tuttuguogfimm

Ég var náttúrulega bara krakki in the 80s. Allt harða stöffið, allt indístöffið, það uppgötvaði maður löngu seinna. Hægt og rólega, án þess endilega að tengja það eitís. En þegar ég horfði á Donnie Darko í fyrsta skipti (af mörgum) þá varð soundtrackið til þess að mér fannst ég fá einhverja innsýn í hvað ég hefði verið að hlusta á á skítugum jaðarpöbbum in the eitís ef ég hefði verið nógu gamall til þess að stunda slíkar búllur þá. Þar sem máninn hótaði morði og glysrokkið var hvergi nærri.

 

tuttuguogsex

Ég var víst búinn að gefa í skyn að Nick Cave væri ekki nógu eitís til að vera með. Ég laug því auðvitað. Af því þegar DeLorean-inn minn kemur og keyrir mig aftur til níunda áratugarins á ég eftir að biðja hann um að stoppa í þessari senu í fallegustu bíómynd í heimi, á skítugri krá í klofinni Berlín þar sem myrkrahöfðinginn Cave leikur fyrir dansi á meðan englarnir labba inní salinn.

tuttuguogsjö

Talandi um bari – þetta var líklega eini barinn sem ég komst inná á níunda áratugnum. Tja, fyrir utan auðvitað alla barina sem ég horfði á leiki á HM 86 með pabba í Þýskalandi. Eins og barinn í Daun Eifel sem Lothar Matthäus skoraði sigurmarkið á móti Morokkó í. Því fögnuðum við Ted Danson og pabbi auðvitað – af kurteisi við heimamenn.

 

tuttuguogátta

Eitís var áratugurinn þegar stöku kvikmyndatónskáld náðu að verða alvöru stjörnur. Fáir eru jafn eitís og Giorgio Moroder – en á þessum áratug samdi líka Vangelis sín frægustu verk. Það væri lítið mál að finna eitthvað úr Chariots of Fire eða Blade Runner – en ég var þótti hins vegar alltaf vænst um músíkina hans í minna þekktum myndum eins og 1492: Conquest of Paradise. Hreint skelfileg bíómynd – en frábær músík. Myndin er að vísu frá 1992, en það er fínt að enda þessa syrpu með því að svindla sér inní framtíðina. Þannig að, endum þetta á þessu lagi, þessu lagi sem fékk mig alltaf til að dreyma. Þetta er sándtrakk fyrir drauma, sándtrakk fyrir heiminn handan næstu sólarupprásar – sándtrakk sem flúði bíómyndina sem það var í og gróf sig inní unglingshausinn á mér.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson

eitís eitteitís tvöeitís þrjú – eitís fjögur – eitís fimm – eitís sex