Landkynning er útjaskað orð en stundum eru orðin “góð landkynning” ekki alveg merkingarlaus. Hér er stutt dæmi úr grein sem ég skrifaði fyrir löngu: “Vehbi Aliu heitir leigubílstjórinn sem keyrir mig til Mitrovica. Þýskan hans er miklu betri en mín og þegar ég gef upp þjóðerni mitt er hann fljótur að lýsa yfir hrifningu sinni á Björk og stuðningi hennar við sjálfstæði Kosovo, en á tónleikum í Japan tileinkaði hún Kosovum lagið „Declare Independence“, en þeir höfðu einmitt nýlega farið að ráðum hennar.” (sjá hér)

Og sænska söngkonan (og Bjarkar-aðdáandinn) Loreen fór einnig að ráðum Bjarkar. Hún var nógu hugrökk til að vinna þá keppni sem skipti máli. Það hefði verið frábært ef sigurvegararnir hefðu verið fleiri en það verður altént gaman fyrir sænska ferðalanga að taka leigubíl í Bakú næstu árin.