Það eru tvöfalt fleiri tígrisdýr í einkaeign í Ameríku en ganga laus í heiminum. Það er sú sturlaða staðreynd sem liggur á bak við The Tiger King, Netflix-seríuna sem hefur gert allt brjálað í þessu kófi.

Þættirnir fjalla þó miklu frekar um fólkið á bak við tígrisdýrin – og framan af væri eiginlega meira réttnefni að tala um tígrisdýrakóngana tvo og tígrisdýradrottninguna. Framan af skiptumst við á að fylgjast með þeim Joe Exotic, Bhagavan Antle og Carole Baskin, en þeir tveir fyrstnefndu reka dýragarða þar sem hægt er að klappa villtum kattardýrum. Carole segist hins vegar ætla að bjarga þeim – en hún virðist þó vera með ósköp svipað viðskiptamódel.

Þetta er hvítasta rusl-hyski sem hægt er að ímynda sér, þegar virðulegur lögfræðingur birtist seint í seríunni bregður manni aðeins – og hugsar: „Fjandinn, loksins manneskja sem virðist ekki klippa hárið á sér sjálf.“

Joe verður hins vegar aðalsögupersóna þáttanna þegar líður á, maður hefur á tilfinningunni að heimildamyndagerðarmennirnir hafi einfaldlega á endanum komist að því að hann væri besta bíóið – eða kannski hafði Bhagavan Antle vit á að veita þeim ekki alveg jafn óheftan aðgang og Joe gerir.

Öll eru þau arðræningjar, hvert á sinn hátt. Þau halda úti risastórum búgörðum sem velta miklum fjármunum en flestir starfsmennirnir vinna fyrir lítið sem ekkert, eru jafnvel hálfgerðir fangar – þetta virðast oft hálfgerð költ. Bhagavan virðist raunar allra vafasamastur – hann fær til sín ungar stelpur, 16-17 ára, og hreinlega aðlaðar (e. groom) þær – leiðin til frama á búgarðinum er að vinna sextán tíma vinnudag og öðlast andlega uppljómun með því að komast í náið, mjög náið, samband við heilagleikann. Þannig notar hann kattardýrin stóru í raun bæði til þess að byggja upp eigið kvennabúr og til þess að skaffa ódýrt vinnuafl.

Joe hins vegar eltir einfaldlega uppi ógæfufólk. Finnur fólk, helst nýkomið úr fangelsi eða neyslu, fólk sem hefur brennt allar brýr, og býður þeim síðasta tækifærið; trygga vinnu og húsaskjól. Joe var sjálfur ógæfumaður – þegar foreldrarnir sættu sig ekki við samkynhneigð hans reyndi hann að fyrirfara sér. Í upphafi þáttanna er hann hins vegar í sambandi við tvo aðra menn, sem báðir virðast eiga það sameiginlegt að vera gagnkynhneigðir – en telja sig hagnast á því að vera í ástarsambandi við Joe.

Sagan endalausa og gjald óskanna

En hver er mórall þáttanna? Það er best að leita í heimsbókmenntirnar til að átta okkur betur á honum.

Í seinni hluta Sögunnar endalausu eftir Michael Ende hefur Bastían Baltasar Búx öðlast hálfgerða almættisstöðu í heimi Hugarheima, hann fær það hlutverk að skapa heiminn upp á nýtt eftir tortímingu og fær næg verkefni til þess; hann getur nefnilega óskað sér hvers sem er. Og það er ekki einhver nískur andi í lampa að veita óskirnar, þær eru ekki þrjár – þær eru óteljandi. En vandinn er að sérhver ósk hefur afleiðingar, skapa oftar en ekki einhvers konar vandamál. Með því að óska þér demanta skaparðu demantanámur og allt það arðrán og subbuskap sem þeim fylgja.

Í The Tiger King sjáum við hvering hinn ameríski draumur rætist, ítrekað, hér er sannarlega búið að búa til samfélag sem ótrúlegustu draumar geta ræst – en kostnaðurinn er iðullega skelfilegur. Þú getur fengið að klappa stórum villtum kattardýrum alla daga – en í staðinn færðu aldrei frí, ert hálfgerður fangi og jafnvel kynlífsþræll. Fyrir utan að mögulega þarf að aflima þig á einhverjum tímapunkti eftir tígrisdýraárás. Draumurinn reynist sjaldan þess virði.

Þeir venjulegustu í hópi aðalpersónanna eru kannski Joshua Dial og Rick Kirkham, tveir menn með fullu viti sem sjá tækifæri í aðstæðunum. Kirkham hefur unnið við raunveruleikasjónvarp og sér þarna tækifæri lífsins, þangað til raunveruleikinn kemur aftan að honum. Dial er nýútskrifaður stjórnmálafræðingur sem vinnur í Wal-Mart en dreymir um að verða kosningastjóri einn daginn – sá draumur er það sterkur að hann tekur að sér kosningastjórn fyrir Joe, jafnvel þrátt fyrir að það sé augljóst að hann sé aldrei að fara að vinna og þótt hugsjónir hans eigi ekkert sameiginlegt með hugsjónum Dial. Draumarnir trompa allar hugsjónir, en án hugsjóna reynast hins vegar draumarnir holir og tortímandi.

Joe fer í forsetaframboð og vinnur augljóslega ekki – er hvergi nálægt því, eða hvað?

„They provide a recurring horrorshow in which all the neuroses that haunt the American subconscious dance naked on live TV,“ skrifaði Fintan O‘Toole í The Irish Times og það var erfitt að átta sig á hvort hann væri að tala um The Tiger King eða blaðamannafund Donald Trump, sem vann ómaklegan sigur á Joe fyrir fjórum árum síðan.

Þegar á líður fer svo árátta Joe gagnvart Carole Baskin að aukast, hann vill hana feiga – og hún er af mörgum grunuðum að hafa drepið fyrrum eiginmann sinn. Vitaskuld er alltaf erfitt að meta hver er sekur og hver ekki í sakamálum út frá fjölmiðlaumfjöllun og heimildamyndum, en þegar við bætist að þættirnir – jafn einkennilega heillandi og þeir vissulega eru – virka á mann sem á margan hátt afskaplega vafasöm blaðamennska þá eru þeir vont tæki til þess að meta hvort Carole sé sek um þetta morð og hvort Joe sé sekur um að hafa lagt á ráðin með að myrða Carole.

En hann fer í fangelsi fyrir sameiginlegar syndir þeirra allra, jafnvel þótt mögulega sé hann syndugastur. Í kjölfarið fylgir stórfurðulegur viðauki, þar sem margar persónurnar eru fengnar í viðtal – og mörg þeirra virðast vera að endurskrifa söguna og endurtúlka, og það virðist þáttastjórnandinn einnig vera að gera.

Niðurstaða þeirra flestra virðist þó vera sú að Joe hafi viljað dýrunum vel til að byrja með – en svo hafi þetta farið að snúast um eitthvað allt annað, tígrisdýrakóngurinn hafi fyrir löngu verið búinn að gleyma dýrunum.

En þættirnir gleyma dýrunum líka. Dýrin eru vissulega reglulega í mynd en við fræðumst samt sáralítið um þau. Hvernig er best að meðhöndla risastór kattardýr sem gætu rifið hausinn af þér í einum munnbita? Eru þau í alvörunni eitthvað sérstaklega hættuleg ef hópur dópista – margra rækilega virkra – og táningsstelpna ræður nokkuð auðveldlega við þau? Það virðist enginn þarna vera með nein próf upp á vasann né víðtæka reynslu, hvað þá neina djúpspeki um hvernig koma eigi fram við dýr, við tamningar eða annað. Eins verð ég að viðurkenna að það kemur eiginlega á óvart hversu mikið af umræðum í kringum þættina snúast um hvað sé rétt og rangt varðandi það að halda villtum dýrum föngnum – þættirnir takast nefnilega sáralítið á við þá spurningu í raun, hvorki er afstaða tekin né lærir maður mikið um aðstöðu dýranna. Nema vissulega það að mannfólkið sem sér um dýrin eru stjörnugalið upp til hópa, en það virðist þó meira koma niður á öðru mannfólki, frekar en dýrunum.

Þá fara þættirnir rækilega yfir strikið í atriði sem jaðrar við að vera snöff-mynd – við sjáum ekki sjálfsmorð en við sjáum viðbrögð við sjálfmorði úr öryggismyndavél.

Þetta er raunar eins og raunveruleikaþáttur sem fór úr böndunum – og er það kannski, maður veit ekki hvaðan myndefnið kemur – og þrátt fyrir alla gallana við það form þá er það mögulega eina formið sem hentar þessari sögu, vandaðri og flinkari kvikmyndagerðarmenn hefðu sjálfsagt gert dannaðri og betur uppbyggða þætti – en mögulega er í eðli þessa söguefnis að það virki best sem lestarslys sem heimsbyggðin getur ekki tekið augun af. Þetta er í raun sá endapunktur sem þróun sjónvarpsþátta síðustu 25 árin hefur leitt okkur – frá raunveruleikaþáttum og Jerry Springer yfir í gullöld Netflix – og Tígrisdýrakóngurinn er hið afskræmda afkvæmi þeirrar sjónvarpssögu.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson