Í dag eru sextíu ár síðan Saleem Sinai fæddist. Á slaginu miðnætti 15. ágúst 1947 á hjúkrunarheimili Nerlikars læknis í Bombay (nú Mumbai) fæddist þessi aðalsögupersóna Miðnæturbarna Salmans Rushdie. „Á nákvæmlega sama andartaki og Indland fékk sjálfstæði veltist ég inn í heiminn. Það voru tekin andköf. Og fyrir utan gluggann flugeldar og manngrúi.“ Hann er því jafnaldri hins sextuga lýðveldis Indlands sem fram að því var undir Bretum.

En málið er vitaskuld ekki svo einfalt. Ekki aðeins eru landamæri Indlands sem við þekkjum í dag gjörbreytt eftir að Pakistan klauf sig frá Indlandi skömmu fyrir sjálfstæði landanna tveggja og varð seinna að tveimur ríkjum, Bangladesh og Pakistan, sem samtals telja rúmar 300 milljónir manna – til viðbótar við þann 1,1 milljarð sem Indland telur, fjölmennasta ríki framtíðarinnar ef mannfjöldaspár standast. Og fortíð Indlands skiptir ekki síður máli enda staldrar sögumaðurinn Saleem stutt við eigin fæðingu áður en hann hverfur aftur til Kasmír árið 1915. Til afa síns og ferjumannsins ævaforna sem segir sögur af því þegar hann ferjaði Jesú, spikfeitan og sköllóttan. Við sjáum einkennilegt tilhugalíf afans og verðandi ömmunnar og rúmum hundrað blaðsíðum og tveimur kynslóðum af flóknum fjölskyldusögum síðar komum við loksins aftur að fæðingu sögumanns en þá er þó enn nóg eftir af þessari ríflega 400 síðna bók.

Ástæða þess hve Saleem getur greint nákvæmlega frá örlögum ættingja sinna er sú að hann getur lesið hugsanir þeirra, sem og annarra. Öll þau börn, 1001 talsins, sem fæddust fyrsta klukkutímann eftir að Indland fékk sjálfstæði hlutu óvenjulega hæfileika í vöggugjöf og voru hæfileikarnir magnaðri því fyrr eftir miðnætti sem þau fæddust. Þeir elstu, Saleem og Shiva, eru leiðtogar hópsins og Saleem nær að nýta hæfileika sína til þess að sameina þau óháð búsetu í hinu víðfeðma Indlandi. Shiva er skýrður eftir guði hernaðar og hefur hæfileika guðsins en honum og Saleem var víxlað við fæðingu þegar flugeldarnir skóku Bombay.

Bækur Rushdie sýna ósjaldan einstaklinga með eiginleika teiknimyndahetjanna færðar inn í fagurbókmenntaheim þar sem hann nýtir sér óvenjulega eiginleika þeirra sem stækkunargler á eðli sögunnar. Miðnæturbörnin eru í mörgu keimlík teiknisagnahetjunum X-mönnum, stökkbreyttu ofurhetjunum sem eru útskúfuð fyrir að vera öðruvísi. Þau lentu í flestum þeim hörmungum sem Indiru Ghandhi datt í hug að leiða yfir þjóð sína og sökum hæfileika sinna eru þau ofsótt og yfirbuguð.

Sá grunur læðist að manni að öll þjóðfélög á öllum tímum hafi átt sín Miðnæturbörn en ávallt barið þau niður þannig að þau skæru sig örugglega ekki úr mannmergðinni. Og hvergi er mannmergðin meiri og örlögum mannanna hættara við að týnast í mannhafið jafnóðum. „Dauði eins manns er harmleikur, dauði milljóna er tölfræði,“ eru orð sem voru eignuð Jósef Stalín og um leið og auðveldast er að tengja þessa kaldranalegu orð við milljarðaþjóðirnar tvær þá er bók Rushdie í raun ástríðufullt og reitt svar við þessum orðum:

„Hver og hvað er ég? Svar mitt: Ég er heildarsumman af öllu sem gerðist á undan mér, á öllu sem ég hef séð verið séð gert, af öllu sem mér hefur verið gert. Ég er hver sá hvert það sem varð fyrir tilvistaráhrifum af tilvist minni. Ég er allt sem gerist eftir að ég er farinn sem hefði ekki gerst hefði ég ekki komið. Ekki er ég heldur neitt sérstakur að þessu leyti; hvert „ég,“ hver og einn af þeim rúmlega sex hundruð milljónum sem við erum núna, hefur að geyma álíka gnótt. Ég endurtek í síðasta sinn: til að skilja mig verðið þið að kyngja heilum heimi.“

Og lesandinn fær svo sannarlega að kyngja heilum heimi. Með öllum þeim meltingartruflunum, niðurgangi og hitasótt sem slíku ofáti fylgir. Og svima – það að lesa Rushdie minnir oft helst á stjórnlausa rússíbanareið um indverskt þjóðfélag og stéttaskiptinguna, trúarbragðadeilurnar og öngþveitið sem einkennir það, hann fer alltaf lengra og lengra og textinn verður sífellt brjálæðislegri og sífellt hlaðnari; af persónum, vísunum, upplýsingum, tilfinningum, húmor og dramatík. Hann fer aldrei út af sporinu en eftir á hlýtur lesandinn að hugleiða hvar hann fór út af sporinu. Þegar fjöldamorð í Írak eru orðin tölfræði og hungursneiðar eru afgreiddar með söfnunarbaukum er líklega kominn tími til þess að gleypa fleiri heima. Þessi aldarfjórðungsgamla bók Rushdie er vegleg afmælisterta fyrir sextugt Indland, maður hefur gott af því að fá sér bita, fyrir öll miðnæturbörn veraldarinnar.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Upphaflega birt í Morgunblaðinu 15. ágúst 2007

Texti: Ásgeir H Ingólfsson