„Ég horfði á bestu hugsuði minnar kynslóðar tortímast úr brjálæði, svelta móðursjúka nakta. Skakklappast niður negrahverfin upp úr dögun í leit að heiftugri fíkn. Engilhöfða glannar sem brunnu af löngun eftir hinni fornu himnesku tengingu við stjörnumprýddan rafal næturmaskínunnar.“

Svona hefst Ýlfur Allen Ginsberg í þýðingu Eiríks Arnar Norðdahl, sem nú má finna í heild sinni á Þúskjánum með undirspili Gímaldins og upplestri Eiríks.

Yfirskriftin er „Á íslensku má alltaf finna Ginsberg“ – og nokkrum árum eftir að þýðingin kom út staðfesti Hallgrímur Helgason það – eða staðfesti hann kannski skortinn á íslensku Ýlfri?

Í Rokland er þetta Ginsberg-ræða Bödda:

„Ég sé bestu menn minnar kynslóðar hverfa inn í legfóðruð leggöng, inn í flísalagt nöldur, inn í varalituð anddyri, inn um talandi glerdyr. Undir lágværu muldri létttónlistar, sem fellur yfir þá úr svörtum hátölurum eins og ilmvatnsskúr, ráfa þeir meðfram hundrað hilluröðum fullum af mismunandi útfærslum á sama helvítis blendernum […] Ég sé bestu menn minnar kynslóðar deyja hægt úr huggulegheitum.“

Tæpri öld áður hafði Steinn Elliði verið álíka svartsýnn á andlegan þroska sinnar kynslóðar:

„Því rosknari sem maðurinn verður, því hégómalegri verða spurningarnar sem hann brýtur heilann um, því auðvirðulegri ákvarðanirnar sem hann tekur. Það er sjaldgæf undantekníng að hitta mann sem hugsar eftir þrítugt. Að eldast táknar uppgjöf manns gagnvart staðreyndum. Hann breytir ekki framar vatni í vín, mælir ekki leingur fyrir, skapandi hugsuður; klókindi hans felast héðanífrá í því einu að taka afstöðu til þess sem er, koma sér þannig fyrir að misfellurnar sem hann barðist mest við að jafna í æsku geri honum sem minnst ónæði. Að eldast er að missa kjarkinn við gordíonshnútinn, sættast við það sem ekki tókst að sigra á. Sál roskins manns er storknað hraun.“ (úr Vefaranum mikla frá Kasmír eftir Halldór Kiljan Laxness, sem enn átti fimm ár í þrítugt þegar bókin kom út).

Þegar maður hlustar á Ýlfur þá veltir maður fyrir sér af hverju kynslóð Ginsbergs gafst ekki upp, af hverju hún leyfði sér að berjast – og fórna sér, því þetta var alltaf að fara að kosta blankheit, hedónisma, geðveiki og niðurlægingu.

En mögulega verður alltaf erfitt að finna hedónismann og ljóðrænu Ginsbergs í raunverulegum blankheitum, kannski er draumaland hins ljóðræna hedónisma alltaf tálsýn – eða eitthvað sem verður aðeins til við einstakar aðstæður í mannkynssögunni?

Eða kannski eru alltaf einhverjir magnaðir hugsuðir að fara þá leið sem Ginsberg lýsir – en við vitum bara ekki af þeim, af því það er enginn að yrkja þessi ljóð um þá lengur?

Þetta ljóð er mögnuð þeysireið um Ameríku, við erum stödd í New York og virðumst alltaf enda þar aftur, en þvælumst vítt og breytt um landið. Þetta var kynslóð sem virtist lítinn áhuga hafa á París eins og næsta skáldakynslóð á undan, það var eins og þeir finndu að nú þyrfti að yrkja Ameríku upp á nýtt, áður en hægt væri að fara annað.

Þeirra hlutverk var að „spjalla um Ameríku og eilífðina“ – og Eiríks hlutverk var að þýða hana.

Tónlist Gímaldin er eins og mögnuð kvikmyndatónlist, maður sér fyrir sér bítnikkana þvælast um Ameríku síðustu aldar undir upplestri Eiríks – en hún fer aðeins út af sporinu í öðru versinu, versi sem er einkennilega úr takti við það fyrsta raunar af hendi Ginsbergs, en maður áttar sig betur á því í næstu versum – hann er sjáandinn í fyrsta versinu og þriðja versinu, sögumaður – en er fórnarlamb í öðru og fjórða, fastur í geðveikinni sem hann yrkir um.

Allra mögnuðust verður svo tónlist Gímaldins í lokakaflanum heilaga, neðanmálsgreininni við Ýlfrið. Þýðingin er svo alltaf sannfærandi, kjarnyrt eins og ljóðið hafi verið frumort á íslensku – þótt hér skorti eyðimerkur Ginsbergs, hér séu færri og styttri þjóðvegir og miklu kaldara að búa á götunni.

Útskrifaður úr Ginsberg

Hvernig kom svo til að ljóðskáld að vestan þýddi Ginsberg? Eiríkur fór ítarlega yfir þá tilurðarsögu á Facebook:

„Eitt af því fyrsta sem ég tók mér fyrir hendur þegar ég ákvað endanlega að helga líf mitt bókmenntunum var að þýða Allen Ginsberg. Hvatinn var einhvers konar blanda af mikilmennskubrjálæði og skuldauppgjöri – Ginsberg er einn af 2-3 höfundum sem blésu mér slíkum móð í brjóst á unglingsárunum að mér fannst óhugsandi upp frá því að gera annað en að skrifa. Jafnvel þótt það færi mjög illa – og kannski ekki síst ef ég myndi gera mig að fífli. Mér fannst einsog ég yrði að byrja á því að borga honum fyrir innblásturinn – og kannski fannst mér líka einsog þetta kæmi í staðinn fyrir að fara í ritlist (sem var ekki í boði), í staðinn fyrir háskólanám í bókmenntum eða íslensku eða einhverju öðru (ég margreyndi að fara í háskóla en það gekk ekki neitt).

Það fyrsta sem ég las eftir Ginsberg var Ameríka í þýðingu Dags Sigurðarsonar – um það leyti sem Ginsberg lést – og svo fann ég allt hitt á alls kyns bítsíðum í árdaga internetsins. Fyrstu bækurnar sem ég pantaði af netinu voru líka bækur eftir og um Ginsberg (og bítskáldin) – diska með upplestrum fann ég á bókasöfnum og rippaði inn á tölvuna mína þegar það var hægt. Það var svo sennilega 1999 sem ég byrjaði að þýða Howl – Ýlfur – og ef satt skal segja var það nú bara til að sjá hvort þetta væri hægt. Hvort þetta væri tungutak sem mætti endurskapa á íslensku. Svo óx þetta og óx og fleiri ljóð bættust við og ég var oft einsog andsetinn af þessu verkefni – dröslaðist um árum saman með handritið í glósubókum, á floppídiskum og á gamla ritþjálfanum mínum. 2001 bjó ég í Þrándheimi og fékk lánaða hjá vinkonu minni fartölvu sem meira að segja þá var ævaforn – ábyggilega 20 kíló og gekk ekki nema þegar hún var í sambandi. Ég segi stundum frá því „hvar ég var 11. september“ – en þá hafði ég týnt tölvunni og þurfti að kemba alla barina í Þrándheimi til að finna hana. Árinu áður lenti ég í slagsmálum inni á Sirkus út af þessari þýðingu – bókstaflega út af orðavali – okkur fjandmanni mínum var hent út og við rúlluðum niður allan Klapparstíg og urðum vinir aftur inni í einhverju húsasundi. Það er ljúfasta minningin mín af Sirkus. Og þegar ég las upp úr bókinni á „bítkvöldi“ í Þjóðleikhúskjallaranum ári eftir Þrándheim var ég púaður niður af mjög fullum manni sem fannst textar Ginsbergs hómófóbískir, sagði hann.

Mín fyrsta viðkynning við íslenskan útgáfuheim var þegar ég rakst á Kristján B. Jónasson á einhverju bókmenntakvöldi og hann kannaðist við mig í gegnum kunningja minn og spurði hvað ég væri að gera og ég sagðist vera að þýða Ginsberg og þegar hann sagði eitthvað einsog „nújá?“ maldaði ég mjög vandræðalegur í móinn og sagði að „eitthvað þyrfti maður nú að hafa fyrir stafni“. Ég held ég hafi aldrei gert jafn lítið úr neinu sem ég hef haft fyrir stafni og þá – fannst einsog ég hefði engan rétt til þess að gera þetta, þetta væri gersamlega yfir strikið. En svo skammaðist ég mín fyrir að skammast mín svona og Kristján var fyrsti maðurinn sem ég sendi handritið þegar það var tilbúið. Og honum leist alls ekkert illa á það. Það var mörgum sinnum útlit fyrir að nú væri bókin alveg að koma út – fyrst ætlaði Kristján og Forlagið að gera það en bakkaði tvisvar út (og réð mig í millitíðinni til að þýða Michael Moore og gaf síðan út fyrstu skáldsöguna mína). En hætti svo alveg við. Bjartur sagði nei og JPV sagði nei og allir sögðu nei og ég var kominn í samband við einhvern lögfræðing í London sem fór með réttindamálin í Evrópu og ég grátbað hann um að lækka verðið svo ég gæti gert þetta sjálfur en ekkert gekk. 2004 sat ég á Langa Manga á Ísafirði – þar sem Heimabyggð er nú til húsa – og sturtaði úr heilum kaffi latté yfir nýlega fartölvu sem ég hafði leyft mér að kaupa og hafði að geyma nýjustu útgáfu þýðinganna (og fleira). Starfsmönnum Snerpu á Ísafirði tókst blessunarlega að bjarga gögnunum og einhvern veginn eignaðist ég nýja fartölvu til að geyma þau. Og þar lá þýðingin í nokkur ár. 2008 ætluðu Uppheimar að gefa bókina út en þeir frestuðu um ár (en fengu mig til að þýða Súkkulaði eftir Joanne Harris – sem var mikið deja vú frá Forlagsvonbrigðunum) – og þegar Silja Aðalsteinsdóttir fór að vinna hjá Máli og menningu 2009 og vildi fá mig þangað með skáldsöguna Gæsku bökkuðu Uppheimar út – Uppheimar væri höfundaforlag og það væri allt eða ekkert. Blessunarlega tók Silja þá slaginn fyrir bókina á sinni ritstjórn og það varð úr að Mál og menning gaf hana út þá um haustið – þó þar væri varla innanborðs eitt einasta forlag sem var ekki búið að hafna henni a.m.k. einu sinni. Tíu ár voru þá liðin frá því að ég byrjaði á þessu, og fimm eða sex ritstjórar höfðu komið og farið og gert gagn og ógagn og kostað mismikið hringl (einn þeirra sannfærði mig um að skipta út öllum &-merkjum í bókinni, sem ég gerði með einföldu search and replace og þurfti svo að handsetja inn aftur – af því Ginsberg notar ýmist „og” eða „&“ og það er merkingarmunur – og bara sú handavinna tók ábyggilega tvær vikur). Maíkonungurinn hét bókin og heitir og inniheldur öll helstu ljóð Ginsbergs. Ég held hún hafi fengið einn la-la dóm í mogganum og svo hvarf hún ofan í algleymið og ég hef sama og ekkert verið samferða Ginsberg síðan. Ég var útskrifaður og þótt ég viti eðlilega af ýmsu sem hefði mátt fara betur í þessu – bæði klaufavillum og yfirveguðum vilja-villum – þá er þetta nú samt verk sem ég er stoltur af.

En þarna einhvern tíma löngu áður en bókin kom út – 2003 – tókum við Gímaldin / Gísli Magnússon höndum saman og gáfum út geisladisk sem hefur stundum verið spurt eftir og kallaðist „Á íslensku má alltaf finna Ginsberg“. Hljóðverk Gísla við þýðingu mína og upplestur á Ýlfri. Nýhil gaf út – og var ein af fyrstu útgáfum þeirrar möguleikaverksmiðju, gerð í leyfisleysi, bootleg-útgáfa, við spurðum aldrei lögfræðinginn í London, heimabrenndir diskar með fjölrituðu umslagi á fallegan pappír í litlum plastvasa. Í sumar hittumst við Gísli síðan fyrir vestan, héngum í stofunni heima í Tangagötu og spjölluðum eða gutluðum blús á gítar, röltum um fjöll og firnindi, drukkum kaffi og settum okkur í spekingslegar stellingar, og þá kom til tals hvort ekki þyrfti að finna „masterinn“ að þessari plötu og koma honum í netvænt formatt. Það tók smá stund að stilla saman alla þá strengi, fiffa það sem fiffa þurfti, toga í alla takka, hljóðjafna og hvað þetta heitir allt saman. En hér er hún sem sagt kominn – á YouTube og á Spotify – þessi merka afurð. Á íslensku má alltaf finna Ginsberg.“

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson