SkáldiðÁÞrömÞað er ágústkvöld, við erum stödd í Þurrkverinu á Suðureyri og það er grafarþögn. Á sviðinu situr ungur maður, klæddur snyrtilegum en fátæklegum fötum, og á jörðinni eru óteljandi notaðir blýantar. Síðan hefst sýningin og við ferðumst með löngu dauðu skáldi aftur um heila öld. Í lokin bankar svo Mugison uppá með lag úr nútíðinni og svo fellur tár. Eitt stakt tár.

Það féll ekki tár síðast, þetta er önnur sýningin sama kvöld og ég sá þær báðar út af því ég missti af blábyrjuninni fyrst og festist svo einfaldlega aftur yfir mergjaðri sögu Magnúsar Hj. Magnússonar, Skáldsins á Þröm, sem Ársæll Níelsson leiðir okkur inní af sjaldgæfri næmni. Verkið verður sýnt á Norðurpólnum á Seltjarnarnesi næstu vikurnar, fyrst nú sunnudaginn 7. október. En þetta var tólfta sýningin fyrir vestan – og fyrsta tárið.

„Mér var ekki tamt að tárast. En fljótlega eftir að ég ákvað að verða leikari hugsaði ég: þetta er eitthvað sem ég þarf að læra. Ég lék í Djöflaeyjunni í menntaskóla og þá tókst þetta ekki, en með æfingu tekst þetta. Á einum stað í verkinu fer ég að gráta þegar það er mikill texti, mikið drama og þungi og sorg, það tókst mjög snemma í æfingaferlinu,“ segir Ársæll mér þegar ég hitti hann tveimur dögum fyrir Norðurpóls-frumsýningu.

„En það var ekki fyrr en á tólftu sýningu sem mér tókst að fella tár upp úr þurru í lokin. Náði að klófesta einhverja tilfinningu sem ég get gripið til þegar með þarf. Maður þarf að finna tilfinninguna og læsa hana einhvers staðar neðst í skjalaskáp hugans. Svo sækir maður hana bara þegar þarf, annars gæti maður verið grenjandi allan daginn. Ég tengi þetta við ákveðinn hluta lokalagins. Þar er kominn tónn sem framkallar tár.“

Ljósvíkingur Mugisons og Kiljans

Umrætt lokalag er Ljósvíkingur Mugisons. En Ljósvíkingurinn hans Halldórs Kiljans er einmitt nátengdur verkinu. Sjálfum kom mér á óvart að heyra yrðingu á borð við „Kraftbirtingahljómur guðdómsins,“ enda hafði ég ómeðvitað eignað þau orð Laxness mörgum áratugum síðar – en það eru ansi mörg orð Nóbelsskáldsins úr Heimsljósi sem eiga uppruna sinn í þessum 4000 dagbókarsíðum sem Magnús lét eftir sig og þetta leikrit er unnið upp úr.

„Ég hef ekki lesið Heimsljós, ég á hana en ákvað að klára hana ekki fyrr en ég er hættur með þetta verk. Þegar ég veit að ég búinn með lokasýningu á þessu verki tek ég Heimsljós upp aftur og les hana, ekki fyrr. Ég sá hins vegar uppfærslu Þjóðleikhússins síðasta vetur og hef lesið fræðigreinar og bókina Kraftbirtingahljómur Guðdómsins [sem Sigurður Gylfi Magnússon tók saman]. Það eru heilu málsgreinarnar sem birtast í Heimsljósi nánast óbreyttar, búið að laga setningafræðina lítillega en ekki mikið meira. Ég myndi halda að Ólafur Kárason sé svona 60 % byggður á Magnúsi. Lífshlaupið og skrifin öll, það er allt Magnús. Og þegar ég fór á verkið í Þjóðleikhúsinu fannst mér ég bara vera að lesa fyrstu kaflana í dagbókum Magnúsar.“

Textinn er allur fenginn úr dagbókum Magnúsar sjálfs og það er ljóst að þessi fátæki vestfirðingur hefur verið magnað skáld. En lífsbaráttan var stanslaust strögl, í verkinu heyrum við af margra daga göngum á milli bæja í aftakaveðrum og fátækt sem er handan skilnings flestra velmegandi nútíma Íslendinga. „Þetta opnar augu manns fyrir hvað við höfum það ótrúlega gott í dag. Það var hérna hrun og allir tala um hvað þeir hafi það skítt en svo les maður sögu manns sem var sveitaómagi fyrir hundrað árum síðan. Þetta er bara ótrúlegt að sjá hvað fólk hafði það hrikalega skítt, ótrúlegt að nokkur maður skyldi hafa búið hérna. Bæði er erfitt að setja sig inní þetta og svo er erfitt að samsama sig með  því og reyna að túlka það. Og það voru nokkur tímabil í æfingaferlinu sem ég held það hafi ekki verið verandi nálægt mér, ég átti svo hrikalega bágt sjálfur. Ég var með allar heimsins byrðar á herðunum og það mátti varla yrða á mig heima fyrir. Þá var ég farinn að öskra og reyta skegg.“

Sitthvað segir af samskiptum Magnúsar við konur, en eitt er sýnu erfiðast að melta fyrir áhorfandann. Meint samræði hans við 14 ára stúlku sem hann var síðar dæmdur fyrir. „Við lögðum upp með það að gefa áhorfendunum færi á að dæma sjálfir hvort þeir tryðu þessu upp á hann eða ekki. Hann talar mjög opinskátt um þetta í dagbókunum. Hann vil meina að þetta hafi ekki verið jafn slæmt og dómurinn kveður á um. Ég hef í sjálfu sér enga ástæðu til að rengja það. Í dagbókunum talar hann svo opinskátt um þetta og svo margt annað. Talar alveg óhikað um sína galla, segir frá því þegar hann misstígur sig og tekur feilspor og sængar hjá fullorðnum konum. Fjórtán ára stúlka á þessum tíma var í raun ekki barn í augum samfélagsins. Þannig að ég get ekki ímyndað mér að hann hafi þurft að fegra þetta neitt í dagbókunum. En hann er í raun bara þriðja flokks samfélgsþegn, en lætur þó ekki valta yfir sig og stóð stundum upp í hárinu á yfirvaldinu. Þar af leiðandi átti hann óvildarmenn í samfélaginu, ég held það hafi spilað dálítið inní.“

Hótelstjórinn leikandi

Þegar ég sá verkið fyrst á einleikjáhátíðinni Act Alone reiknaði ég satt best að segja ekki með öðru en að Ársæll væri, eins og svo margir aðrir gestir, starfandi leikari að sunnan. En þegar ég sest við hótelbarinn stuttu eftir sýningu er hótelstjórinn mættur að færa mér bjór – og hótelstjórinn er enginn annar en Ársæll sjálfur.

„Ég er búinn að vera með annan fótinn hérna í tíu ár. Við flökkum á milli Ísafjarðar og Suðureyrar. Svo fór ég erlendis en kom aftur vorið 2010.“ Og það var þá sem hann heyrði fyrst um Skáldið á Þröm. „Guðfaðir minn, Steindór Andersen rímnamaður, benti mér á þetta skömmu eftir að ég flutti á Suðureyri.“ En er ekkert erfitt að starfa sem leikari í jafnlitlu samfélagi?

„Ég er búinn að fá mun fleiri verkefni en margir sem útskrifuðust á sama tíma og ég – og búa í borginni. Þegar ég kem heim hefur Elfar Logi samband við mig og býður mér samstarf með Kómedíuleikhúsinu. Ég flýtti flutningum út af því mér bauðst hlutverk í sjónvarpsmyndinni Vaxandi tungl. Þannig að um leið og ég kem heim er ég strax kominn með tvö verkefni. Námið úti var ekki nógu langt til að vera viðurkennt af FÍL [Félag Íslenskra leikara] þannig að ég þurfti að ég þurfti að ná mér í ákveðið mikla starfsreynslu til að vera metinn inn í félagið. Ég setti mér það markmið að ná því á tveimur árum en ég náði því á einu ári.“

Ársæll lærði í The Commedia School í Kaupmannahöfn og taldi möguleikana betri fyrir vestan við heimkomu. „Margir tala um að það sé erfitt að fóta sig þegar maður kemur heim eftir nám erlendis. Krakkarnir sem eru að læra hérna heima eru náttúrulega búnir að vera í 3 eða 4 ára áheyrnarprufum, í sjálfu sér … þau eru búin að vera að fá góða kynningu. Á meðan veit enginn hver maður er þegar maður kemur að utan, það á að minnsta kosti við um flesta og þar á meðal mig. Þannig að ég ákvað að frekar en að týnast strax í fjöldanum fyrir sunnan gæti ég bæði náð í meiri reynslu fyrir vestan og vakið meiri eftirtekt. Og ég sé ekki eftir því. Á þessu ári hef ég verið að fá eitt og eitt verkefni fyrir utan Kómedíuleikhúsið, auglýsingar og aukahlutverk í sjónvarpsþáttum. Og uppfærslur Kómedíuleikhússins miðast að því að vera farandverk. Þannig að þetta er fjórða leikverkið sem ég kem með til Reykjavíkur. En það er einfalt og þægilegt að vinna allt fyrir vestan. Við getum verið þar í algjörum friði og gert það sem okkur dettur í hug. Þegar við erum komin með fullmótað verk getum við komið suður og sýnt afraksturinn.“

En hvernig gengur að samræma leiklistarferilinn og hótelbransann? „Ég held að leikarastarfið þurfi ekkert að líða fyrir að ég sé hótelstjóri. Ég held að hótelstjórastarfið líði frekar fyrir það að ég sé leikari. En það er lítið að gera þarna á veturna á meðan mesta álagið er í leiklistinni, og svo öfugt, leiklistin liggur í dvala á sumrin á meðan mest er að gera á hótelinu. Reyndar þá breyttist það aðeins núna, fyrsta árið var voru engir árekstrar, en núna í sumar var ég fjarverandi í þónokkra daga því ég var að skreppa suður í kvikmyndatökur. En yfirmaður minn er mjög skilningsríkur og vissi það að leiklistin hefði forgang. Hann er mjög sveigjanlegur, svo lengi sem ég skila mínu þá má ég gera það á eigin forsendum.“

En hugurinn leitar þó suður. „Draumur sérhvers leikara er að geta verið í fullri vinnu sem leikari og lifað mannsæmandi lífi á því. Og ég er að undirbúa flutning. Mér finnst ég vera að nálgast það sem ég lagði upp með með dvöl minni fyrir vestan, að koma fætinum aðeins inn fyrir dyrastafinn. Ég er búinn að skapa mér einhvers konar nafn – þótt maður sé ekki frægur er maður kominn með ný tengsl og sambönd og fólk í bransanum veit af manni. Þannig að ég held maður þurfi fljótlega að koma suður og henda sér í hringiðuna. Því ég finn það að fjarlægðin frá markaðnum er farin að vera heftandi. Ég hef verið að fá símtöl um hluti eins og hvort ég geti ekki brunað suður eftir klukkutíma. Og ferðakostnaður hækkar kostnaðinn við að ráða mig, þetta er allt farið að fæla frá. Ef ég ætla að gera þetta af alvöru þarf ég að koma suður fljótlega. Þannig að einhvern tímann á næstu tólf mánuðum þarf ég að yfirgefa öryggið á Suðureyri og koma hingað í harkið.“

Texti: Ásgeir H Ingólfsson

Birtist upphaflega á Smugunni í október 2012.