FIMM BÖRN Í RÖÐ OG PABBI MEÐ KYLFU
Þannig byrjar þetta. Við erum stödd í dönsku gettói þar sem allt er skrifað í hástöfum. Pabbinn lemur, manni finnst eins og hann sé að lemja alla bókina – og þó, þegar á líður hefur Yahya tekið við af honum.
Við finnum að við sleppum aldrei úr þessu gettói, jafnvel þegar við erum annars staðar erum við þar, þetta gettó fylgir okkur, er inni í okkur, svo lengi sem við erum með þessa bók opna, jafnvel svo lengi sem hún er í æðakerfinu.
Þetta er framan af hrá og umbúðalaus sjálfsævisaga, hástafirnir eins og skáldskapur úr fyrstu kubbslegu Nokia-símunum – og hver veit, kannski lærði Yahya Hassan að skrifa á svoleiðis tæki? Bókin er samnefnd honum, sem og framhaldið, að sumu leyti er hann meira eins og poppstjarna en ljóðskáld – og ætlaði raunar fyrst að verða rappari, en fann að það sem hann vildi segja myndi skila sér betur í ljóði. Framan af er þetta raunar eins og línuleg sjálfsævisaga í ljóðaformi, brotakennd en þráður sem helst, einhver saga.
Hassan er múslimi, önnur kynslóð innflytjenda, foreldrar hans er fyrsta kynslóð múslimskra innflytjenda í Danmörku. Pabbinn er algjört skrímsli, hvernig sem á það er litið, hann ber börn og konur, skiptir um konur og eignast ný börn, sem hann ber svo líka.
Þetta er bók um heimilisofbeldi og glæpalíf, skáldskapinn sem bjargar og tortímir, ofbeldið sem erfist frá föður til sonar.
Þessi einfalda setning situr í mér:
FRIÐSÆLIR ÞESSIR GÖNGUTÚRAR
Þarna hafði nefnilega flest gengið þokkalega áfallalaust hjá okkar manni í að nærri því heilt ljóð – og maður finnur að þetta er lognið á undan storminum, finnur að svona hugsanir eru vísbending um stórhættulegt kæruleysi, þetta sakleysislega kæruleysi sem okkur finnst mörgum eðlilegt ástand.
Bókin kom eins og öfugsnúinn stormsveipur beint inn í kynþáttaorðræðuna í Danmörku, en margt er vafalaust keimlíkt í flestum gettóum heimsins, hverjir sem þar búa. Sumt er þó vissulega sértækara:
Í SKÓLANUM MEGUM VIÐ EKKI TALA ARABÍSKU
HEIMA MEGUM VIÐ EKKI TALA DÖNSKU
Þannig er Yahya alls staðar utangátta, og jafnvel líka í Líbanon í sumarfríinu. Þá fyrst verður hann danskur – og fær kveðjur í takt við það:
ÉG HATA YKKUR
DÖNSKU HUNDAR!
Þau eru utangátta af því þau eru á milli tungumála og líka af því að
STRÍÐIÐ ER ENNÞÁ Í YKKUR
Ef pabbi hans hefði lamið hann
En um leið og pabbinn byrjar að hverfa úr sögunni finnur maður að pabbinn er meira og meira í Yahya. Þetta byrjar að sjást þegar köttur eltir hann heim.
ÉG TEK Í RÓFUNA Á HONUM
SVEIFLA HONUM Í HRING OG INN Í RUNNA
Það er klassískt stef hvernig ofbeldið smitast eins og versta farsótt, maður veit aldrei almennilega hvort pabbinn hafi verið beittur ofbeldi sjálfur en sér hvernig Yahya hefnir sín á minnimáttar. Og ekki bara köttum.
HANN GRÉT JAFN HÁTT
OG EF PABBI HANS HEFÐI LAMIÐ HANN
Þarna byrjar maður aðeins að eiga erfiðara með að hafa samúð með honum. Þetta er hin klassíska málsvörn hrekkjusvína (já, það þarf betra orð yfir bully á íslensku) allra skólalóða; það sé svo erfitt heima hjá þeim. Sem er vafalaust oft satt, en þýðir engu að síður að ábyrgðin endar hvergi, og allir þolendur þurfa að sýna skilning, sem getur stundum verið splunkunýtt ofbeldi. Ofbeldi sem stigmagnast svo út bókina.
HANN BAÐ UM SMÓK
EN ÉG GAF HONUM Á KJAFTINN
ÉG TRAÐKAÐI HANN OFAN Í RUNNA
Unglingsárunum eyðir Yahya svo við iðkun smáglæpa og er inn og út af ýmsum meðferðarstofnunum og fangelsum. Góss-Hassan er hans besti kúnni, enda eitt besta nafn bókmenntasögunnar.
VAKTASKIPTI FRÁ 14 TIL 15
ÉG RUNKAÐI MÉR YFIR FRÉTTUNUM
GJALDÞROT GRIKKLANDS
ÞINGKOSNINGAR
HELLE THORNING SCHMIDT
NATASJA CRONE
Hér byrjar líka pólitíkin að laumast inn í bókina, hann er að verða meðvitaðri, ljóðtaugin hafði kviknað ekki löngu fyrr.
Það er liðveislukona sem verður hans mentor, hún kennir honum að meta bókmenntir, sér hæfileika hans – og þarna loks kviknar einhver ástríða innra með aðalpersónunni. Lífið fram að þessu hafði einungis snúist um að lifa af í þessum klikkaða heimi – en skyndilega skiptir ekki minna máli að nálgast nýjustu Knausgård bókina.
Liðveislukonan reynist þó töluvert meira en bara mentor.
ÞAÐ BYRJAÐI MEÐ KOSSI EINS OG ÞAÐ GERIR VÍST ALLTAF
EN BÓKIN SEM VIÐ SKRIFUÐUM SAMAN
HENTAÐI EKKI TIL UPPLESTRAR
FYRST VAR HÚN REKIN OG SVO VAR HÚN SKILIN
Internetið segir mér að hún hafi verið 38 ára og Yahya 16 ára, ósjálfrátt verður manni hugsað til Dronningen, dönsku myndarinnar þar sem Trine Dyrholm leikur miðaldra konu sem táldregur sextán ára strák – og maður sér hvernig stráksi breytist úr sjálfsöruggum gutta, sem virkar eldri en árin segja til um, en verður svo skyndilega bernskur og lítill í sér þegar ástandið verður alvarlega – og veslast svo upp og deyr fjarri umheiminum. Og maður finnur ósjálfrátt samslátt með þeim Yahya, þar sem hann dó alltof ungur af eigin harmi. Hann veltir sér vissulega ekki mikið upp úr þessu, hann er jú strákur, strákum á að finnast það töff að vera flekaðir af eldri konum, það lærði ég meira að segja í bók sem ég las fyrir dönskutíma fyrir löngu síðan.

Feigðin er líka farin að verða áþreifanleg, þessi saga endar alltaf illa, bókin er eins og hún er af því hún getur ekki öðruvísi verið – og endalok hans gátu ekki orðið önnur. Það er eins og hann sé að undirstrika að þetta sé ekki skáldskapur, þetta er raunveruleiki og svona sögur enda aldrei vel í alvörunni.
Í kjölfar þess að hann uppgötvar skáldskapinn verður bókin sjálf bókmenntalegri, hættir að vera jafn blátt áfram og hrá, hann er búinn að uppgötva alls kyns skáldskapartrikk og eitt þeirra er að hreinlega endursegja söguna sem hann var að segja með skáldlegri hætti.
ÉG HEITI YAHYA HASSAN
OG FORELDRAR MÍNIR VILDU ÓSKA ÞESS
AÐ ÉG HEFÐI ALDREI FÆÐST
OG ÉG ÓSKA ÞEIM HINS SAMA
Hann dreymir jafnvel um að meira ófrelsi.
ÞEGAR ÞIÐ KLIPTUÐ Á NAFLASTRENGINN
ÞAÐ HEFÐUÐ ÞIÐ ALDREI ÁTT AÐ GERA
ÉG HEFÐI ÁTT AÐ VERA HUNDUR Í BANDI MÓÐUR MINNAR
Loks kemur ljóð sem heitir einfaldlega FÆÐINGIN og fjallar í raun um hvernig hann endurfæðist í raun í eigin skáldskap, endurskapar sjálfan sig í sömu bók og við erum búin að vera að lesa. Hann er orðinn að spámanni án föðurlands, þegar hann sér fyrir eigin örlög, skáldskapurinn er bjargræði hans og bölvun í senn:
KYRKTUR Í EIGIN SKÁLDSKAP
Lokaljóðið er svo 35 síðna bálkur sem heitir því lýsandi nafni LANGLJÓÐ. Þar kemur paródían til sögunnar, hann leikur múslimann sem allir sjá hann sem, gerir sér upp vitlausa dönsku, þótt hún hafi ekki vafist fyrir honum hingað til. Kannski er hann að gera grín að perkunum sjálfum, en þó miklu frekar að væntingum Dana – þetta er danskan sem þeir reikna með frá honum áður en hann opnar munninn.
ÞÚ BARA TALAR DÖNSKU VITLAUSA
OG ARABÍSKU VITLAUSA
Þarna fyrst fer maður þó að finna verulega fyrir því að þetta sé þýðing, enda fátt erfiðara að þýða en rangt og vitlaust mál – hreinlega af því í íslenskum bókmenntum hreinlega vantar kunnuglegra lingó fyrir vonda íslensku.
Þarna erum við líka komin nær núinu, hann notar sér frægðina skammlaust, hún er hans nýja afsökun fyrir öllum misgjörðum.
SVO ÉG GET VERIÐ FÖLSUÐ FYRIRMYND!
Svo bætir hann við:
ÞETTA ER SAGA MÍN! RÆÐIÐ
Þetta „RÆÐIГ er gildishlaðið, þetta er bein tilmæli til okkar gagnrýnendanna og blaðamannana og allra menningarpáfana sem ræða bókina, líf hans er orðið listaverk sem ber að ræða sem slíkt, ekki vafasöm ævi fyrir félagsfræðinga og stjórnmálamenn til að smjatta á. Þannig er það einmitt þessi sjálfsvitund í lok bókar sem sprengir hana upp og opnar fyrir umræðuna um mörk skáldskapar og veruleika, hvað leyfist hvorum megin við það þil og hvað skáldskapurinn réttlæti og hvað ekki. Vitandi það að menningarpáfar Danmerkur eru upp til hópa hvítt vel menntað millistéttarfólk, hversu vel meinandi sem það kann að vera.
Þegar maður les bókina núna, með kófið í rénun, þá reynist bókin svo furðu forspá, eins og þegar hann talar um að flýja
TIL LANDS ÞAR SEM FÓLK FER Í SLEIK ÚTI Á GÖTU
OG ÞANNIG FÆÐUMST VIÐ Í SKJÖN Í ÞENNAN HEIM
Auk þess teiknar hann alveg óvart upp faraldurinn í bréfi um frænkumann sinn:
HVER ER DAUÐINN
ÉG ÍMYNDA MÉR
AÐ ÞÚ SITJIR ENN Í FLUGVÉL OG HÓSTIR Á GLUGGANN
Jafn mögnuð og bókin sannarlega er þá er hún sannarlega nokkuð eintóna, jafnvel aðeins of eintóna til að vera jafn sönn og hún vill vera, það væri líklega óvitlaust að kolefnisjafna hana með að horfa líka á Rakarastofu Q, til að sjá að dönsku gettóin eru ekki eintóm eymd og kolefnisjafna aðeins birtingarmynd þeirra.
En gleymum ekki að Yahya Hassan var bara átján ára þegar bókin kom út, þessi magnaði eldlestur gegn heiminum og honum sjálfum líka, það myndi ekki saka að fá fleiri slíkar, en nú bíður maður bara eftir að einhver þýði framhaldið – og grætur að þau verði ekki fleiri.
Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson
Mynd: By Mogens Engelund – Own work, CC BY-SA 3.0, https://commons.wikimedia.org/w/index.php?curid=29567474