Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs verða sífellt fjölþjóðlegri, rétt eins og myndirnar sjálfar. Núna í ár var Volaða land framlag Dana, mynd sem gerist mestöll á Íslandi og leikstjórinn er íslenskur, en þar er þó sannarlega danskur vinkill – myndin byrjar í Danmörku (inni, hefði svosem getað verið tekið upp hvar sem er) og danskar persónur eru til staðar ásamt þeim íslensku myndina í gegn. Í grunninn er þetta jú mynd um samskipti þessara tveggja þjóða í gegnum aldirnar.
Sænskt bíó verður hins vegar fjölþjóðlegra með hverju árinu. Framlag Svía til Óskarsins í ár er Boy From Heaven, mynd sem fjallar um spillingu og egypska feðraveldið í háskóla í Kaíró. En leikstjórinn Tarik Saleh er sænskur, alinn upp í Svíþjóð og faðirinn egypskur og móðirin sænsk. Ein besta mynd síðari ára var svo framlag Svía til Óskarsins 2019, And Then We Danced, sem var smyglað um hér og er alfarið georgísk saga, nema leikstjórinn er sænskur – sonur georgískra flóttamanna. Árið áður voru Mæri eftir Ali Abbasi framlag Svía, sannarlega afskaplega sænsk saga – en Abbasi er hins vegar Írani sem flutti til Svíþjóðar til að fara í nám fyrir tuttugu árum, er núna sestur að í Danmörku og nýjasta myndin hans er framlag Dana til Óskarsins í ár – Holy Spider – mynd sem gerist öll í Íran eftir því sem ég fæ best skilið.
Leikstýra Clara Sola, Nathalie Álvarez Mesén, er svo fædd í Svíþjóð, en faðirinn var frá Uruguay og móðirin frá Kosta Ríka. Hún flutti svo til Kosta Ríka aðeins sjö ára gömul – flutti svo aftur til Svíþjóðar til að fara í kvikmyndaskóla – og fer svo til Kosta Ríka að gera sína fyrstu mynd í fullri lengd. Sem er framlag Svía til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs, en var framlag Kosta Ríka til Óskarsins í fyrra.
Hvað þýðir þessi þróun? Er þetta jafnvel öfugsnúin nýlenduvæðing – sænsku eða dönsku Egyptarnir, Persarnir og Kosta Ríka-búarnir að snúa heim með allan norræna velferðarpeninginn að gera bíó fyrir þá sem urðu eftir?
Því geta umræddir heimamenn örugglega svarað betur en ég – en þessir leikstjórar geta allavega stundum tekist á við ákveðin tabú sem innlendir leikstjórar myndu aldrei fá fjármagn – og stundum ekki heldur leyfi – til að takast á við. Og það er vafalaust hægt að gera töluvert meira með norrænt fjármagn í fátækum löndum en eingöngu með pening úr þarlendum sjóðum. Það á við um margar áðurnefndar myndir, það er „dýrari“ áferð á þeim en meiri lókal myndum, en Clara Sola virkar þó við fyrstu sýn ósköp einföld mynd; gerist mestöll í pínulitlu þorpi og aðeins örfáir leikarar koma við sögu að einhverju ráði. En þegar litið er bak við myndavélina eru þar klippari Dardenne-bræðra og annað sjóað fólk úr evrópska bransanum sem hefði kannski ekki verið fáanlegt í venjulega Kosta Ríkanska mynd.
„Lítil stúlka í líkama fullorðinnar konu“
En nú er löngu kominn tími á að fjalla aðeins um myndina sjálfa, sem gerist að mestu í afskekktu býli í Varablanca, 700 manna sveitarfélagi – en jafnvel hinir 700 íbúarnir eru töluvert langt í burtu frá aðalpersónum sögunnar. Titilpersónan Clara býr með móður sinni Fresiu og Mariu, fjórtán ára dóttur látinnar systur hennar. Þær eru með einhvern takmarkaðan búskap en aðaltekjulindin virðist þó vera meintir mystískir hæfileikar Clöru til að heila fólk. En hver er þessi dularfulla Clara?
„Lítil stúlka í líkama fullorðinnar konu.“ Þannig lýsir Wendy Chinchilla Araya, aðalleikona myndarinnar, Clöru í færslu á Instagram. Hún virðist eiga stutt í fertugt, en er á einhvern undarlegan hátt bernsk – og hverjar ástæðurnar eru er einn stærsti leyndardómur myndarinnar. Manni dettur vissulega fyrst í hug að hún sé á einhverju einhverfurófi – og það getur meira en verið að það sé ástæðan, en það spilar líka inní að bæling mæðraveldisins sem Fresia hefur búið til þarna í skóginum er ansi svakaleg.
Það sést best þegar þær fara saman á spítala snemma í myndinni og er bent á að Clara þurfi aðgerð til þess að laga hryggskekkjuna sem valda henni ómældum kvölum. Læknirinn tekur fram að aðgerðin sé ókeypis, tryggingarnar borgi hana – en Fresia vill ekki heyra á það minnst.
„Guð gaf mér hana svona, hún verður svona áfram,“ svarar móðirin heittrúaða og þar með er málið útrætt. María maldar þó í móinn, spyr af hverju hún hefði þá mátt fara í tannréttingu, hvernig hefði það inngrip verið almættinu þóknanlegt?

En ofsatrúin reynist valkvæð – og það er ljóst að það gilda aðrar reglur um hina fullorðnu Clöru og hina fjórtán ára Mariu. Clara er rækilega ofvernduð af móður sinni, svo mjög að hún er nánast eins og fangi á eigin heimili. Það eru merkt landamörk sem Clara má ekki fara út fyrir, hún má ekki baða sig í bæjarlæknum nema í fylgd með einhverjum og þar má hún bara fara út í upp að hnjám. Og þegar hún finnur fyrir einhverjum kenndum við að horfa á telenóvellur þá setur móðirin chilli á puttana svo hún hætti að klóra sér á forboðnum stöðum.
Ástæður ofverndunar móðurinnar eru allan tíman óræðar – líklegast er hún að búa sér til hálfgerðan dýrling með ofvernduninni, og svo er Clara líka einfaldlega of sérstæð til að hún skilji hana, sem verður til þess að hún þorir ekki á nokkurn hátt að hleypa henni einni út í veröldina.
Við vitum vel að merkja aldrei hvort að blessanir Clöru á þorpsbúum sem koma í heimsókn virka, maður efast þó, einfaldlega af því Clara gerir þetta fyrst og fremst að kröfu móður sinnar, ekki að eigin frumkvæði. Það er hins vegar ljóst að hún hefur náðargáfu – hún skilur náttúruna betur en allir í kringum sig, hesturinn Yuca og paddan Ofir eru hennar nánustu vinir og þeim getur hún vafið um fingur sér – og á erótískri gleðistundu í lífi hennar hópast drekaflugurnar að henni til að fagna með henni.
Clara er nefnilega fyrst og fremst villibarn, fullorðið villibarn, hún er Móglí okkar tíma. En það er ekki bara náttúra dýrana sem knýr hana áfram, hin dýrslega náttúra manneskjunnar er líka farin að knýja dyra – og ágerist þegar hinn blíðlyndi Santiago tekur að venja komur sínar í sveitina.
Úr verður hálf einkennilegur ástarþríhyrningur hans, Maríu og Clöru – af því María er sannarlega barnung en það er miklu frekar látið við Clöru sem barn. Hann er þó á sinn hátt frekar viðfang Clöru en nokkuð annað, hún þarf einhverja kveikju fyrir sína uppreisn sem kynveru – en líka bara sína uppreisn sem manneskju.

Hún er sérstök á einhvern óræðan hátt og það hefur orðið til þess að mamma hennar – og í sjálfu sér sveitin öll – hafa skapað henni órætt fangelsi. Fangelsi þess sem fær ekki að gera það sem öðrum er sjálfsagt. Hún er barngerð sökum alls þessa, og hér veit maður ekki hvað kemur fyrst – og er kannski það sem er forvitnilegast að íhuga; er hún á einhverju rófi eða er henni ýtt á eitthvað róf fyrir það eitt að vera öðruvísi? Líklegast kannski að sannleikurinn sé einhvers staðar þarna á milli, að samspil umhverfis og erfða hafi ýtt henni ennþá lengra í burtu frá mannlegu samfélagi. Að úrræðaleysi mömmunnar og annarra þorpsbúa gagnvart hinu framandlega geri Clöru enn framandlegri, loki á allar leiðir inn.
Á meðan stendur fimmtán ára afmæli Maríu fyrir dyrum – og það reynist hálfgerð einnar stúlku fegurðarsamkeppni. Kvendómsvígsla þar sem henni er stillt upp uppstrílaðri og fær að skipta úr flatbotna skóm yfir í háa hæla. Þótt móðirin biðji með gestum þá er myndrænn undirtextinn skýr: þessi stúlka er núna tilbúin til að taka við bónorðum, hún er orðin kynveran sem Clöru er meinað að verða.
Það er svo fyrst og fremst tvennt sem veldur því að þetta gengur allt saman upp. Annars vegar er það aðalleikkonan, hin einstaklega svipsterka Araya. Rétt eins og aðrir leikarar er þetta hennar fyrsta hlutverk, en hún er reyndur dansari og það skín í gegn, þessi glíma ungrar konu við gallaðan líkama er eitthvað sem dansarar geta mögulega túlkað öðrum betur – og hlutverkið allt er í raun eins og hæglátur nútímadans Maríu við heiminn, túlkuð með mögnuðum og veðruðum svipbrigðum, hægum en ákveðnum hreyfingum og því hvernig hún getur á köflum, þrátt fyrir að vera afskaplega fámál, haft merkilega sterk áhrif á alla í kringum sig.
Hitt er svo tilfinningin fyrir hinu yfirnáttúrulega. Það er alveg ljóst að íhaldsöm guðstrú þorpsbúa blandast frjálslega saman við ævaforna hjátrú og hindurvitnanir – og á vissan hátt fjallar myndin um óræðan bardaga þar á milli, á milli vestræns Guðs spænsku innrásarherjanna og ævafornra og heiðinna skógarandanna frumbyggjanna sem öllum eru gleymdir, þótt þeir lifi enn í ýmsum óræðum myndum. Þannig getur Clara gefið mönnum og dýrum sitt sanna nafn, séu þau þess verðug, hafi þau unnið traust hennar – og hún er í raun á bandi skógarandanna, þótt móðirin reyni að fá hana til liðs við anda kristninnar þá áttar maður sig fljótt á því að hér er Jesú ekki á heimavelli.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson