Hvað eiga George W. Bush Bandaríkjaforseti og Batman sameiginlegt? Andrew Klavan skrifar pistil íWall Street Journal þar sem hann lýsir því þegar Batman-merkið birtist á himninum: „En þetta er ekki leðurblaka, ef þú fylgir útlínunum með puttanum lítur þetta eiginlega út eins og… W.“ Og hann heldur áfram að draga línur með fingrunum á milli Blaka og Bush: „Rétt eins og W. er Batman útmálaður sem skúrkur fyrir að mæta hryðjuverkamönnum á þann hátt einan sem þeir skilja. Rétt eins og W. þarf Batman stundum að beygja þegnréttindi þegar hætta steðjar að….“

Og Klavan er ekki einn um það að setja samasem-merki á milli þeirra tveggja, auk þess sem ófáir hafa sagt kolbrjálaðan Jókerinn staðgengil Osama bin Laden. En þótt líkindi séu til staðar er samlíkingin gölluð. Ólíkt núverandi forseta hefur Blaki til að bera skarpskyggni og hugsjónir og ólíkt Osama þá hefur Jókerinn engar hugsjónir að virðist nema stjórnleysið, sem er í litlum takti við hið íslamska reglugerðarríki sem bin Laden dreymir um.

Jókerinn er miklu frekar Neró sem spilaði á fiðluna og söng á meðan Róm brann, eða eins og þjónninn Alfred orðar það svo snyrtilega: „Sumir menn vilja bara sjá veröldina brenna.“ Lausnin? „Að brenna niður skóginn.“ Eða borgina, þeirra eigin borg. The Dark Knight fjallar um borg í ljósum logum, logum sem Jókerinn hefur kveikt með hjálp þeirra sem flestir flokka sem hetjur.

Það eru tveir riddarar á sveimi í þessari brennandi borg, sá hvíti og sá svarti. Harvey Dent og Blaki, tveir samherjar í baráttunni við illþýðið. En Harvey Dent fellur af fákinum, verður skúrkurinn Tvífés og svarti riddarinn stendur einn eftir. En hann er aðeins skrefinu á eftir Harvey. Hann er líka farinn að brjóta eigin reglur (heldur uppi njósnum um alla íbúa borgarinnar, beitir fanga pyntingum í anda Guantanamo) í örvæntingu, hann er líka farinn að forherðast – og ef það er einhver leið sem er vís til glötunar í heimi Christophers Nolans leikstjóra þá er það þegar góðir menn fara út af sporinu, sbr. Memento og Insomnia. Ólíkt vafasömum pólitíkusum gefur hann ekki afslátt af hugsjónunum. Harvey Dent er forspár um eigin örlög snemma í myndinni þegar hann fullyrðir: „Annað hvort deyrðu hetja eða þú lifir nógu lengi til að horfa upp á sjálfan þig breytast í skúrk.“ Og það er rétt að hafa í huga að það er vafalítið framhald á leiðinni, framhald þar sem Blaki þarf að svara fyrir eitt og annað, framhald þar sem hann mun þurfa á öllu sínu að halda til þess að hanga í söðlinum – en ef hann fellur man hann vonandi mantra fyrstu Batman-myndar Nolans, við föllum svo við lærum að standa upp aftur.

En Blaki og Dent eiga það sameiginlegt að koma báðir að Gotham-borg sem er rotin að innan. Þeir eru að reyna að endurvekja vonina, eða eins og Dent orðar það í einni af ræðum sínum; „nóttin er dimmust rétt fyrir dagrenningu.“ Ameríka rétt fyrir lok Bush-áranna kemur upp í hugann, Ameríka dagsins í dag. Ameríka sem bíður eftir Barack Obama, hvíta riddaranum sem þó er svartur. Og þannig er myndin miklu frekar aðvörun til Obama en óður til Bush, hún er áminning um það að þótt Bush verði horfinn úr Hvíta húsinu verður ennþá nóg eftir af illsku í veröldinni og það verður ekki auðvelt að halda í hugsjónirnar í þeirri harðskeyttu veröld sem Bush-stjórnin hjálpaði til við að gera enn brothættari. Jafnvel virtustu íbúar Hvíta hússins hafa sitthvað vafasamt á samviskunni.

Batman er heldur ekki eina ofurhetjan þetta sumarið sem ber vitni um breytta Ameríku. Hingað til hafa flestar ofurhetjur byrjað sem venjulegir meðaljónar sem breyttust í hetjur, þetta var ameríski draumurinn í teiknisöguformi. Nú byrjar draumurinn hins vegar á mönnum eins og Tony Stark (seinna Járnmanninum) og Hancock sem eru uppteknari við það að detta í það og gera óskunda en að bjarga heiminum, áður en þeir gerast almennilegar hetjur. Þetta er Ameríka sem dreymir um að umheimurinn fari að hætta að líta á hana sem skúrk.

Í The Guardian kallar Andrew Pulver Batman raunar Hamlet okkar tíma, „Shakespeareskur í getu sinni til þess að standast óteljandi túlkanir.“ Hann hefur þróast með Ameríku og mun vafalaust gera það áfram, þriðja myndin er farin að gerjast og Batman mun halda áfram að vera það sem við viljum að hann sé. En gæti verið að stefna næsta ævintýris Blaka muni velta á því hvort svarti riddarinn Obama nær að bregða nægilega mikilli dagsbirtu á Hvíta húsið?

Eða liggur máski lausnin hjá Jókernum? Tyler Durden (Fight Club) Bush-áranna, brjálæðingurinn sem lætur okkar horfst í augu við eigin flónsku. Hann sér í gegnum allar okkar áætlanir, plott og valdabrölt. Hann vill bara fá okkur til að brosa, brosa á meðan borgir brenna. Hann er trúðurinn sem umbreytir veröldinni. En því miður er trúðurinn sem Andrew Klavan dáist að ekki nærri jafn fyndinn.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Greinin birtist upphaflega í Morgunblaðinu 29. júlí 2008.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson