Þegar Clementine finnst Joel vera að búast við of miklu af henni í Eternal Sunshine of the Spotless Mind þá heldur hún þessa stuttu tölu:
„Too many guys think I’m a concept, or I complete them, or I’m gonna make them alive. But I’m just a fucked-up girl who’s lookin’ for my own peace of mind; don’t assign me yours.“
Það má vel líta svo á að Charlie Kaufman sé með þessu um leið að halda ræðu yfir kollegum sínum og sjálfum sér líka, öllum þessum endalausu karlhöfundum sem skrifa kvenhlutverk alltof oft eingöngu til þess að endurspegla baráttu eða sálarangist karlkyns aðalpersónunnar.
Nýjasta mynd Kaufmans, I‘m Thinking of Ending Things, er nánast eins og löng afsökunarbeiðni fyrir hönd karlhöfunda heimsins til allra einvíðu kvenpersónanna sem þeir hafa skapað. Sem felst í því að skapa persónu sem er bæði einvíð og margvíð, full af karakter og skortir hann um leið.
Myndin er vel að merkja allt öðru vísi en bókin, þótt ákveðið grunnplott sé til staðar sem er um flest svipað. Rétt eins og í bókinni gerist stór hluti myndarinnar í bíl í stórhríð, á leið til eða frá bændabýli foreldra Jake, kærastans.
En kærastan í bókinni er aldrei nefnd á nafn og við fáum ekkert að vita um hennar baksögu, þrátt fyrir að við séum alltaf í hausnum á henni. Kærastan í myndinni heitir hins vegar Lucy – eða Louisa, eða Ames – já, og hún er vísindamaður en líka ljóðskáld, kvikmyndagagnrýnandi og myndlistarkona.
Lýsingin hljómar kannski eins og dæmigerður Íslendingur að vasast í mörgu, en veruleiki myndarinnar er annar; höfundurinn er einfaldlega ekki búinn að ákveða baksöguna, getur ekki ákveðið hvað hún á að heita, hvað hún á að gera, þetta er nánast eins og skissa af persónu, en samt margvíð skissa, ljóðskáldið, vísindakonan, listakonan og kvikmyndagagnrýnandinn eru allar heillandi persónur.

Þegar ég tala um höfundinn er ég ekki að tala um Kaufman sjálfan, heldur höfundinn inn í sögunni, aldraðan húsvörð í framhaldsskóla sveitarinnar, sem virðist vera eldri útgáfan af Jake. Hann kemur ekki við sögu fyrr en seint í bókinni – og þá sem hálfgerð hryllingspersóna, en hér er hann mesti ljúflingur.
Bókin eða myndin?
Annað sem skilur að; myndin er miklu betri. Bókin er fljótlesin og prýðileg um margt, en Kaufman er einfaldlega betri höfundur. Bæði eru samtölin miklu forvitnilegri og eðlilegri og fjölbreyttari, bæði verk snúast um ákveðin stef en myndin finnur miklu fleiri sniðugar leiðir til að nálgast þau stef á meðan bókin á það til að vera endurtekningarsöm. Eins lagar hann marga veikleika bókarinnar, eins og það hvað kærastan er einvíð, án þess þó að glata ástæðunni fyrir því.
Myndin bætir mörgu við, hringjandinn dularfulli sem ítrekað hringir í síma sögumanns er hins vegar nánast horfinn – það má helst finna að því að betra hefði verið að skrifa þá persónu alveg út úr sögunni, hún hefur skýrt hlutverk í bókinni en það er skorið svo við nögl í myndinni að persónan er orðin óþörf – og væri það hvort eð er, enda hringjandinn sá sem kemur með hrollinn í bókina – en ólíkt bókinni er myndin ekki hryllingsmynd, þótt einstaka hryllingsminni flytjist á milli.
Þá fá foreldrarnir töluvert meira pláss heldur en í bókinni. Í bókinni hugsar hún raunar: „Það að sjá einhvern með foreldrum sínum er áminning um að allar manneskjur eru samsettar.“ Í myndinni reynast hins vegar foreldrarnir sjálfir vera samsettir – út eigin sjálfi sem ungt fólk, sem miðaldra parið sem upphaflega tekur á móti þeim, sem gamalt fólk, mismikið út úr heiminum. Þau eru einfaldlega flóknar minningar aldraðs húsvarðar um horfna foreldra, minningar samsettar úr foreldrum bernskunnar, foreldrunum sem hann heimsótti sem ungur maður og foreldrunum sem hann þurfti að hjúkra og sjá um síðustu æviár þeirra.
David Thewlis leikur pabbann af miklu listfengi en fyrst fannst mér Toni Collette, ein mín uppáhalds leikkona, jaðra aðeins við ofleik sem mamman. En þegar maður áttar sig betur á aðstæðum, að þetta eru minningar um foreldra, oft ýktar og úr samhengi, verður ofleikurinn meira viðeigandi.
Það er hins vegar Jessie Buckley sem ber myndina á herðum sér sem kærastan, hún er algjörlega stórkostleg í fjölbreyttu og krefjandi hlutverki. Það tók mig hins vegar lengri tím að taka Jesse Plemons í sátt sem Jake. Á tímabili fannst mér eins og hann hefði verið fenginn í hlutverkið bókstaflega af því hversu líkur hann er ungum Philip Seymour Hoffman, stjörnu fyrstu myndar Kaufmans sem leikstjóra, en hann vinnur á og maður fer að finna hvernig hann er alltaf í vörn í sambandinu; hún er klárari, orðheppnari og sjálfsöruggari en hann, hann verður alltaf með minnimáttarkennd gagnvart henni.
Samræður í stórhríð

Einhver besti kafli myndarinnar er svo þegar þau yfirgefa foreldrahúsin og eiga langar, langar samræður um allt og ekkert á leiðinni til baka. Bæði út af samræðunum en ekki síður út af meistaralegri myndatökunni. Kaufman er hérna búinn að fá pólska kvikmyndatökumanninn Lukasz Zal til liðs við sig, sem áður höndlaði kameruna fyrir Idu og Kalt stríð – en þetta er fyrsta myndin hans í Bandaríkjunum.
Og það hvernig Zal myndar snjókomu er einfaldlega stórkostlegt – og eitthvað sem Íslendingar ættu að kunna að meta. Þetta er vissulega ekki íslenskur snjór, hann er ekki alveg jafn háskalegur – en þessi tilfinning, að vera inní hlýjum bíl með kuldann og snjóinn úti, það er eitthvað sem Zal gerir meistaralega, við sjáum andlit Buckley og Plemons í gegnum snjókomu, í gegnum rúðu – og það er magnaður galdur í því.
Það er svo þarna þar sem stúlkan gerist kvikmyndagagnrýnandi – og heldur eldræðu, sem reynist svo beint upp úr dómi Pauline Kael um sömu mynd. Sú ræða kallast á við lykilsenu um miðja mynd, senu sem er ágætt að pása, fyrst við erum öll að horfa á hana á Netflix; senuna þar sem hún skoðar bókaherbergið í bernskuherbergi Jake. Þar eru bækur og nokkrir DVD-diskar – og allt þetta eru visbendingar um það úr hverju hún er samsett.
Húsvörðurinn í myndinni hefur nefnilega fundið leið til að gæða kvenpersónuna lífi – og það er að leita í allt sem hann hefur lesið og allt sem hann hefur séð. Eins og flestir höfundar gera að einhverju leyti, þótt flestir feli sporin betur. Það er samt ekki af því að hann sé vondur höfundur, frekar af því þetta var aldrei ætlað til birtingar – þetta er uppkast. Uppkast af sögu amatörs, í mynd eftir raunverulegan höfund.

Þarna komum við líka að stórum mun á bókinni og myndinni; í bókinni eru flestar vísanir í vísindi og nokkrar almennari í sagnalistina – í myndinni eru flestallar vísanir í sagnalistina, sérstaklega bíóið. Ólíkt bókinni er myndin ekki staðleysa, við vitum aldrei hvar nákvæmlega í Ameríku bókin á að gerast – þótt þeir sem eru kunnugir staðháttum gruni sjálfsagt ýmislegt – en í myndinni erum við svo sannarlega stödd í Oklahoma, aðallega af því hérna er Jake söngleikjaáhugamaður og í Oklahoma er Oklahoma vitaskuld söngleikur söngleikjanna, og speglar söguna um margt.
Ísbúð bernskunnar, skóli bernskunnar
Á heimleiðinni ákveður svo Jake skyndilega að hann langi í ís. Í bókinni stoppa þau á Dairy Queen, en í myndinni er Dairy Queen skyndilega orðin Tulsey Town (gamalt viðurnefni fyrir Oklahoma-borgina Tulsa), sjálfsagt vegna réttindamála. Þar eru þrjár stelpur að afgreiða – og Jake vill ekki horfast í augu við þær, fær hana til að panta ísinn. Ísfíknin virðist nánast vera hans erfðasynd, eitthvað sem hann ræður ekki við og skammast sín jafnvel gagnvart afgreiðslustelpunum.
Þetta eru afgreiðslustúlkur úr fortíðinni, fortíðinni sem þau eru að nálgast. Jake vill nefnilega endilega koma við í nærliggjandi skóla, undir því yfirskyni að henda ís-afgöngunum áður en þeir bráðna.
En þetta er skólinn sem tákn, risastórt tákn fyrir æskuna, fyrir einelti og brostna drauma. Þegar nær dregur fer ungi Jake að renna saman við sitt framtíðar húsvarðarsjálf, þegar hann segir:
„Það er ömurlegt hvernig við setjum merkimiða á fólk og flokkum það og höfnum því. Ég horfi á krakkana sem ég sé í skólanum á hverjum degi – ég sé þá sem eru útilokaðir – þeir eru öðruvísi, ekki í takt – og ég sé lífin sem þeir eiga eftir að eiga út af því. Stundum sé ég þau mörgum árum seinna í bænum, í kjörbúðinni. Ég sé að þau burðast ennþá með þetta með sér, eins og svarta áru. Eins og myllustein. Eins og blæðandi sár.“
Hann er um leið að tala um sjálfan sig og krakkana, hann þekkir þetta af því einu sinni var hann einn af þeim. Hann er einn, mögulega þökk sé svarta skýinu sem stelpurnar í íssjoppunni settu yfir hausinn á honum. Þær eru hans skapanornir og hann nær ekki að forðast þær, festist þvert á móti aftur í þessum sama skóla og hann eitt sinn útskrifaðist frá. Ennþá ósýnilegri en fyrr.
Jake myndarinnar er allt annar Jake en sá í bókinni, miklu meiri almúgamaður – alls ekkert séní eins og sá í bókinni og áhugamálin eru allt önnur. En manni þykir meira vænt um hann, hann reynir að búa til almennilega persónu úr kærustunni – en um leið á hún það til að vera árásargjörn, stundum eins og beint upp úr nýjasta Twitter-þræðinum. Eins og þegar hún skammar hann fyrir að fara á fjörurnar við sig með því að syngja „Baby, it‘s cold outside“ – „ertu að reyna við mig með nauðgunarlagi?“ Eða þegar hún segir húsverðinum, sem hún virðist ekki átta sig á að sé Jake, frá þessum strák sem hún hitti á bar og tókst að losna frá. Hann hafi verið krípí – og hún er að tala við þá báða í einu, enda einn og sami maðurinn, án þess að þekkja þá lengur, hún er að sleppa úr sögunni sem hann skrifaði henni.
Hér komum við raunar að öðrum meginþræði myndarinnar – hinir einmana, lúðarnir. Í einfölduðum neterjum samtímans hafa lúðarnir orðið undir, þeim hefur verið blandað saman við ofbeldishrottana og hugtök á borð við incel sprottið upp, hugtak sem var svo rækilega mistúlkað og misskilið að Jókerinn var kallaður incel-hetja – mistúlkun sem ég tek fyrir í upphafi þessa pistils.
Jake er nefnilega lúði – og þessi saga er hans leið til að sætta sig við það. Skrifa sig frá því. Já, eða öllu heldur dagdreyma sig frá því. Hver þarf að skrifa þegar maður getur látið sig dagdreyma við skúringarnar? Hann finnur sína sátt við einstæðingshlutverkið, með hjálp teiknimyndasvíns æskunnar. Einhver þarf nefnilega að vera misskilda svínið, eins og vitur skepnan orðar það svo vel.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson