ég mætti hæfilega bjartsýnn á Gosa í Berlinale Palast. Fyrstu kynni okkar Matteo Garrone voru að vísu ekki jákvæð, Gomorrah var nefnilega algjör mafíu-klisjusúpa, en hins vegar fannst mér Tale of Tales alveg prýðileg, mynd sem lék sér skemmtilega með gömul ævintýraminni, og sökum þess skyldeika hefði maður haldið að hann væri líklegur til að gera eitthvað gott úr Gosa.

Hins vegar hef ég alltaf átt dálítið erfitt með Gosa, fannst hann sem krakki eitt af leiðinlegri ævintýrum (ég er mögulega aðallega markaður þar af skelfilegri teiknimyndaþáttaröð í RÚV sem ætlaði aldrei að enda) – og já, hann á heima í þeim flokki þótt hann eigi það sameiginlegt með Litlu hafmeyjunni að eiga staðfestan upprunalegan nítjándu aldar höfund, kannski aðallega af því hugmyndir okkar um öll þessi ævintýri renna saman í einn sagnaheim, það margar og ólíkar útgáfur höfum við séð eða lesið í ótal mismunandi miðlum.

En það var svo löngu seinna sem ég fór að skynja hvað lá að baki, Gosi er erfið saga, það er mórall og fagurfræði á bak við sem er athyglisverð – en það er djúpt á henni og fæstar aðlaganir komast þangað klakklaust.

Sum ævintýri eru eins og Rauðhetta, það er varla hægt að klúðra Rauðhettu. En það er hægt að klúðra Gosa – og Garrone klúðrar Gosa rækilega. Ástæðan er þó vel að merkja ekki Roberto Benigni, hann er alveg þokkalegur sem Gepetto – og þau eru ekki nema tvö í leikhópi myndarinnar sem eiga skilið svo rausnarlega umsögn, Marine Vacht er sömuleiðis prýðileg í mjög litlu hlutverki álfameyjarinnar eldri (yngri útgáfan er lítt sannfærandi).

Flestar ákvarðanir sem Garrone tekur hér eru svo einfaldlega vondar, gervin eru afskaplega ljót, og ekki ljót á athyglisverðan eða fallegan hátt, bara ljót og asnaleg. Leikstíllinn sem settur er fyrir er svo óþolandi, þetta er skræka barnaleikhúsið alla leið og mann verkjar til skiptis í eyru og augu. Það er greinilega nóg af peningum lagt í myndinna, hann er bara nýttur illa.

Stærsti vandinn er svo að Garrone misskilur algjörlega kjarna sögunnar, jafnvel þótt hann sé ágætlega trúr henni. Hann gerir sig meira að segja sekan um skelfilegan stéttamóral í einni senunni, þar sem Kötturinn og Refurinn (mennskir með asnaleg veiðhár) eru að telja um fyrir Gosa og veitingamaðurinn kemur að þeim og bíður þeim ríflegan skammt af afgöngum. Þeir firrast við, hvað heldur hann að þeir séu? Veitingamaðurinn er hissa, þeir höfðu ekki flotinu neitað daginn áður. Þarna sér maður þó hvað myndin heldur að þeir séu; fátæklingar sem skammast sín fyrir fátækt sína – og það er eins og myndin fordæmi þá ekki síður fyrir það en smáglæpina sem þeir stunda af miklum klaufaskap.

Svo þraukaði ég áfram og myndinni lauk og þetta var frumsýning þannig að eftir að hafa setið fúll og staðfestlega ekki klappað með salnum forðaði ég mér út svo ég myndi ekki óvart stökkva upp á svið og kyrkja leikstjórann og flesta leikarana.

Út af því svoleiðis gerir maður ekki. Maður fer bara heim og skrifar harðorðan ritdóm. Lofa samt engu um að tjúllast ekki ef RÚV ákveður að sýna hana …

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð þess.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson