CureForPain

Líður þér illa? Var kærastinn þinn að segja þér upp? Ertu að sleikja sárin? Ég man eftir að hafa hugsað þetta allt þegar Mark Sandman vakti mig í fyrsta skipti. En ég áttaði mig fljótlega á að ég þyrfti ekki að spyrja út af því að svörin voru í tónlistinni. Þannig að ég spurði stúlkuna sem þá var meðleigjandi minn hvaða tónlist þetta væri.

Morphine hét hljómsveitin og diskurinn Cure for Pain. Hún var farin að brosa þegar hún sagði mér þetta því lækningin var farin að virka.

Morphine var lengst af þriggja manna sveit sem spilaði óvenjulegan bræðing af djassi, blús og rokki. Meðlimirnir voru Mark Sandman söngvari og bassaleikari, Dana Colley saxafónleikari og þá skiptust þeir Billy Conwoy og Jerome Duepree á um að sjá um slagverkið og voru um skeið samtímis í bandinu.

Saxafónleikur Colley ljær tónlistinni sérstöðu, poppmúsík þar sem saxafónninn er í aðalhlutverki er ekki á hverju strái – og þangað til ég uppgötvaði Morphine hafði ég mikla fordóma gagnvart hljóðfærinu, sem mér fannst helst eiga heima í bakgrunninum á ódýrum ljósbláum bíómyndum. Bítskáldið Sandman var þó án vafa hjartað í hljómsveitinni, hans var einkennileg lágstemmd röddin og textarnir sem ná lengst inn í kviku.

Þetta er vissulega tónlist djöfulsins, hún hvísar lævíslega í eyrað á manni og fyrsta sungna lagið (alfyrsta lagið er ósungin dagrenning, Dawna) er nefnt eftir djöfsa að nafni Buena sem virðist hafa veitt Sandman þá andagift sem hann þurfti – en hann borgaði til baka og ríflega það á tónleikum í smábænum Palestrínu rétt hjá Róm sex árum síðar.

“Takk fyrir Palestrína. Kvöldið er yndislegt, það er frábært að vera hérna og ég ætla að tileinka ykkur þetta æsandi lag.” Þetta var júlíkvöld árið 1999 en áhorfendur fengu aldrei að vita hvert lagið æsandi var því að loknum þessum orðum hneig Mark Sandman niður. Hann hafði fengið hjartaáfall og lést á sviðinu, 46 ára að aldri.

Eftir sat tónlistin sem ég heyrði fyrst hálfu ári síðar, djöfulleg og einlæg um leið. En líka djúp spor í tónlistarmenningu Boston-borgar þar sem Sandman var guðfaðir ófárra tónlistarmanna. Þegar hann var ekki að spila eða æfa sjálfur var hann iðullega að hjálpa einhverju ungu indíbandi að koma sér af stað, stundum að hlusta, stundum að spila með.

Á disknum má finna ástaróða sem ýmist eru (sjálfs)ásakanir, sjálfsblekkingar, fyrirgefningar eða sættir. “All Wrong” er ástaróður þar sem titillinn einn, margendurtekinn, er vísbending um að hann hafi misst mærina sem hann mærir svo mjög, af svipuðu sauðahúsi er svo “In Spite of Me,” fallegasta lag skífunnar sem hefst svo: Sometime I tell a stranger all about you / They smile patiently with disbelief / I always knew you would succeed no matter what you tried / and I know you did it all in spite of me.” Lag sem er ágætis móteitur við illlæknandi sannfæringu okkar um að við séum eins og annað fólk kemur fram við okkur.

Eins er Sandman tíðrætt um lygar og sjálfsblekkingu. Stundum ertu að blekkja sjálfan þig: “I’m free now / to direct a movie / sing a song or write a book about yours truly / how I’m so interesting I’m so great / but I’m really just a fuck-up and it’s such a waste.” Og stundum ertu að blekkja aðra líka, þá sem skipta þig mestu máli en þó ekki nógu miklu: “Candy asked me if she died / if I could go on / of course I said I couldn’t / and of course we knew that’s wrong.”Lykillinn af plötunni er þó í titillaginu, þar syngur Sandman að dag einn komi lækning við sársaukanum, það sé dagurinn sem hann hendi dópinu sínu út um gluggann. Þetta lag gæti ollið þeim misskilningi að hjartaáfallið væri af völdum eiturlyfa, svo var ekki enda virtist tónlistin vera eina dópið sem hann þurfti. Tónlistin býr í draumunum, en nafnið er ekki aðeins vísun í lyfið illræmda heldur líka í Morpheus, guð draumanna. Þetta er draumalyfið sem hann gefur okkur; smyrsl á öll dýpstu sárin.

Svo sofnaði ég aftur og vaknaði við rifrildið þegar kærastinn kom skríðandi heim.

Ásgeir H Ingólfsson

greinin birtist upphaflega í Morgunblaðinu 30. júní 2007.