Mútta Courage og börnin verður frumsýnd í Þjóðleikhúsinu í vikunni og leikstjórinn Una Þorleifsdóttir er smyglari vikunnar. Hún útskrifaðist sem leikstjóri frá Royal Holloway, University of London árið 2004 en hafði áður stundað nám í leikhúsfræðum og list við Goldsmiths College.

Una hefur leikstýrt fjölda verka undanfarin misseri, þar á meðal Ást og upplýsingar, Atómstöðin-endurlit, Óvinur fólksins, Tímaþjófurinn, Gott fólk, ≈ [um það bil], Konan við 1000° og Harmsaga í Þjóðleikhúsinu og Prinsessuleikarnir, Síðustu dagar Sæunnar, Þétting hryggðar og Dúkkuheimilið, 2. hluti í Borgarleikhúsinu, sem og Zaraza og ≈ [PRAWIE RÓWNO] í Kielcach í Póllandi.

Þá hefur hún starfað lengi við sviðslistadeild LHÍ og segir kennsluna halda henni á tánum. Hér ræðir hún við smyglið um sýninguna, krókódílagötuna sem breytti lífi hennar og ýmislegt fleira.

Hvenær kynntistu þessu verki fyrst?

Ég kynntist því fyrst þegar ég var í námi í London.

Sástu Steinunni Ólínu strax fyrir þér sem Múttu Courage?

Já – ég gerði það.

Nú skrifaði Brecht verkið í skugga stríðs og það var flutt í stríðinu miðju – á leikritið kannski óþægilega vel við aftur núna?

Verkið er ádeila á stríð og veltir upp spurningum um hver það er sem græðir á stríðsrekstri, Brecht setur verið í sögulegt samhengi, en það er rétt hjá þér að það á óþægilega vel við í dag.

Það er strax komin heil plata á streymisveitur með nýrri tónlist úr verkinu. Hvernig kom það til?

Valgeir Sigurðsson og Helgi Hrafn Jónsson sömdu geggjaða nýja tónlist fyrir uppfærsluna. Það lá því beint við að þeir myndu gefa hana út.

Hver leikstýrir ævisögunni og hver leikur aðalhlutverkið?

Hún verður aldrei gefin út.

Eftirminnilegasta upplifun á sviði – já, eða úti í sal?

Þær eru margar – flestar frá því þegar ég uppgötvaði sviðlistirnar upp á nýtt þegar ég bjó í London. Sú sýning sem ýtti mér þessa leið var eflaust sýning Complicité, The Street of Crocodiles, á Listahátíð í Borgarleikhúsinu nítíu og eitthvað.

Berthold Brecht er einn af fáum listamönnum sem hefur orðið að lýsingarorði. En ertu með góða skilgreiningu á hvað er brechtískt?

Þegar hið hversdagslega er gert framandi.

Þú ert lærð í Bretlandi og Frakklandi – hvernig er að bera saman leikhússenurnar þar og svo heima á Íslandi?

Þær eru jafn líkar og þær eru ólíkar. Eflaust má greina einhver ákveðin trend og aðferðir sem ráðandi eru í hverju landi á hverjum tíma, en það er breytilegt og trend og aðferðir ferðast í tíma og rúmi. 

Og því tengt; fallegasta og/eða áhugaverðasta leikhúsið sem þú hefur komið í?

Leikhúsið í Taormina á Sikiley.

Nú hefurðu verið að kenna töluvert ásamt því að leikstýra, hvernig fer það saman?

Það fer mjög vel saman. Það að kenna heldur manni á tánum.

Þú ert ráðin Þjóðleikhússtjóri með rífleg fjárráð – hvernig yrði fyrsta leikárið?

Hmm… já stórt er spurt. Ég myndi ráða til mín gott fólk og saman myndum við gera eitthvað spennandi, ögrandi og forvitnilegt.

(Spurning frá síðasta smyglara, Sverri Norland): Hvað gerirðu á hverjum degi fyrir annað fólk?

Brosi.

Hver er eftirminnilegasta utanlandsferðin?

Ferð með fjölskyldunni til St. Vincent.

Hvaða listaverki myndirðu vilja smygla inná öll heimili?

Virðulegu forsetar eftir Jóhann Jóhannsson.

Hver var fyrsta leiksýningin sem

a) þú sást?

Það man ég ekki – eflaust eitthvað barnaleikrit.

b) kveikti neistann?

The Street of Crocodiles.

c) þú tókst sjálf þátt í?

Líklega einhver sýning á leiklistarnámskeiði fyrir börn í Hlaðvarpanum eða Kramhúsinu.

Er einhver útlensk bók sem þú hefur lesið sem virkilega þarf að þýða yfir á íslensku?

Bara fleiri barnabækur.

Forvitnilegasta ljóðskáld 21 aldarinnar?

Einhver unglingur sem er enn að skrifa fyrir skúffuna. 

Hvaða kennari hafði áhrif?

Harpa Arnardóttir.

Þú ert ráðinn dagskrárstjóri hjá kvikmyndahúsi í eina viku (með ótakmörkuð fjárráð) – hvað yrði á boðstólnum?

Kvikmyndir framtíðarinnar.

Hvar er draumurinn?

Í núinu.

Hverju hefurðu mestar áhyggjur af?

Ástandi heimsins.

Ljósmyndari tekur portrett-mynd af þér – hvað væri hinn fullkomni bakgrunnur?

Mosi.

Merkilegasti óuppgötvaði listamaðurinn?

Allt unga fólkið sem ögrar venjum og vill breyta heiminum. 

Hvort finnst þér þægilegri tilhugsun um að lífið sé tilviljanakennt eða að lífið sé fyrirfram ákveðið?

Einhverskonar sambland af báðu – skipulagt kæruleysi.

Hvað gerðirðu við peninginn sem frúin í Hamborg gaf þér?

Upplifði eitthvað með börnunum mínum.

Nærðu að lifa af listinni – og ef svo er, hvernig?

Með hagsýni, hæfilegu kæruleysi og algerum skorti á því að langa til að eiga peninga.

Hvað gerirðu þegar þú vilt kúpla þig algjörlega út úr leikhúsinu?

Fer á fjöll.

Hvaða plötu á lesandi að setja á fóninn á meðan hann les þetta?

Tónlistina úr Múttu Courage eftir Valgeir og Helga.

Síðasta sjónvarpsþáttasería sem þú horfðir á í einni lotu?

Ég er mjög léleg í að klára seríur.

Hvað er draumaverkefnið?

Næsta verkefni.

Uppáhaldsorðið þitt?

Orð sem hljóma eins og það sem þau þýða (onomatopoeia).

Hvernig finnst þér best að hlusta á tónlist?

Þegar ég er að elda, þegar ég labba eða bara þegar ég ligg í sófanum eða dansa í stofunni.

Er eitthvað sem þú vilt spyrja næsta smyglara?

Hvert stefnum við?

Hver er lykillinn?

Forvitni og varnarleysi.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Hér er svo póstlisti svo þú fáir næstu smygl beint í pósthólfið.

Mynd af hinu forna leikhúsi í Taormina: By CHMunro – Own work, CC BY-SA 4.0, https://commons.wikimedia.org/w/index.php?curid=60476084