Bíó Paradís er ein stór minning, þær bíómyndir sem bíóið sérhæfir sig í eru þær myndir sem takast í alvöru á við okkar sameiginlega minni, okkar persónulega minni, en ekki síður framtíðardrauma og martraðir.
Ég man þegar ég gekk skjögrandi út af Blind, mynd um blindan rithöfund – á pappír gæti fátt virst jafn illa fallið fyrir kvikmynd, en myndin fangar einmitt þversögn listgreinarinnar best, verk um blindu og orð nýtur sín hvergi betur en í þessum sjónræna miðli, þar sem hún verður að mynd um ímyndunaraflið, hvernig myndirnar á tjaldinu eiga uppruna sinn í hausnum á okkur ekki síður en í raunveruleikanum. Ég var í hálfgerðri leiðslu þegar ég gekk út úr bíósalnum og þurfti að segja öllum frá upplifuninni, þetta er endurtekið högg í magann, eins og öll bestu listaverkin þá ræðst hún á ónæmiskerfið manns, þið vitið, doðann sem oft á tíðum rúðustrikað hversdagslífið getur skapað manni. Doðann og blinduna sem möppudýr hins opinbera sem og þvermóðskufullir leigusalar eru með á andlega lífshættulegu stigi ef þeir finna ekki leiðir til að bjarga Bíó Paradís.
Ég man eftir vikulegu sunnudagsbíói með góðum vini, á hverju sunnudagskvöldi tvo vetur áður en við fórum báðir út í heim. Stundum mynd sem við vorum spenntir fyrir, alveg jafn oft mynd sem við vissum ekkert um. Sem var svo krufin og rædd í bland við þjóðmálin um leið og við drukkum síðasta bjór helgarinnar.
Ég man eftir síðustu vikunni fyrir kóf, síðustu vikunni fyrir hert samkomubann, sem var mögulega líka síðasta vika Bíó Paradísar. Ég var mættur á Stockfish, var farfugl sem festist heima, og eftir ágætlega líflega byrjun á hátíðinni fækkaði hratt og örugglega þegar á leið, en úr varð ansi samheldinn hópur starfsmanna, sjálfboðaliða og þessara örfárra fastagesta. Og saman horfðum við á myndir sem tókust á við samtíma sinn og framtíð, og þrátt fyrir að þær hefðu verið gerðar löngu fyrir kóf, þá tókust margar þeirra á við nútímann á þennan forspáa hátt sem listin oft gerir.
Ég gæti sagt ykkur þegar ég gaf út ljóðabók og hélt útgáfuhófið í Bíó Paradís, las ljóð úr Framtíðinni í stiganum og kynnti Bechervovku fyrir saklausum gestum.
En framtíðin, hvernig verður hún? Ég gæti sagt ykkur frá ótal frábærum myndum sem ég sá á Berlinale rétt fyrir kóf sem hefðu líklega verið sýndar í Bíó Paradís næsta vetur, ef Bíó Paradís verður ekki til staðar þá verða hins vegar líkurnar á að þær komi í íslensk bíó varla mælanlegar. Ég á vini sem eru að gera frábærar heimildamyndir og stuttmyndir sem eru kannski ekki meinstrím, sem myndu skyndilega standa uppi heimilislausar í Reykjavík ef Bíó Paradís hverfur. Yrðu þá mögulega sýndar á Patreksfirði og í útlöndum en aldrei í Reykjavík.
Ég gæti sagt ykkur frá framtíðinni, þar sem allt gott deyr, jafnvel þótt við tórum lengur og höfum ekkert nema Dominos og keðjubíó til að næra okkur. Framtíðinni þar sem við gætum svo sem alveg eins skriðið aftur inní hellana okkar út af því við verðum búin að tortíma þessari siðmenningu fyrir stundargróða fárra. En ég vona að ég þurfi ekki að segja ykkur frá því, ég vona að ég geti sagt ykkur frá dugmiklum stjórnvöldum, leigufyrirtækjum sem skilja kúltúr og blómlegu menningarlífi, en til þess að ég geti sagt þessa sögu þarf öfluga baráttu okkar sem vitum hvers virði alvöru menning er, baráttu fyrir því að halda hjartslætti menningarinnar lifandi í húsum eins og Bíó Paradís og Iðnó og baráttu fyrir því að miklu meiri alvöru peningar verði settar í listina á þessum fordæmalausu tímum, svo þeir verði fordæmalausir fyrir óvænta framsýni og hugdirfsku, ekki afdalahátt og kúltúrleysi.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson