Þegar rigningin ber á strætunum fyrir neðan gluggann hugsa ég um Ferlinghetti. Þessa ótrúlega seiðandi kápu, sem ég finn og skoða í fyrsta skipti í mörg, mörg ár og átta mig á að þarna er engin rigning. Upplýstar byggingarnar minna mig samt á regnið, hvernig það speglar borgarljósin. Og þvílíkt nafn! Ferlinghetti! Lawrence Ferlinghetti, fæddur í Ameríku, ættaður frá Brescia á Ítalíu, seinna tímabundins heimabæjar Roberto Baggio og Birkis Bjarnasonar.

Bókin er A Coney Island of the Mind. Ferlinghetti var New York skáld og líka San Fransisco skáld, og nú þegar allt er lokað þá uppgötvar maður fegurð labbitúrsins alveg upp á nýtt – eins og Ferlinghetti gerði með að fylgja hundi nokkrum á ferð hans um götur borgarinnar í ljóðinu Hundur / Dog.

Hundurinn gengur áhyggjulaus um götur

virðir fyrir sér heiminn

og það sem hann sér

er stærra en hann

Svona byrjar þetta. Seinna sér hann hluti sem eru minni en hann. Og hluti sem lykta eins og hann sjálfur.

Hundurinn gengur áhyggjulaus um götur

þefar að heiminum

og það sem hann þefar af

lyktar ekki svo ólíkt honum sjálfum

fram hjá pollum og börnum

köttum og vindlum

billjardklúbbum og löggum

Þetta er ljóðrænn hundur og þetta er fallegur heimur og ljótur í senn, eins og í flestum ljóðum Ferlinghettis. En hrekklaus, heiðarlegur. Tja, þangað til hann kemur að Coits-turninum. Coits-turninn er frægt kennileiti, sást í Vertigo Hitchcocks – og leikstjórinn heimtaði að það sæist alltaf í turninn frá íbúð aðalpersónunnar Scottie (James Stewart). Ástæðan? „Þetta er fallískt tákn,“ svaraði Alfred vitaskuld. Vertigo kom út sama ár og bókin – en hvað gerist þegar hundurinn hans Ferlinghetti fer fram hjá turninum?

Og hann fer fram hjá Ravioli-verksmiðju Rómeós

og fram hjá Coit-turni

og fram hjá Doyle þingmanni

(úr óamerísku nefndinni)

hann er hræddur við Coits-turninn

en hann er ekki hræddur við þingmanninn Doyle

þótt sögurnar sem hann heyri séu ekki uppörvandi

afskaplega sorglegar

afskaplega fáránlegar

í eyrum sorgmædds ungs hunds eins og honum sjálfum

í eyrum alvarlegs ungs hunds eins og honum sjálfum

en þarna er frjáls heimur sem hann þarf að búa í

flær sem hann þarf að borða

hann mun ekki láta tjóðra sig

Doyle þingmaður er bara enn einn

brunahaninn fyrir honum

Og allt í einu fattar maður að þetta er níðljóð og hundurinn er Ferlinghetti sjálfur. Mann hafði vissulega grunað hið síðara; hann sér hundinn sem ljóðskáld – skepna sem gengur um heiminn og tekur eftir hinu háa sem og hinu lága, tekur eftir lykt og hljóðum og hvernig þau samsvara honum sjálfum – en þeir sem þekkja jafnvel bara örlítið til Ferlinghettis vita að hann er ekki síður frægur sem útgefandi Ýlfurs Ginsbergs – jafn ósanngjarnt og það er, verandi frábært skáld sjálfur – og sem slíkur stóð hann í málaferlum til þess að fá bókina útgefna. Þar var Doyle þingmaður vitaskuld einn helsti málsvari þess að banna þennan sóðaskap.

Sem Ferlinghetti afgreiður á þennan stórkostlega hátt: bara enn einn brunahani. Og við vitum öll hvað hundar gera við brunahana.

En það fallega er samt framhaldið. Hundurinn (og þar með ljóðskáldið) hefur mikilvægari hnöppum að hneppa. Að ganga um heiminn, að skrásetja heiminn, að njóta heimsins. Að berjast fyrir frelsinu. Ferlinghetti er nefnilega einkennileg útgáfa af Ameríkana, anarkisti og sósíalisti sem og þjóðernissinnaður – en ávallt að berjast fyrir þeirri Ameríku sem hann dreymir um. Hann tekur einfaldlega þetta óræða hugtak – Ameríka – og gerir það að takmarki, fullkomlega meðvitaður um að hin raunverulega Ameríka er órafjarri þessu sama takmarki.

Þessi sýn hans á Ameríku heyrist enn betur í „I am Waiting,“ eða „Ég býð þess,“ sem Starafugl þýddi (ég hef ritstjórann Eirík Örn Norðdahl grunaðan um þýðinguna) þegar Ferlinghetti varð hundrað ára.

og ég bíð þess

að undrunin endurfæðist

og ég bíð þess að einhver

uppgötvi loks Ameríku

Þetta stef virðist manni svo jafnvel kjarna lífssýn Ferlinghettis:

í nýrri endurfæðingu undrunar

En hættið núna að lesa menningarblogg og fariði og finnið ljóðin hans Ferlinghetti, þessa 101 árs nýgengna uppreisnarmanns. Í einu sínu frægasta ljóði sannaði hann í eitt skipti fyrir öll að punch-línur geta átt við í ljóðum líkt og bröndurum.

Og svo gat hann meira að segja samið gott ljóð um hafnabolta!

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson