Það er erfitt að þýða orðið Papicha. Þetta er alsírskt slangur yfir sætar, ungar, uppreisnargjarnar stelpur. Stelpur sem vilja mennta sig, stelpur sem vilja djamma eins og jafnöldrur þeirra hinum megin við Miðjarðarhafið og klæða sig eftir nýjustu vestrænu tísku. En þær Nedjma og Wassila eru sannarlega papichur, sérstaklega sú fyrri. Þær fara frá hrörlegri heimavistinni á djammið og skipta um föt í ólöglegum leigubíl.
Þær læra báðar frönsku í háskólanum en Nedjma er auk þess ástríðufullur fatahönnuður og tekur við pöntunum um heimasaumuð tískuföt á kvennasalerninu á milli þess sem þær stöllur djamma. Hún er alltaf með skissubók á sér og allir mögulegir atburðir geta verið kveikja að nýrri flík.
En það þrengir ört að þeim. Papicha gerist stuttu fyrir alsírsku borgarastyrjöldina á síðasta áratug síðustu aldar, hinna myrku ára eins og þau eru kölluð í dag. Öfgahópar hafa sig sífellt meira í frammi, kuflklæddar íslamskar nágrannakonur gera ítrekað aðsúg að þeim og Nedjma hefur ekki við að rífa niður áróðursveggspjöld þeirra.
Það er hún Lyna Khoudri sem leikur Nedjmu og hér kemur játning: Lyna Khoudri er nýja uppáhalds alsírska leikkonan mín og skyndilega orðin aðalástæðan fyrir að sjá The French Dispatch hans Wes Anderson, hvenær sem hún kemur í bíó. Það tekur alltaf smá tíma að átta sig á karakterunum hennar, en þegar þeir eru búnir að vinna mann á sitt band er maður með þeim allan tímann.

Margir í kringum hana tala illa um Alsír, kalla landið biðstofu lífsins – takmarkið sé alltaf að komast til vesturheims. En Nedjma er frjálslyndari en þau öll en þykir um leið meira vænt um landið sitt en þeim öllum. Hún er harðákveðin í að vera og harðákveðin að verja frelsið. Það er stál í þessari stelpu. Eitthvað sem hún hefur bæði frá systur sinni blaðakonunni og yndislegri ömmunni sem mann langar bókstaflega til að fái að ættleiða mann í hvert skipti sem hún birtist á skjánum.
Það kemur líka í ljós að stráka sem dreymir um vesturlönd geta verið alveg jafn afturhaldssamir og þeir sem vilja vera áfram, þeir vilja bara fá alsírsku stelpurnar með sér til að vera þægir þjónar í öðru landi.

Þegar ógæfan knýr svo dyra þá brotnar Nedjma ekki heldur fær þá byltingarkenndu hugmynd að halda tískusýningu með vinkonum sínum. Ekki samt bara hvaða tískusýnigu sem er, heldur tískusýningu þar sem allir búningar verða gerðir úr haik, hefðbundnum alsírskum alklæðnaði sem getur hulið allan líkamann – en klæðnaði sem er hins vegar hægt að gera ýmislegt við, sveipa honum um sig á þúsund mismunandi vegu.
Þannig sjáum við hversu pólitísk, frelsandi, listræn og hættuleg tískan getur í raun verið, sérstaklega þegar það hvernig við klæðumst og hegðum okkur er það sem aðrir nota til að skilgreina okkur.
Og svo kom stríðið og loks einhvers konar friður. En árin eftir stríð, árin þar sem sárin eru enn opin, eru viðfangsefni Hinna blessuðu (Les Bienheureux), myndarinnar þar sem ég sá áðurnefnda Lyna Khoudri fyrst.
Þar leikur hún Feriel, leitandi unglingsstúlku sem er náskyld Nedjmu en elst upp í allt öðruvísi Alsír. Hún er í aðalhlutverki í unglingahópi myndarinnar – myndin fjallar til skiptis um þau og foreldrana, sem ólíkt krökkunum muna hina myrku tíma vel.
Myndin virkar dálítið á mann eins og frönsk Richard Linklater mynd, ótal karakterar sem tengjast á misjafnlega flókin hátt. Það er reglulegt mótíf að sýna okkur einhvern fallegasta stiga Algeirsborgar og þetta er frábær saga um átök á milli kynslóða – en ég velti aðeins fyrir mér þessari tilfinningu: hvað þessi alsírska mynd væri frönsk.

Ég sá myndina á arabísku kvikmyndahátíðinni í Malmö og þegar við norrænu gagnrýnendurnir gengum út, allir mjög hrifnir, sló okkur hversu ósammála kollegar okkar frá maghreb-löndunum voru.
Ég hafði vissulega tekið eftir töluverðum mun á fagurfræði á milli okkar áður, en þarna var þetta pólitískara – frönskumælandi Alsírbúar eru nefnilega bæði frjálslyndari en líka meiri hástétt. Franskan og frjálslyndið eru forréttindi, arabískan og gamaldags múhammeðstrú almúginn.
Sem skapar vissulega skrítna og forvitnilega klemmu fyrir vestrænan gagnrýnanda; er þessi mynd mögulega aðeins of mikið fyrir mig, aðeins of lítið gerð fyrir heimamenn? Það er samt of auðvelt svar, maður skynjar líka hvernig Evrópu-menntaðir alsírbúar geta orðið útlagar í eigin heimalandi, eitthvað sem við útlagarnir frá Íslandi könnumst ágætlega við en mætti örugglega margfalda með tíu og maður skynjaði aðeins í ákveðnum pirringi sumra maghreb-gagnrýnendanna gagnvart leikstýrunni Sofiu Djama.
Þetta er auðvitað flækja sem maður lendir ítrekað í þegar maður horfir á myndir frá fjarlægum löndum, löndum þar sem maður þarf ekki að sjá leikkonu i nema tveimur myndum til þess að hún verði uppáhalds alsírska leikkonan manns. Alþjóðlegar kvikmyndahátíðir eru eilíf skyndipróf í löndum og heimshlutum sem maður er oft í mesta lagi kjölfróður um, en samt oftast miklu hollari lærdómur en flestir fréttatímar.
Þótt auðvitað væri alvöru flakk um Alsír og hin maghreb-löndin langbesta leiðin til að fræðast meira, eitthvað sem er holt að muna núna þegar kófhræddir samborgarar láta eins og ferðalög séu mesta böl mannkynssögunnar.
Undirritaður var í dómnefnd portúgölsku kvikmyndahátíðarinnar FEST, þar sem Papicha fékk Gylltu gaupuna sem besta leikna mynd.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson
Áhugaverð mynd – hvar finnur maður hana?
Er enn að taka hátíðar & bíó-rúntinn, spurning hvort hún verði í Bíó Paradís þegar opnar, eða á RIFF eða Stockfish?