Það er 1. október 1989. Við erum stödd í gömlu Sovétríkjunum, þar sem ungur piltur blikkar unga stúlku í sundi. Það er rómans í loftinu á meðan miðaldra konur gera leikfimiæfingar í lauginni, en þegar stúlkan stingur sér til sunds fara óvæntir atburðir að gerast.

Nánar tiltekið: þrátt fyrir að vera alls ekki ófrísk þá blæs maginn út í lauginni og henni er bjargað á laugarbakkann þar sem hún fæðir hana Vönju. Svo er farið hratt yfir sögu, 43 börn voru fædd þennan sama dag af mæðrum um heim allan sem allar áttu það sameiginlegt að hafa ekki sýnt nein merki óléttu fyrirfram (það kemur þó ekki fram hvort þetta hafi bókstaflega verið meyfæðingar) og sjö þessara barna voru keypt af hinum dularfulla milljarðarmæringi sir Reginald Hargreaves.

Úr verður Regnhlífarakademían, The Umbrella Academy, þar sem Reginald þjálfar börnin til að beita ofurkröftum sínum til góðs, á milli þess sem hann sýnir fram á stórkostlegt taktleysi sem foreldri.

Þetta gerist allt á fyrstu tíu mínútum The Umbrella Academy, og núna eru komnar tvær tíu þátta seríur. Og það sem ég hugsaði þessar fyrstu tíu mínútur er ég ennþá að hugsa um núna:

a) Fengu Salman Rushdie og þeir Jack Kirby og Stan Lee ekki örugglega höfundarlaun? Ég hef áður skrifað um líkindin á milli X-Men og Miðnæturbarnanna, en það eru forvitnileg og sakleysileg líkindi – The Umbrella Academy stelur grunnstefunum í báðum verkum í heilu lagi.

b) Munu þættirnir nýta sér þessa hluti á forvitnilegan hátt? Í Miðnæturbörnunum eru til dæmis þúsund og eitt barn fætt sama dag og Indland fær sjálfstæði, öll með ofurhæfileika af einhverju tagi (oftar en ekki frekar ópraktíska), en um leið notar Rushdie þessa hugmynd til þess að spegla örlög hins nýfrjálsa Indlands. Og hinir stökkbreyttu X-menn er öllum stundum táknsaga um það að vera utangátta í samfélagi, að vera öðruvísi, og hefur í gegnum tíðina virkað ágætlega sem myndhvörf fyrir helförina, kynþáttamisrétti í Bandaríkjunum, baráttu hinsegin fólks og sitt hvað fleira.

En ekkert af þessu á við um Regnhlífarakademíuna. Það er eins og handritshöfundarnir gleymi fljótlega uppruna barnanna sjö og gera lítið með hann. Það kemur til dæmis aldrei til tals hjá sjömenningunum að finna blóðforeldra sína, sem er dálítið galið, bæði miðað við hversu algengt það er hjá ættleiddum börnum að vilja leita upprunans, sem og vegna þessara sérstöku aðstæðna. Þá eru hin 36 börnin, sem sir Hargreaves tókst ekki að kaupa, að virðist gleymd og grafin alveg þangað til í annarri seríu, þegar eitt þeirra skýtur upp kollinum. Þótt vissulega sé ýjað að því að það gæti breyst í boðaðri þriðju seríu.

Samt sem áður er The Umbrella Academy ágætis sjónvarpsefni að mörgu leyti. Eftir 2-3 þætti er maður orðinn fastur og þarf að klára og serían vex, og önnur sería með öllu sínu tímaflakki er raunar mun betri en sú fyrsta.

Þættirnir eru stílíseraðir í drasl og maður fer að verða forvitnari um hvert persónurnar og plottið leiðir okkur, þótt allt sé þetta frekar sápukennt. En það er eiginlega ekki hægt að skrifa mikið lengra nema að kynna þessa sjö meðlimi akademíunnar.

Tvö systkynana eru langforvitnilegust – og sömuleiðis best leikin. Ellen Page leikur Vönju, sem er sögð sú eina sem skortir ofurkrafta – en við vitum strax að þau færu ekki að ráða stórleikkonu á borð við Ellen Page til að leika meðal-Jónu í ofurhetjuseríu.

Maður getur raunar ekki annað en hugsað með sér hvort Hollywood hafi vannýtt krafta Page eftir að hún kom svo eftirminnilega út úr skápnum, hver sem ástæðan er þá sýnir hún hér enn og aftur að hún er ein besta leikkona sinnar kynslóðar, þótt handritið hefði mátt skrifa aðeins meira sannfærandi skapsveiflur fyrir Vönju, hún er annað hvort blíður engill eða andsetinn, fátt þar á milli.

Þá er Number Five, nafnlausi drengurinn sem hverfur inn í framtíðina eftir heimsenda og þvælist þar um áratugum saman, þangað til hann kemst aftur til nútímans. Þar festist hann aftur í sínum tólf-þrettán ára barnslíkama. Þannig er hann elstur þeirra og yngstur í senn, á meðan hinir krakkarnir virðast vera um þrítugt þótt þau hagi sér flest eins og þau séu þrettán.

Að stoppa heimsendi eða að barma sér

Þetta er nefnilega öðru fremur fjölskyldudrama. Þau eru flest það dysfunctional að það er mesta furða að þau komi nokkru í verk. Það má eiginlega segja að flestar aðalpersónurnar, aðrar en Vanya og Five, eigi samræður á einhverjum tímapunkti sem eru sirka svona:

„Við þurfum að stoppa heimsendi.“

„Æ, ekki strax. Ég þarf fyrst að vera á bömmer fyrst í smá tíma af því pabbi var svo vondur við mig.“

Þannig er þetta kannski fyrst og fremst dæmisaga um vont uppeldi, þrátt fyrir góðar meiningar. Vissulega virkar fósturpabbinn aldrei sem mikil föðurmynd, uppeldið er úthugsað hjá honum, útreiknað á kaldrifjaðan hátt – en einmitt þess vegna kemur á óvart að menntamaður eins og hann hafi ekki kynnt sér aðeins nýjustu kenningar í sálfræði og uppeldisfræði. Svona til að koma í veg fyrir afskaplega fyrirsjáanlega mótþróastreituröskun krakkanna sem fylgir þeim langt fram á fullorðinsár.

Mannapinn Luther, dívan Allison og bardagahundurinn Diego eru öll mátulega grunn, en detta stöku sinnum í meiri dýpt, aftur á móti býr meira í fíklinum Klaus, sem sér hina dauðu. Hann verður alltof klisjukenndur fíkill, þrátt fyrir nokkrar ansi skemmtilegar sögufléttur í hans sögu. Vannýttastur allra er þó Ben, látni bróðirinn. Hann er hluti af sögunni af því Klaus sér hann og lengst af er hans hlutverk fyrst og fremst að dæsa út af heimskupörum Klaus, en hann reynist hins vegar fjandi áhugaverð persóna þá sjaldan hann fær að vera hann sjálfur.

Serían fer hins vegar ansi langt á ýmsum litríkum aukapersónum. Eitt af því sem er betra í fyrri seríunni er launmorðingjaparið á eftir systkynunum. Í seinni seríunni eru þau elt af tilfinnigalausum sænskum þríburum en parið í fyrri seríunni bíður okkur á endanum upp á forvitnilegasta plottið. Þau Cha-Cha og Hazel eru stór og þrekin bæði, sadísk á köflum, en þegar á líður verður Hazel ástfanginn af einmana miðaldra konu sem rekur kleinuhringjabúð og vill helst hætta og lifa venjulegu lífi með nýju ástinni. Það er einhver falleg melankólía í þessum anga sögunnar, Cha-Cha er líka orðin beggja blands og þarna verður til miklu forvitnilegra drama en meðal systkynanna sjö.

Bæði þau og Svíarnir – og raunar Five líka um tíma – vinna fyrir dularfulla leyniþjónustu sem sér um að halda skikki á tímalínunni, og drepa þá sem annars myndu raska tímans þunga niði. Það er lengstum óljóst hver raunveruleg markmið þessarar stofnunnar eru, hvort þau séu göfug eða vafasöm, þótt hitt virki mun líklegra eftir því sem á líður.

Sú stofnun er raunar eins og kafkaísk en um leið karnívalísk martröð og væri um margt forvitnilegri fókus en systkynin sjö. En þegar tímaflakkið leiðir þau aftur til sjöunda áratugarins í seríu tvö þá birtast okkur nokkrar ansi forvitnilegar aukapersónur sem bjarga miklu. Allison verður önnur og betri manneskja eftir að hún giftist Raymond Chestnut, lykilmanni í mannréttindabaráttu blökkumanna, Vanja á í ástarsambandi við gifta sveitakonu og Diego kynnist hinni óútreiknanlegu en stórkostlegu Lilu á geðveikrahæli (sem er vissulega skemmtileg vísun í 12 Monkeys, einmitt á slíkum stöðum myndu sjálfsagt flestir tímaferðalangar enda ef þeir hafa hátt um tímaflakk sitt).

Með öllu flakkinu eru þau vafalítið búin að búa til ansi margar tímalínur. Það eitt getur skýrt þá staðreynd að í hinum meinta nútíma eru engir farsímar og fólk þarf að komast í bókasafnstölvuna fyrir einföldustu rannsóknarvinnu. Samt geta menn eytt mörgum árum á tunglinu og það er fátt í tækninni sem kemur á neinn hátt í staðinn, það er ekki beint eins og það sé neitt pælt í hvernig þessi heimur hafi þróast öðruvísi en okkar. Þetta virðist einfaldlega ákvörðun sem snýst um stílbrögð, menn langaði bara svona mikið að skjóta dramatíska senu í símaklefa.

Eins er ekkert um uppruna þeirra, hvorki raunverulega foreldra né Sovétið sem Vanya kemur frá – við vitum ekki einu sinni hvaðan hin koma (þótt vissulega megi geta sér til um ýmislegt út frá nöfnum og útliti).

Öfugsnúin niðurstaðan er því sú að þetta eru vissulega þrælskemmtilegir þættir, töff um margt, leikurinn er oft góður og leikgleði í bæði plottinu og tímaflakkinu – og frábærir karakterar inn á milli. En þættirnir virka samt bara á einu plani, sem er mikil synd af því það eru endalaus dauðafæri til að koma fyrir meiri dýpt og forvitnilegri spurningum, ef þáttastjórnendur hefðu bara minnsta áhuga á slíku, á einhverju öðru en töffheitum og ávanabindandi plotti.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson