Adam Driver er óvenjuleg bíóstjarna. Maður kynntist honum fyrst sem lúðalega slánavini hipsteranna – svo varð hann aðal hipsterinn sjálfur, slánalegur með óreiðukenndan makka og maður vissi aldrei alveg hvar maður hafði hann. Kannski var þetta nýjasta indí-stjarnan, Nicolas Cage okkar hipsteratíma?
En svo kom Stjörnustríð – og hann varð Kylo Ren. Umskiptin tóku tíma, hann varð ekki Kylo Ren fyrir alvöru fyrr en í annarri myndinni, og þá fór maður að átta sig á að Adam Driver var enginn hefðbundinn hipster. Hann fór í sjóherinn ungur, var villingur og villtist einhvern veginn til Hollywood, með allt aðra lífsreynslu í farteskinu en hipsterarnir sem hann lék. Það eru engin barnahlutverk á ferilskránni, fyrstu hlutverkin komu ekki fyrr en þegar hann fór að nálgast þrítugt. En hægt og rólega fór hermaðurinn og hipsterinn að renna saman; lúðalegi sláninn varð massaður jötunn.
Það er þessi þversagnakennda orka sem gerir hann magnað illmenni – og hér leikur hann Henry McHenry, uppistandara sem má alveg deila um að sé fyndinn. Jú, stöku sinnum, vissulega, en aðallega er hann ögrandi og óþægilegur. Hann gengur inn á sviðið í baðslopp með hettu – sem kallast á einkennilegan hátt við búning Jedi-riddarana í Stjörnustríði, sem og boxara að hita upp. En hann ber sig einkennilega, hóstar og er boginn í baki – enn og aftur að leika sér með hina óþægilegu og þversagnakennda orku. Hann virkar eins og hann gæti dottið niður dauður á hverri stundu – en líka eins og hann gæti tekið þig upp með annarri hendi og kyrkt þig á hverri stundu. Feigðin fylgir honum – og um leið getur hann drepið hvern sem er með berum höndum. Og þegar áhorfendurnir hlæja grunar mann að það gæti alveg eins verið af því þeir vilji tryggja að þeir fái ekki leysigeisla frá helstjörnunni í hausinn annars.
Seinna er unnið áfram með Stjörnustríðs-vísanirnar – mótórhjólahjálmurinn kemur í stað ofurskúrkahjálms Sith-lávarðanna, það er dálítið eins og maður sé að horfa á óformlega útgáfu Stjörnustríðsheimsins á Jókernum; þeir eru báðir uppistandarar með einkennilega orku; ekki beint góðir en maður getur ekki annað en fylgst með þeim, andi Andy Kaufman og King of Comedy Scorsese svífur yfir vötnum, en um leið er eitthvað alveg nýtt að fæðast hérna.
Ástin og frægðin
Og já, þetta er söngleikur – svo ég vitni í upphafsorð föstudagslagsins:
„Megum við syngja núna? Megum við byrja? So may we start? Þetta eru orðin sem fylgja fyrstu Cannes-hátíðina eftir heimsfaraldur úr hlaði – eða fyrstu Cannes-hátíðinni í heimsfaraldri, eftir því hvar mannkynssagan mun ákveða að við séum stödd á tímalínu kófsins. Þetta er ákall flestra listamanna heimsins sem þurfa áhorfendur í sal; getum við byrjað aftur að syngja og leika fyrir ykkur?
Þessi frumhvöt, list með öðru fólki, þarf að fá sína útrás.
Handritshöfundar Annette, opnunarmyndar Cannes, eru sýnilegir í byrjun og munu birtast í aukahlutverkum seinna; Sparks-bræðurnir sem sömuleiðis semja tónlistina og eru meðlimir í dúettnum The Sparks.
„The budget is large, but still it‘s not enough,“ syngja þau. Þau eru ennþá í hversdagsfötunum – myndin er ekki enn byrjuð, þau eru að gera sig klár.
Þau syngja um hvernig þau hafi búið til heim, bara fyrir okkur. Heim þar sem allt má, þau muni drepa fyrir okkur, syngja og deyja fyrir okkur – það er snargeðveik rokkópera í uppsiglingu.
Þetta er ávarp til áhorfenda og hlustenda; listamennirnir að játa það sem sjaldnast er orðað; þeir eru ekkert ef enginn er að hlusta, enginn að horfa.“
En með því að sýna leikarana líka þar sem þeir undirbúa sig fyrir hlutverkið þá er verið að segja okkur; þetta er mynd um listina, þetta er mynd um frægðina, þetta er mynd um leikarana. Þetta er mynd um Adam Driver, eða öllu heldur hans þversagnakenndu kvikmyndapersónu.
Þetta er mynd um hvað frægðin getur verið óútreiknanleg; maður á stundum erfitt með að skilja hversu fræg Henry og Ann, kærastan hans eru, þessi mannfjandsamlegi grínisti og sópransöngkona eru persónur sem yrðu frægar í einhverjum hliðarheimi Leos Carax leikstjóra, þar sem lögmálin eru aðeins öðruvísi. En samt; hversu mikið af frægðarfólki þekkjum við þar sem við getum ómögulega svarað hvaðan í óssköpunum frægðin sprettur? Það er oft óskiljanlegt þeim sem eru ekki heitir aðdáendur sjálfir.
Marion Cottillard leikur Önnu, sópransöngkonuna og ástina hans Henry. Þetta er stórt hlutverk en kannski ekki alveg nógu bitastætt, fókusinn of skarplega á Driver, hún á eftirminnilegt atriði þar sem hún speglar Mjallhvíti og seinna meir sem óræð sjávargyðja. Myndin virðist snemma jafnvel ætla að verða ástarsaga; þau keyra um á mótorhjólinu og syngja ástaróða, syngja jafnvel þegar þau makast og læknarnir syngja þegar Anna fæðir þeim stúlku – en maður veit alltaf að þetta mun aldrei endast, orkan er of óræð, óþægileg. Sem verður kannski skýrast þegar Ann dreymir hálfgerðan #metoo draum – þráður sem hverfur kannski helst til of auðveldlega, en samt vísir af athyglisverðum anga #metoo: núverandi konur ofbeldismanna, sem hafa kannski fundið ógnandi orku án þess að neitt ofbeldi hafi átt sér stað enn, eða jafnvel átta sig á ofbeldinu í gegnum frásagnirnar sem skyndilega streyma inn; hvernig upplifun er það?
Inn á milli fáum við svo áminningu um frægðina, innskot úr slúðurþætti þar sem nýjustu fréttir af lífi skötuhjúana eru sungin ofan í okkur.

Þetta er La La Land snúið á haus, söngurinn fullur af feigð frekar en lífsgleði, og á endanum játar Henry af hverju hann vildi gerast uppistandari: „Ég vil afvopna ykkur.“ Þið afsakið en þetta þýðist illa, disarm er notað óformlega í ensku, sjaldnar á íslensku – en hann segir það furðu bókstaflega; atriði hans snýst ekki um að fá fólk til að hlæja, heldur að ná því á vald sitt. Hann er sirkusstjóri og stýrir þeim. Þangað til þau snúast gegn honum, eins og úlfahjörð.
En þegar á líður tekur ævintýrið yfir. Í myrkasta og dekksta skilningi sem þið getið ímyndað ykkur. Í lykilsenum er eins og Driver sé að leika kolbrjálaðan Kolbein kaftein og Cotillard að leika sturlaða vatnadís – og það sem mestu skiptir; dóttirin reynist spítustelpa, dóttirinn hún Annette litla sem myndin er nefnd eftir – en í spítustelpunni slær samt hjartað sem foreldrarnir hafa löngu glatað. Og ólíkt spítustráknum Gosa þá getur hún ekki logið. En hún getur sungið.
Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson