„Heyrirðu tónlistina?“ spyr Niels Bohr hinn unga J. Robert Oppenheimer snemma í Oppenheimer – og þótt stráksi finni sig ekki í verklegu námi þá getur hann svarað þessu játandi með góðri samvisku. Og fyrsti klukkutími Oppenheimer er kröftugasti hluti myndarinnar einmitt af því þá einbeitir Christopher Nolan sér að því að hjálpa okkur að heyra tónlistina. Bæði myndrænt, með leiftrum af sólgosum og óræðum efnahvörfum, sem og svipmyndum af hinu smáa en þó stóra í náttúrunni, vatni sem gárast, mynstrunum í náttúrunni. En líka bókstaflega með ærandi hljóðrásinni – hljóðrásinni sem truflaði í Tenet en smellpassar hér og í Interstellar, af því ærandi hljóðið er hluti af sögunni, því sem ærir fífldjarfar aðalpersónur hennar.

Hér birtist okkur vísindamaðurinn sem listamaður, Oppenheimer þarf að elta sköpunarkraftinn alla leið – jafnvel þegar hann áttar sig á því að sköpunarmátturinn reynist vera eyðingarmáttur. Það er líka auðvelt að ímynda sér Nolan sjá sjálfan sig í Oppenheimer – hann upplifði það í kófinu að sköpunarverkið hans var tekið frá honum, í einhverjum skilningi, rétt eins og Oppenheimer er snyrtilega settur á hliðarlínuna þegar hann hefur fært mönnunum eldinn.

En Nolan er líka leikstjóri sem öðrum fremur er upptekinn af seinni hluta kvikmyndatækninnar,  tæknihlutanum, sem fyrir honum er órjúfanlegur hluti af listinni. Tækni sem getur breytt heiminum, tækni sem getur haft afleiðingar, og tækni sem kvikmyndagerðarmenn rétt eins og vísindamenn missa iðullega í hendurnar á misvitrum stjórnmálamönnum og stúdíómógúlum – sem eru hér túlkaðir af Robert Downey jr., sem leikur svikulan bandamann, og Gary Oldman, sem bregður fyrir sem Truman forseti – sem virkar eins og orðheppið fífl, en dansinn við þessa menn endurspegla örlög bæði margra okkar bestu vísindamanna og bestu listamanna; þeir neyðast ósjaldan til að vinna fyrir menn sem skortir visku og hæfileika, en hafa völdin og peningana til að bæta fyrir það.

Nolan hefur sömuleiðis lengi verið áhugasmur um vélina, vélarnar sem við sköpum og eru ósjaldan dómsdagsvélar á sinn hátt, þótt þær séu kannski ekki allar færar um að granda gervallri veröldinni. Í The Prestige er reynt á hinstu mörk galdra (með áherslu á tengsl galdra og tækni, Nikola Tesla er enda persóna í myndinni, rétt eins og Albert Einstein er persóna í Oppenheimer) og í Interstellar er reynt á ystu mörk tækninnar og alheimsins sjálfs. Enda Interstellar andlega skyldust þessari af öllum verkum Nolans, í því hvernig hljóðrásin er hluti af sögunni og í því hvernig vísindin leiða okkur handan alls sem við töldum mögulegt, í heim hins goðsögulega – samanber óseðjandi áhuga Oppenheimer á fornum goðsögum, þeim indversku sérstaklega.

Endurkoma Nolans

Þetta er sannarlega karlamynd, eins og flestar myndir Nolans – og þótt Emily Blunt fái magnaðar senur við upphaf og lok myndar sem eiginkonan Kitty, þá gleymist hún dálítið þess á milli, verður einhver óræð drykkfelld móðir og maður týnir aðeins strengnum á milli þeirra hjóna. Þrátt fyrir það er hún með betri kvenpersónum Nolans í seinni tíð. Hann kunni þetta samt í upphafi ferils, Carrie Ann Moss í Memento og þær Hilary Swank og Moira Tierney í Insomnia voru prýðilegar kvenpersónur, en allar götur síðan hefur kvennaklefi Nolan-heimsins verið ansi stirðbusalega útfærður.

Oppenheimer er samt ásamt Interstellar besta mynd Nolans síðan Heath Ledger kvaddi – höfundarverkið var þétt og raunar meistaralegt fram yfir The Dark Knight, en hefur verið ansi gloppótt síðan, en uppá sitt besta á Nolan samt enn erindi. Þegar þarf að gera karllægar myndir um flónsku karldýra heimsins, sem og örvæntingu þeirra og metnað.

Í svona mynd er maður vitaskuld ofurmeðvitaður um allt sem gerist handan myndavélarinnar; um sprengjurnar sem sprungu í Hiroshima og Nagasaki og raunar einnig um fónarlömb tilraunasprengjunnar í Nýju-Mexíkó. Einhverjir hafa kvartað yfir því að þetta komi ekki fram í myndinni, það sé jafnvel ekki einn einasti Japani í myndinni – en það eru einfaldlega aðrar bíómyndir. Og Japanir sjálfir hafa vitaskuld gert sprengjunum skil á fjölbreyttan og margvíslegan hátt í eigin myndum – það væri frekar að rifja þær myndir upp, frekar en að kvarta yfir að Christopher Nolan hafi ekki leikstýrt þeim.

Nolan sló fyrst í gegn með Memento, mynd um minnislausan mann að leita að flísum í minninu – og henda þeim í burtu ef þær henta illa hans heimssýn, hans sýn á sitt fortíðarsjálf. Oppenheimer er um sumt svipuð persóna – en myndin fjallar samt frekar um flísarnar í okkar sameiginlega minni. Þetta er mynd um atburði sem flest sæmilega lesið fólk hefur ákveðna þekkingu á en ekki endilega ítarlega, það eru jú liðin 78 ár síðan sprengjan sprakk og margt sem hefur fennt yfir.

Myndin skiptist í raun gróflega í þrjá hluta (þótt vissulega sé flakkað villt og galið á milli tímaskeiða að hætti hússins); uppvaxtarsaga Oppenheimers sem vísindamanns, frá því að vera óöruggur nýnemi í Cambridge yfir í að vera aðalspaðinn, fyrst í Þýskalandi og svo í Berkeley. Þarna sjáum við snilling í leit að útrás fyrir snilligáfuna – útrás sem hann finnur svo í miðhlutanum, þegar hann fær að byggja heilan bæ fyrir afburða vísindafólk, svona svipað og Sovétmenn gerðu seinna með Pripyat og fleiri borgir ætlaðar mestu raunvísindahugsuðum Austurblokkarinnar. Já, og auðvitað að byggja sprengjuna, dómsdagsvopnið ógurlega. Þegar maður rennir svo yfir persónugalleríið á internetinu á eftir áttar maður sig á því að Oppenheimer er nánast í minnihluta með það að fá aldrei Nóbelsverðlaunin úr þessum hópi – og sannarlega fleiri þarna sem gætu staðið undir bíómynd.

Svo kemur að lokahlutanum, réttarhöldunum (þótt þau séu ekki kölluð það). Fyrst finnst manni myndin aðeins týna sér þarna í aukatriðum – þegar maður hugsar um eftirmála kjarnorkusprengjunnar hugsar maður óneitanlega um alvarlegri hluti en þessa typpakeppni um mannorð og völd, sem virkar ansi léttvæg í samanburðinum.

Á einhverjum tímapunkti áttar maður sig þó á því að þar er nútímamaðurinn ég að varpa eigin dramatúrgíu og gildum yfir á sannsögulega atburði – og myndin snýst í grunninn mest um að sýna mann sem er tragísk hetja, fyrst og fremst af tveimur ástæðum; hann leyfði eigin hæfileikum að blómstra með því að elta eigin metnað – og hann svaraði kalli tímans.

En kall tímans er oft verið heimskulegt og skammsýnt. Oppenheimer svaraði kalli millistríðsáranna með að daðra við kommúnisma og styðja spænska lýðveldissinna, hann svaraði kalli stríðsins með að búa til sprengjuna og hann svaraði kalli eftirstríðsáranna með að taka þátt í kengúruréttarhöldum McCarthy tímans. Við sjáum hvernig menn flækjast í orðræðu og hugmyndafræði hvers tíma og á meðan gera þeir eitthvað óafturkræft eins og að búa til gereyðingarvopn.

Við sjáum hvernig orðræða kalda stríðsins gerir það í raun ómögulegt að ræða ákveðna hluti að nokkru viti, eins og til dæmis getu mansins til að tortíma veröldinni, allavega ekki ef þeir flækjast inná svið pólitíkur og diplómasíu þessara ára. Þar er jafnvel afburðafólk á sínu sviði skyndilega valdalaust, af því völdin liggja hjá þeim sem skilgreina og stjórna orðræðunni, ekki hjá þeim sem mögulega skilja veröldina miklu dýpri skilningi en durgar eins og Truman.

Þetta er eitthvað sem kallast ágætlega á við nútímann, þar sem maður sér bæði dæmi um fólk sem umturnast pólitískt í kjölfar heimsfaraldurs og/eða Úkraínustríðs, eða þvert á móti enda eins og steintröll í breyttum heimi. Hvorugt eru góð örlög, það er snúið að greina raunverulegt kall tímans frá hávaða heimsviðburðana, frá hávaða þeirra sem öskra á þig og krefja þig um svör við spurningunum sem á endanum skipta litlu.

Og regnið gárast og keðjuverkunin sem hófst í hugarórum metnaðarfullra raunvísindanema millistríðsáranna lætur enn finna fyrir sér, tæpri öld síðar.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson