Paparazzi

„Nokkrar ástæður þess að Ísland er best í heimi“

„Ótamið, fjarlægt og svalt Ísland“

Þetta eru ekki tilvitnanir upp úr  gamansamri Thule-auglýsingu heldur eru þetta tvær fyrirsagnir sem rötuðu á forsíður íslenskra vefmiðla þegar ég gerði stikkprufu í gær. Ég hefði örugglega fundið annað álíka flesta daga ársins undanfarin fimm ár eða svo, ef marka má fréttaflutning þá eru útlendingar einfaldlega sjúkir í Ísland.

En hvað breyttist? Þetta er í meginatriðum sama náttúra (fyrir utan það sem er búið að virkja auðvitað) og fyrir hrun, sama borgin, sömu kaupstaðirnir, sömu smáþorpin og sama sveitin og fyrir hrun. Sannarlega má finna stöku jákvæðar breytingar sem gætu útskýrt eitthvað af þessu lofi – en það sem breyttist fyrst og fremst var markaðssetningin. Inspired by Iceland varð að Íslansdsstofu og sú stofa gefur út ársskýrslur þar sem stendur meðal annars:

“Á árinu bauð Íslandsstofa fulltrúum um 100 fjölmiðla til landsins í skipulagðar fjölmiðlaferðir. Þar að auki aðstoðaði Íslandsstofa um 800 blaðamenn við að skipuleggja Íslandsferðir sínar, auk þess sem unnið var með kynningarmiðstöðvum listgreina og hátíðastjórnendum að slíkum ferðum.”

Þetta eru tölur fyrir árið 2013, umfjöllunin hefur síst minnkað síðan. Látum ferðamannaiðnaðinn sem bisness liggja á milli hluta – það er efni í aðra grein sem aðrir eru færari um að skrifa.

En það sem er sláandi er þetta: á sama tíma og ríkisstjórnin, eigendur og alls kyns kauphéðnar þrengja að bæði ríkisreknum og einkareknum íslenskum fjölmiðlum sem aldrei fyrr þá erum við með heila stofnun sem bíður hundrað erlendum blaðamönnum hingað ár hvert.

Mér er nefnlega stórlega til efs að þeir íslensku blaðamenn sem fara erlendis nái hundraðinu á ári – sú tala er líklegast miklu lægri, hvað þá að þeir séu níuhundruð – ef við tökum þá með sem var ekki boðið en voru bara aðstoðaðir. Sjálfur hef ég sinnt blaðamennsku að utan fimm sinnum – fjórum sinnum farið á kvikmyndahátíðir og einu sinni skrifað ítarlega grein um þá nýsjálftætt Kosovo og aðra grein um Bosníu eftirstríðsáranna. En mér var aldrei formlega boðið – ég greiddi iðullega allan ferða- og gistikostnað úr eigin vasa að einni frírri hótelgistingu undanskilinni. Slíkt er raunveruleiki ófárra íslenskra blaðamanna – og ekki bara okkar lausamannana. Ef peningurinn væri einfaldlega ekki til staðar til að kosta slíkar ferðir væri kannski ekki ástæða til að kvarta – en sá peningur er greinilega til.

Það er illa farið fyrir þjóð sem æpir í sífellu: „sjáðu mig, sjáðu mig“ en gerir sér aldrei far um að fara út að sjá aðra. Þjóð sem er líklegri til þess að sýna sjónvarpsþætti sem útlendingar gera um meinta álfa á Íslandi en að gera sjónvarpsþætti sjálf um önnur lönd. Það er öfugsnúin fjölmiðlastefna að borga undir aðra til að fjalla um okkur og ljósrita það svo í lauslegri þýðingu til birtinga á innlendum fréttasíðum – frekar en að hafa öfluga sjóði til þess að senda okkar eigin fólk út í heim til þess að efla raunveruleg tengsl Íslands við umheiminn, ekki falstengsl byggð á skjalli.

Við virðumst nefnilega föst í innihaldslausu skjallbandalagi við útlönd. Við bíðum spennt eftir næsta hrósi og hengjum það upp á Facebook-veggi fjölmiðlanna um leið. Við erum þjóðin sem var hætt að taka aðrar ljósmyndir en selfies löngu áður en það komst í tísku – okkar myndir eru þó meta-selfie, sjálfsmyndir af sjálfsmyndum annarra af okkur sjálfum.

Þessi þróun hefur staðið frá hruni og í þessu sambandi má líka nefna hvernig fjölmiðlafulltrúum hefur fjölgað mun hraðar en eiginlegum fjölmiðlamönnum, meðal annars fyrir tilstilli sjálfrar ríkisstjórnarinnar sem vill miklu frekar borga fólki fyrir að stjórna umfjöllun um sig en að tryggja fjölmiðlum fjármagn og aðstöðu til þess að borga blaðamönnum laun.

Að lokum: eins og titillinn gefur til kynna er þetta framhaldsgrein. Fyrir hálfu fimmta ári var 23 erlendum blaðamönnum boðið hingað til þess að fjalla um íslenska tónlistarmenn. Það sem ég skrifaði um það er horfið af internetinu, en í ljósi þess að þessum boðsferðum erlendra fjölmiðlamanna fer síst fækkandi þá er sannarlega ástæða til þess að birta aftur upphaflegu greinina:

Inspired by erlendir blaðamenn

Kvikmyndahátíðin í Cannes, tónlistarhátíðin á Hróarskeldu og tónlistarhátíðin í Glastonbury. Þessar hátíðir eiga það sameiginlegt að vera með þekktustu og virtustu listahátíðum heims – og þær eiga það líka sameiginlegt að þangað var enginn íslenskur blaðamaður sendur þetta árið, frekar en á flesta aðra helstu listviðburði erlendis undanfarin misseri. Rás 2 sýndi þó lit og var með útsendingu frá Hróarskeldu.

Við þekkjum öll ástæðurnar – fjársvelti inná íslenskum fjölmiðlum og færri og færri blaðamenn sem hafa burði til að fara svona ferðir á eigin vegum, þetta er bara eitt af mörgu sem við þurfum að sleppa í kreppunni, ekki satt? Vandamálið er að vísu djúptæðara, það var sjaldnast peningur – eða metnaður – fyrir svona ferðum í góðærinu. Það er lítil meðvitund um það hvernig vel lukkaðar og pródúktívar utanferðir íslenskra blaðamanna eru jafn nauðsynlegar íslenskum fjölmiðlum og þýðingar heimsbókmennta eru íslenskum bókmenntum, því annars blása fáir ferskir vindar um íslenska fjölmiðla eða íslenskar bókmenntir.

Sú lausn hefur verið nefnd að bjóða upp á ríkisstyrki, sjóði sem blaðamenn gætu sótt í fyrir metnaðarfyllri verkefni en ritstjórnir íslenskra miðla ráða við – en slíkur sjóður hefur ekki verið stofnaður ennþá. En þó virðist vera til fjárhagslegur grundvöllur fyrir slíkum sjóði, því nýlega voru 23 fjölmiðlamenn styrktir af ríkinu til þess að fara á tónleika til útlanda. Þessir 23 fréttamenn vinna flestir við virta og rótgróna fjölmiðla, jafnt dagblöð, tímarit og útvarpsstöðvar, og ég efa það ekki að um prýðisgóða fréttamenn sé að ræða.

En enginn þessara fréttamanna var íslenskur. Þeir komu frá erlendum miðlum á borð við Danmarks Radio, Politiken, Sunday Times, Dazed & Confused, NME og Die Welt og voru mættir til þess að hlýða á tónleika Hjaltalín og Sinfóníuhljómsveitarinnar (alls 14) og útgáfutónleika For a Minor Reflection (9 manns). Flestir komu fréttamennirnir frá stórum fjölmiðlum, fjölmiðlum sem ættu að hafa bolmagn til þess sjálfir að senda blaðamenn á stóra menningarviðburði á erlendri grund, ólíkt þeim íslensku.

Þetta framtak hefði kannski glatt mig ef ég héldi að þarna væri um nýfundna góðmennsku gagnvart útlendingum að ræða, en þvert á móti ber framtakið vitni um djúpstætt áhugaleysi á umheiminum. Áhuginn á umheiminum er enginn, nema þegar umheimurinn fjallar um okkur. Svo framarlega sem það er jákvætt, annars stingum við umsvifalaust hausnum í sandinn og tölum um öfund og vonda útlendinga sem níðast á lítilmagnanum.

Þetta hefur heldur ekkert með ást á tónlistarmönnum eða fréttamönnum að gera – þvert á móti kristallar þetta að listamenn hafa aðallega gildi svo framarlega sem þeir geta laðað hingað ferðamenn og fréttamenn hafa aðeins gildi ef hægt er að nota þá í þágu almannatengsla.

Leikritið nær svo súrrealískum hæðum þegar það birtast ítarlegar (en þó fullkomlega gagnrýnislausar) fréttir um það í íslenskum fjölmiðlum um hvernig erlendir blaðamenn eru ferjaðir um landið til þess að fjalla um íslenskar hljómsveitir. Og nú er ekki nóg með að ég þurfi að fylgjast með erlendum fjölmiðlum til þess að fá vitræna umfjöllun um erlenda menningu – ég þarf líka að fylgjast með þeim ef ég vil geta lesið eitthvað af viti um Hjaltalín og Sinfóníuhljómsveitina.

Seinni greinin birtist upphaflega á Kistunni þann 27. júlí 2010

Texti: Ásgeir H Ingólfsson