Elífðarnón er falleg bók og það er stór hluti af henni. Bókverkið kallast á við innihaldið, það kallast lauslega á við spádómsbækur og á dimmfjólublárri kápunni sjáum við tungl svífa í kringum plánetu og fyrsta ljóðið, hálfgert forljóð, er tígull með þökkum, þökkum til ónefndra. Ávarpið er þú, og þakkirnar eru fyrir óræðar gjafir – gjafirnar sem verða að ljóðum.
Þessi bók er fjársjóðskort, jafnvel uppskrift að nýjum bókum, nýjum sögum, nógu skýr til að lifna ljóslifandi fyrir hugskotsjónum en nógu torræð til að skapa ótal mismunandi sögur í mismunandi hausum.
Það er dæmi um gagnvirkni bókarinnar, annað slíkt dæmi er þegar ljóðmælandi ákveður að
bursta vofuskóna fyrir brottför
(árla morguns) (seint að kvöldi) (fyrir flugtök)
Lesendur fá að velja hvenær hún leggur að stað. Vofuskórnir eru svo dæmi um göldrótt nýyrði í bókinni sem hvergi finnast við leit en hljóma samt eins og þau komi úr ævafornu ævintýri.

Mörk ævintýra og vísindaskáldskaps eru oft óræð í bókinni, hér er til dæmis ræða sem kallast skemmtilega á við lokaorð Ray Batty í Blade Runner:
sá drekkingarhylinn tæmast
sá afturljósin bila og lagast
sá endurspeglun í annarri speglun
sá elda og bráðnun
sá heimsku trompa skynsemi
sá fjóluaugu lokast
sá mörg önnur opnast
sá eyðimörk með svölum og græna skóga
sá stjörnur og ryk
sá stjörnur sem fela
sá sveigju ólukku
Hitt er þó algengara að höfundur bjóði okkur að semja splunkuný ævintýri úr orðaþráðunum sem hún gefur okkur. Umbylting ævintýranna, þar sem eitthvað verður til og hömum er kastað birtist ágætlega í titli ljóðsins AÐ LÍKAMNAST og sumpart minnir bókin á Snorra-Eddu.
Við þekkjum nefnilega flest Snorra-Eddu best í endursögn, hún er yrkisefni Pater Madsen og Marvel og ótal fleiri höfunda sem hafa gefið okkar sínar útgáfur af ævintýrum norræna goða og jötna, báðar bækurnar eru lausleg uppskrift af ævintýrum og ævintýraheimum, þótt kver Ástu sé óræðara – hún treystir kokknum betur til að taka uppskriftina í óvæntar áttir.
Þetta eru líka ljóð um lesandann, lesandann sem er fastur í hversdeginum en þráir ævintýrið. Þetta eru ljóð fyrir Bastían Baltasar Búx og Míó, sem finna ævintýri í dularfullum bókum eða flöskum á víðavangi.
„heilinn er net í sjónum“ segir skáldið og fáeinum erindum seinna: „heilinn er lestarstöð.“ Lesandi fangar minningar í hafinu en er um leið albúinn í ný ævintýri á næstu lestarstöð. Öll þessi orð eru möguleikarnir sem birtast á brottfararskjánum.
Við erum jafnvel stödd í forstofunni, sem er heiti eins kafla bókarinnar, þar sem hægt er að fara hvert á land sem er. En kannski komumst við hvergi, kannski erum við í miðju kófi – en jafnvel þá opna orðin ýmsa möguleika. Þetta er brot úr kófljóði bókarinnar:
kaffibolli er draumur
þornað hrísgjón draumur
hringtorg draumur
farsími draumur
draumur draumur
svaðilför draumur
uglasatákvisti draumur
útvarpið draumur
demantur draumur
Bókin sveiflast á milli ævintýra, vísindaskáldskapar og hins óræða og skorar á okkur að kasta frá okkur örygginu:
hjálmurinn þrengir að
öryggið orðið að spennutreyju
pískur og skilyrðing sem sannar ranga reglu
Hér má líka finna öfugsnúna og mögulega óraunsæa nostalgíu eftir heimi þar sem gildin voru örlítið skárri.
Tími þegar peningar voru ekki til
og lífið var langt og framtíðin fjarlæg
og borgin stór
Þetta er samt allt í hausnum á okkur, eins og þegar tjara kemst í líkama og „setur upp tálma í heilsunni / setur upp tálma í öndun og andanum“

Ævintýri þurfa ekki bara hetjur, þær þurfa líka skúrka og hýenur og nornir fá hér líka sín ljóð, merkilega fallegar sögur af þvi hvernig þau ákveða að ganga illskunni á hönd – enda illskan aldrei orðuð, því hin vondu eiga sér líka sínar vonir og drauma og ljóðin lýsa einfaldlega ásældinni í þá drauma.
Þar má finna sumar mergjuðustu hendingar bókarinnar, eins og „ég kom ekki hingað til að tannbursta úlfa“ og það að „bakfæra martraðir.“
Enda má finna orðin víða.
þau fara inn í jörð og fólk
og inn í fólkið í jörðinni
Að lokum erum við minnt á að orð má líka afskræma og tæma merkingu í Orwellískri nýlensku.
prísund er leið að frelsi
sagði fógetinn
Og einmitt þá þurfum við göldrótt orð meira en nokkru sinni fyrr, nokkrar Ómunatíðir til að brynja okkur gegn fógetum þessa heims.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson