Megum við syngja núna? Megum við byrja? So may we start? Þetta eru orðin sem fylgja fyrstu Cannes-hátíðinni eftir heimsfaraldur úr hlaði – eða fyrstu Cannes-hátíðinni í heimsfaraldri, eftir því hvar mannkynssagan mun ákveða að við séum stödd á tímalínu kófsins. Þetta er ákall flestra listamanna heimsins sem þurfa áhorfendur í sal; getum við byrjað aftur að syngja og leika fyrir ykkur?

Þessi frumhvöt, list með öðru fólki, þarf að fá sína útrás.

Handritshöfundar Annette, opnunarmyndar Cannes, eru sýnilegir í byrjun og munu birtast í aukahlutverkum seinna; Sparks-bræðurnir sem sömuleiðis semja tónlistina og eru meðlimir í dúettnum Sparks. Og heita réttu nafni Ron og Russell Mael, virka eiginlega stundum frekar eins og feðgar, annar strákslegur og hinn þögull með örþunnt yfirvaraskegg.

„The budget is large, but still it‘s not enough,“ syngja þau. Þau eru ennþá í hversdagsfötunum – myndin er ekki enn byrjuð, þau eru að gera sig klár.

Þau syngja um hvernig þau hafi búið til heilan heim, bara fyrir okkur. Heim þar sem allt má, þau muni drepa fyrir okkur, syngja og deyja fyrir okkur – það er snargeðveik rokkópera í uppsiglingu.

(Örlítil athugasemd um myndböndin: hér fyrir ofan má sjá byrjunina á myndinni sjálfri – ca 70 sekúndur – og svo eftir það senur úr myndinni. Hér fyrir neðan er lagið svo í fullri lengd).

Þetta er ávarp til áhorfenda og hlustenda; listamennirnir að játa það sem sjaldnast er orðað; þeir eru ekkert ef enginn er að hlusta, enginn að horfa.

En þetta er ekki bíórýni – hún kemur á morgun. Þetta er bara smá upphitun, ég vildi bara leyfa ykkur að hita upp með upphafslagi myndarinnar. Svo byrjum við.

En fyrst, smá millispil – hvaða band er þetta?

Sparks-bræðurnir voru líklega alltaf að fara að skrifa bíómynd einn daginn – þeir eru báðir menntaðir í kvikmyndafræðum, ásamt öðru – og hafa alveg stundum verið í viðræðum um verkefni sem ekkert varð af. Guy Maddin var til dæmis áhugasamur um að kvikmynda útvarps-söngleik sem þeir gerðu, The Seduction of Ingmar Bergman, um þegar Ingmar Bergman endaði nærri því á að svara kalli Hollywood. Það er þó rétt að taka fram að sagan er skáldskapur.

Nú er alveg möguleiki á að verkið endi sem teiknimynd – og yrði þá leikstýrt af Joseph Wallace, sem gerði alveg frábært teiknað myndband við Sparks-lagið „Edith Piaf (Said It Better Than Me).“ Þetta er eitt af betri lögum þeirra félaga – um það að upplifa að hafa ekki upplifað átökin og hörmungurnar sem Piaf upplifði til að gefa músíkinni sál. Og skemmtilega viðeigandi að Marion Cotillard, leikkonan sem varð fræg fyrir að leika Piaf, er í öðru aðalhutverki Annette.

En eftir alla þessa áratugi í tónlistinni eru þeir skyndilega að koma í bíó – tvisvar. Ekki nóg að fyrsta handritið þeirra komist á fjalirnar með Annette, heldur hefur Edgar Wright líka gert heimildamynd um þá, sem var frumsýnd á síðustu Sundance.

Bætum kannski við einum-tveimur gömlum slögurum Sparks-bræðra, til að koma ykkur á bragðið. Og svo kemur bíórýnin á morgun.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson