NasyrningurÍ uppfærslu Stúdentaleikhússins á Nashyrningunum er aðalpersónan hvött til þess að taka sig á, hætta að drekka svona mikið og byrja að auðga andann, til dæmis með því að fara og sjá  nýjasta leikrit Stúdentaleikhússins. Leikritið er eftir Eugéne Ionesco og er kallað Leikrit í yfirgefinni plastverksmiðju, ef ég man rétt. Sem er alls óvíst. En ég lék altént í þessu leikriti fyrir rúmum níu árum síðan.

Þetta var um miðjan júnímánuð árið 2003, Matrix tvö og Terminator þrjú voru í bíó og fólk bloggaði eins og það væri enginn Facebook til. Ég hafði klárað BA gráðu veturinn áður sem virkaði eins og kryptonít gagnvart vinnuveitendum þannig að þegar ég fór í atvinnuviðtal í Borgarplasti þá drakk ég versta kaffi í heimi í kurteisisskyni og sagði umhugsanarlaust já við vinnunni, labbaði svo út og fattaði allt í einu hvað launaupphæðin sem hann hafði nefnt var hlægileg.

En aðalhlutverkin í þessu leikriti reyndust vel mönnuð. Ísafjarðarjaxlinn Valur, pólski rólyndistöffarinn Mirek, TsjokkóLettinn Stanislav, pakistanski matreiðslumeistarinn Pervez, ónefndur kínverji, miðaldra Þjóðverji og síflakkandi Tékki. Ég man þó ekki nema stöku senur:

* Mirek spurði mig fyrsta daginn hvað ég væri að gera hérna fyrst ég væri búinn með háskólapróf (og líklega var innifalið í orðunum Íslendingur með háskólapróf, það voru þarna útlendingar sem virtust ágætlega menntaðir). Ætli bókmenntafræðingar fái eitthvað almennilegt að gera í Póllandi?

* Pervez söng til skiptis „Open Your Heart“ og „Farinn“ eina vikuna, á milli þess sem hann heimtaði að fá að elda fyrir mig á Shalimar. Svo er hann farinn að hafa sívaxandi áhyggjur af kvenmannsleysinu hjá mér. Ekki nóg með að ég hafi verið ógiftur í gær heldur var ég ennþá ógiftur í dag! Í dag sem var fyrir níu árum, hann yrði eyðilagður ef hann fréttir að níu árum síðar sé ég enn ógiftur.

* Kínverjinn að reyna að hjálpa mér að finna ch’i – ið mitt svo ég geti barið hringlaga plastdúnkinn jafn fast og hann á skilið.

* Hálfsextugur Þjóðverjinn að stökkva upp og niður tveggja metra há plaströr og bræða þau sundur og saman.

* En mest man ég samt eftir eftir brennheitum forgarði helvítis þar sem enginn entist lengur en kortér í einu. Þar var plastið brætt og við opnuðum og lokuðum alls kyns öryggislokum og börðum svo plöstin úr mótunum.

Og þessi forgarður helvítis er orðinn leikhús núna. Held ég, eða kannski er leikhúsið þar sem ég lærði að finna ch’i-ið. Þar er núna Norðurpóll og á Norðurpólnum er franskur smábær þar sem allir eru að breytast í nashyrninga, eins og gengur. Þetta leikrit er um ansi margt, en meðal annars er það um vinnu. Vandamál aðalpersónunnar, í augum samborgaranna, virðist fyrst og fremst vera það að henni finnst ekki gaman í vinnunni, og er meira að segja opinská með það. Vinnan frelsar hana ekki, heldur deyfir. Á móti eru aðrar persónur sem vilja helst vinna á sunnudögum, þykir þriggja vikna sumarfrí feikinóg og svo er yfirmaðurinn, sem krefst þess að starfsmenn hætti að tala um nashyrninga um leið og klukkan slær níu – því þá sé kominn tími á að vinna. Þetta er um vinnudýrið í manninum sem traðkar yfir mennskuna, en líka, með staðsetningunni, um hvernig gamalt plast getur öðlast sál í nýrri sköpun. Gamla plastverksmiðjan á Gróttu er búinn að finna chi’i-ið sitt.