Christopher Nolan hóf ferilinn með hræódýrri svart-hvítri smámynd, sló í gegn með Memento og hefur nýlokið við að frumsýna mynd um Leðurblökumann sem stefnir í að verða einhver stærsta mynd kvikmyndasögunnar.

***

Hendurnar. Þetta byrjar alltaf á höndunum. Höndunum á nafnlausa þjófnum, höndunum á Leonard Shelby, höndunum á Will Dormer … en svo birtast vængir, óteljandi leðurblökuvængir. Following, Memento og Insomnia, þrjár fyrstu myndir breska leikstjórans Christophers Nolan, byrja allar á skoti af höndum aðalpersónunnar – og þótt við áttum okkur ekki á því fyrr en löngu seinna eru þær þarna í byrjun að vinna þær gjörðir sem leiða persónurnar að lokum til glötunar. En Batman er ofurhetja, honum er því hugsanlega við bjargandi í viðsjárverðum heimi Nolans – sem og galdrakarlinum Alfred Borden í The Prestige.

Flísarnar í minninu

Following, fyrsta mynd Nolans, var tekin upp í Bretlandi fyrir smáaura, kostaði minna en frægar „low-budget“ myndir á borð við El Mariachi og Clerks. Nafnið er dregið af þeirri áráttu aðalpersónunnar að elta ókunnugt fólk, bara til þess að geta sett sig í spor þeirra. Aðalpersónan lítur á sjálfan sig sem rithöfund þótt ekki skrifi hann mikið, hann er óttaleg mannleysa en leiðist á endanum út í innbrot þegar honum er bent á að það að heimsækja íbúðir ókunnugs fólks sé jafnvel enn betri leið til þess að setja sig í spor annars fólks. En þótt Nolan sé dugnaðarforkur þá má samt líklega finna meira af honum sjálfum í þessari liðleskju en flestum öðrum persónum hans. Þeir eiga það sameiginlegt að setja sig í spor ókunnugra, ókunnugra sem iðulega bíða ill örlög í viðsjárverðum heimi – og refsingin er grimm, í tilfelli leikstjórans sú að láta sér þykja vænt um aðalpersónu sem oftast er á beinni leið til glötunar. Merki Batman á hurð eltarans benti þó til þess að Nolan sjálfur ætti bjartari framtíð.

Following var rétt rúmlega klukkutíma svart-hvít mynd sem fór ekki víða. En svo kynnti Nolan veröldina fyrir Leonard Shelby, manninum sem getur ekki munað til að gleyma. Byrjunaratriði Memento er ógleymanlegt öllum sem sáu, hendur sjást hrista polaroid-mynd, við sjáum myndina fölna og svo fer byssukúlan aftur upp í byssuna. Og á einu augnabliki vissu forspáir bíógestir að nýr meistari væri fæddur.

Leonard Shelby er með ónýtt skammtímaminni sem veldur því að hann vaknar sífellt til meðvitundar á sama augnablikinu, augnablikinu sem hann sá eiginkonu sína liggja í blóði sínu eftir að ráðist var á þau á heimili þeirra. Myndin virðist öll vera sögð aftur á bak en það er þó lúmsk blekking, hún skiptist á milli stuttra svart-hvíta atriða sem sögð eru í réttri tímaröð og litasena (töluvert lengri en þær svart-hvítu) sem eru sagðar aftur á bak þangað til að þær mætast í einkennilegum brúnleitum tón í lokaatriðinu.

Myndin snýst um leit Leonard að morðingja konu sinnar og í henni speglast höfundareinkenni Nolans líklega best af öllum hans myndum. Allar fjalla þær einum þræði um sjálfsblekkingu og hvernig syndir manns, jafnvel þær sem virðast smávægilegar, elta mann alltaf uppi að lokum. En fyrst og fremst eru þær kröftug fordæming á hefndinni, hefndinni sem leiðir sögupersónurnar iðulega til glötunar ef þær eiga sér ekki djúpvitran bryta sem kemur vitinu fyrir þær þegar með þarf.

Nolan býr til breyskar hetjur sem gera þær kröfur til sín að þær séu fullkomnar. Standa misvel undir því en Nolan gefur hvorki aðalpersónunum né áhorfendunum séns, hann heimtar að við sem og aðalpersónurnar horfumst einbeitt í augu við hvað það nákvæmlega er sem við þurfum að gera til að verða almennilegar manneskjur. Það er alls ekki jafn auðvelt og það virðist stundum. En það er ekki þar með sagt að það sé hægt að víkja sér undan því.

Leonard hylur líkama sinn með húðflúrum til að geta munað, þannig er það líkaminn sem stjórnar honum í stað hugans, það sem Leonard skrásetur í hold sitt ræður för því annað máist út jafnóðum. Líkaminn er vél sem hingað til hefur þjónað manninum en hinum sjúka, vanstillta huga Leonards hefur tekist að breyta honum í hefndarvél, fullkomna hefndarvél því ef hann fær samviskubit þá gleymir hann því. Þegar honum er bent á fólsku sína undir lok myndarinnar og man í augnablik sáran sannleika sem honum hafði tekist að gleyma hristir hann hausinn, losar flísina úr minninu.

„Ég fæddist ekki hérna“

Næst hélt Nolan til Alaska þar sem lögregluþjónninn Will Dormer getur ómögulega sofið þessar björtu nætur og er myndin nefnd eftir svefnleysi hans, Insomnia (og er endurgerð á samnefndri norskri mynd). En það er þó samviskan en ekki birtan sem heldur fyrir honum vöku og samviskan versnar bara. Hann hafði tekið lögin í sínar hendur og þegar til Alaska er komið taka örlögin Dormer í sínar hendur og refsa honum grimmilega, refsing sem þó var að mestu sjálfsköpuð. Insomnia er þó ekki síður mynd um stað, tökustaðurinn er oft aðeins myndskreyting í bakgrunninum en Alaska Insomniu er nánast sjálfstæður karakter og myndavélin gælir við ægifagurt norðrið, sem birtist kannski best í orðum stúlkunnar sem gætir hótelsins; „Það er tvenns konar fólk í Alaska; þeir sem fæddust hérna og þeir sem eru að flýja eitthvað. Ég fæddist ekki hérna.“

Inn á milli tveggja Batman-mynda kom svo The Prestige, sem eiginlega mætti kalla vasaútgáfu Nolans á Íslendingasögunum. Þar berjast tveir galdrakarlar hatrammlega um titilinn besti galdramaður Lundúnaborgar, en erfitt er að sjá á milli hvort ráði meiru, hefndarlostinn (en sá vítahringur hefst með sviplegu slysi) eða metnaðurinn.

Svarti riddarinn skákar þeim hvíta

Eins og áður er getið verða ákveðin þáttaskil í myndum Nolans með Batman Begins. Þótt mörgum hafi orðið tíðrætt um hve þessi endurlífgun hans á bíóferli Blaka sé myrk er hún þó töluvert bjartsýnni en fyrri myndir leikstjórans. Bruce Wayne er alls ekki fullkominn og þráir að hefna látinna foreldra sinna en það verður honum til happs að eiga brytann Alfred og æskuvinkonuna Rachel að. Þau beina honum ávallt á rétta braut, eru samviskan á öxlinni sem aðalpersónur annarra mynda leikstjórans höfðu losað sig við fyrir löngu.

En það er heldur betur farið að myrkva á ný í annarri myndinni, The Dark Knight, þar sem gervöll Gotham-borg virðist ramba á barmi tortímingar vegna brjálæðis Jókersins. Þar berjast bæði hvíti riddarinn og svarti riddarinn við trúðinn geðveika og annar á eftir að blindast af hefndarþorsta áður en yfir lýkur. En svo er bara að sjá hvort Blaki lifi af þriðju myndina eða hvort hann snúi aftur til að leita hefnda.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Greinin birtist upphaflega í Lesbók Morgunblaðsins 26. júlí 2008.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson