Muniði eftir því þegar stjórnarsáttmálin var undirritaður í Héraðsskólanum á Laugarvatni síðasta vor? Ég mætti, aðallega til að sníkja snittur (brauðmolakenningin í praxís sko) og kasta kveðju á gamla kollega úr fjölmiðlastétt. En jafn almennt orðaður og sáttmálinn var þá svegldist mér aðeins á þegar ég las þessa klausu: „Íslensk þjóðmenning verður í hávegum höfð, að henni hlúð og hún efld.“

Ástæðan var sú að í einmitt þessum orðum kjarnaðist fullkominn misskilningur ríkisstjórnarinnar á menningu. Viðskeytið „þjóð-„ hefði verið algjör óþarfi ef verðandi stjórnarherrum væri í alvörunni annt um íslenska menningu – en nei, þeir eru með þessum orðum að kalla eftir innilokaðri menningu, menningu sem fær ekki andrými, menningu sem hefur mjög skýr skilaboð: að kynna og mæra þjóð. Sjálfsupphafning á kostnað hinna. Þetta er varnarstaða eyríkis gagnvart umheiminum, gagnvart meintri úrkynjun vondu útlendingana.

Nú er hægt að finna margt gott í íslenskri menningu og margir prýðilegir nútímalistamenn sækja sér fyrst og fremst áhrifavalda í íslenskan menningararf. Það er ekkert að því, rétt eins og það er ekkert að því að Hjálmar sæki í reggíhefð Jamaíka, Dagur Kári sé undir áhrifum frá frönsku nýbylgjunni og Sjón sé gamall súrealisti. Alvöru listamenn sækja sér einfaldlega næringu í þá list sem þeim finnst bragðgóð eða nærandi, hvaðan sem hún kemur.

En Framsóknarmenn eru víða. Til dæmis í Bandaríkjunum. Bandaríkjamaður nokkur skrifar um þessar mundir dóma um Iceland Airwaves og þeir tveir sem ég hef lesið til þessa eru ágætlega súmmeraðir upp í þessari klausu:

„It’s only my second day at Airwaves and already I have some solid advice. Icelanders: do not attempt to replicate the music of the African diaspora, especially reggae and hip-hop. You will fail. Miserably and laughably. Be yourselves. That is the way to make the best music.“

Manni finnst nærri því eins og Sigmundur Davíð og Bubbi Morthens tali þarna í gegnum Michael Azzerad. Ekki gera neitt útlenskt, yrkiði helst bara rímur og spiliði músík á sauðskinsskóm. Ég veit ekki hvort Azzerad gerir sér grein fyrir því en tónlist veraldarinnar væri fyrir löngu orðin óbærilega leiðinleg ef allir færu að þessum ráðum hans, endalaust rímix af þjóðlegum stefum og allur frumleiki löngu dauður. Ég er að vísu alveg sammála honum að listamönnum farnast oftast best með því að vera þeir sjálfir – en sjálfið er ekki þjóðerni – sjálfið getur verið gegnsósa af tónlist og menningu annars staðar frá, sjálfið getur jafnvel verið komið með ógeð af þjóðmenningunni og vill bara skapa eitthvað allt annað. Það eru ótal tónlistarmenn hvaðanæva að úr heiminum sem eru miklu betur versaðir í amerískri list en meðal-Bandaríkjamaður – og sumir þeirra eru fullfærir um að skapa sambærilega list og stundum betri. Enda er Bandarísk menning ung – og einn helsti styrkur hennar er einmitt að þetta er innflytjendaþjóð sem hefur verið dugleg að flytja inn áhrif héðan og þaðan úr heiminum.

Það alvarlegasta er samt hvað svona kreddur geta verið mikið eitur fyrir menningarlíf smáþjóðar eins og Íslendinga. Þetta litar alla menningarumfjöllun og íslenskt styrkjakerfi – bæði í fræðum og listum – er alltof gjarnt á að hygla þjóðlegum verkefnum umfram óþjóðleg. Það getur auðveldlega orðið til þess að loftið verður ansi þungt, enda er meirihluti listar heimsins ekki á dagskrá – við þurfum alltaf að finna þjóðlega vinkilinn.

Ég veit svosem ekki hvert Azzerad fer næst. Kannski til Japan að banna þeim að teikna myndasögur eða til Hollywood að segja þeim að hætta að púkka upp á þessa frönsku dellu Lumiere-bræðranna. En þið megið kannski skila því til hans að það fer Ameríkönum ekkert sérlega vel að vera svona miklir Framsóknarmenn – ekkert frekar en Íslendingum.

Ásgeir H Ingólfsson