Þið þekkið þetta vonandi, þennan bráðum 400 ára gamlan ljóðbút eftir John Donne. Enginn maður er eyland. Stefán Bjarman þýddi þetta meistaralega þar sem það birtist í formála Hverjum klukkan glymur eftir Hemingway, bókar sem notaði þessi orð sem leiðarstef. Í skáldsögu um spænsku borgarastyrjöldina, sem stundum var kölluð skáldastríðið, vegna þess hve margir rithöfundar kusu að taka þátt í baráttunni gegn fasismanum, ekki bara Hemingway, heldur líka Orwell, Lorca, Emma Goldman, Pablo Neruda og fleiri.

En þetta er ljóð sem endurnýjar sig með hverri kynslóð, á hverju ári. Þegar Brexit var nýsamþykkt endurvakti PJ Harvey ljóðið íá sviði fyrir framan þúsundir.

Og nú, þegar veirur skekja heiminn og lönd loka landamærum, þá er sérlega góð ástæða til að hlusta á PJ aftur, eða lesa Donne sjálfan í þýðingu Stefáns, eða bara bæði. Af því Donne skyldi alþjóðavæðingu síns tíma, hann sá hana fyrir – en á forsendum mennskunnar, ekki forsendum kapítalsins. Hver veit, kannski vildi hann bara segja: „Við erum öll í þessu saman?“

„Enginn maður er eyland, einhlítur sjálfum sér; sérhver maður er brot meginlandsins, hluti veraldar; ef sjávarbylgjur skola moldarhnefa til hafs, minnkar Evrópa, engu síður en eitt annes væri, engu síður en óðal vina þinna eða sjálfs þín væri; dauði sérhvers manns smækkar mig, af því ég er íslunginn mannkyninu; spyr þú aldrei hverjum klukkan glymur; hún glymur þér.“

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson