Sjötti þáttur af Ljóðamála á almannafæri fer í loftið klukkan 20.30 á N4 í kvöld, þriðjudagskvöld 27. júlí. Því er tímabært að kynna skáld og leikstjóra kvöldsins stuttlega til leiks.

Ásta Fanney Sigurðardóttir er fyrra ljóðskáld kvöldsins. Hér má sjá hana lesa Drýslakjöt, úr Herra Hjúkket, hennar fyrstu ljóðabók.

Hér má svo hlusta og horfa á Svaðilför með tvö mölt.

Loks var rýnt í bók hennar, Eilífðarnón, hér á smyglinu í fyrra.

Hallur Örn Árnason leikstjórir myndbandinu í samvinnu við Ástu. Hallur hefur áður gert stuttmynd upp úr ljóði, en hann byggði stuttmyndina Meginlandið á ljóðinu On the Continent eftir Charles Bukowski. Þar er Hannes Óli í aðalhlutverki, áður en hann fór að leika Sigmund Davíð og Olaf, áhugamann um JaJa Ding Dong.

Hann hefur einnig gert stuttmyndirnar Anima og Kennitölur. Hér má horfa á Anima:

Og hér má sjá Kennitölur.

Þá er hann að vinna að heimildamyndinni Jói í göngunum, en hér fyrir neðan er stikla myndarinnar.

Vilhjálmur B. Bragason er seinna ljóðskáld kvöldsins. Hann er líklega þekktastur fyrir að vera annar helmingur Vandræðaskáldanna, en hér syngja þau í orðastað Vaðlaheiðarganga.

Hann er ekki óvanur því að birtast á skjá N4, en þar sér hann um föstudagsþáttinn – en hér má sjá þegar hann var kynntur til leiks.

Hér má sjá hann ræða skáldskap, nánar tiltekið leikrit og þýðingar Matthíasar Jochumssonar. Fyrirlesturinn var vitaskuld haldinn í Sigurhæðum, húsi Matthíasar.

Kári Liljendal Hólmgeirsson leikstýrir seinna myndbandi kvöldsins – en hann leikstýrði einnig allra fyrsta myndbandi Ljóðamála þetta árið. Hann nam kvikmyndagerð í New York Film Academy og er núna tækni- og útsendingarstjóri hjá N4 og hefur þar með einnig komið að lokaklippi þáttanna. Hann mætti í föstudagsþáttinn til Vilhjálms til að ræða hátíðina.

Hér má sjá örlítið brot af því sem Kári hefur verið að kvikmynda síðustu árin.

Fyrir utan þau kemur hefðbundið fastagengi Ljóðamála að útsendingunni; Darrell Jónsson sér um upptöku í myndveri MeetFactory, þar sem Arnheiður Eiríksdóttir og Ásgeir H Ingólfsson kynna dagskrána.

Það er Ásgeir H Ingólfsson sem hefur yfirumsjón með þáttaröðinni. Framleiðendur eru Menningarsmygl og Urban Space Epics.

Carl Warwick samdi stef þáttanna út frá broti úr Völuspá.

Styrktaraðilar eru Miðstöð íslenskra bókmennta, Akureyrarbær og Landsbankinn. Sem og auðvitað allir áskrifendur smyglsins!

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.