Rauður Walkman eins undirritaður átti í eldgamla daga.
Rauður Walkman eins undirritaður átti í eldgamla daga.

„Raf­tækj­aris­inn Sony hef­ur boðað end­ur­komu Walkm­an-spil­ar­ans og mun sá nýi kosta 1.100 doll­ara eða um 142 þúsund ís­lensk­ar krón­ur.“ – mbl.is

Ný útgáfa af Walkman. Hljómar spennandi. 142 þúsund kall, hljómar minna spennandi. En pælum aðeins í þessari græju og hvað hún kostar. Gefum okkur að hljómgæðin séu frábær og allmennt að hún virki mjög vel fyrir alls kyns tónlistarneyslu. Gefum okkur að hún endist í tvö ár. Þá er þetta bara 6000 kall á mánuði fyrir góða tónlistarupplifun, ódýrara en á suma tónleika. En pælum aðeins lengra. Þegar við erum búin að eyða 142 þúsund kalli er lítill peningur eftir til þess að eyða í tónlist. Efnisveiturnar sem skaffa megnið af tónlistinni eru vissulega margar að velta heilmiklum fjármunum – en oftast fer aðeins brot af þeim til tónlistarmannanna, stundum ekkert. Það var svosem oft ekkert mikið öðruvísi hjá plötufyrirtækjum fortíðarinnar. En þessi græja væri gagnslaus ef það væri ekki fyrir hugverk tónlistarmannana sem verða spilaðir á henni. Og kostnaður við hvert tæki er varla 142 þúsund, fæst af þessu er beinlínis ný tækni og þar að auki er þetta mjög líklega í massífri fjöldaframleiðslu á heimsvísu. Þessi verðlagning – og það að við sættum okkur svona oft við hana – er ástæðan fyrir því að Bill Gates og félagar eru multimilljónerar. En auður þeirra er byggður á annarra manna hugviti. Stundum okkar sjálfra í gegnum félagsmiðla, stundum listamanna eða blaðamanna í gegnum listaverk og fjölmiðla sem deilt er í tækjunum þeirra. Þeir eiga framleiðsutækin og við vinnum öll á akrinum við að búa til auðæfin sem þeir selja okkur svo til baka á morðfé. En þetta gengur ekki til lengdar – bæði er þetta ósanngjarnt og svo stendur þetta varla undir sér til lengdar, á einhverjum tímapunkti hættum við að geta búið til efni sem skiptir máli út af því það er svo dýrt að kaupa það til baka á lágum launum. Á einhverjum tímapunkti bugast allir.

En þessi peningur er til í kerfinu. Allir 142 þúsund kallarnir sem við erum að eyða í nýjar græjur. Ef okkur tækist aðeins að breyta kerfinu og gera það sanngjarnara, þannig að að minnsta kosti 2/3 hlutar milljónana sem eigendur efnisveitanna og tækjanna eru að græða til þeirra sem búa til efnið þá erum við skyndilega kominn með miklu heilbrigðara samfélag. Núna mun Walkman labba í burtu með alla peningana og við sitjum eftir með skuldirnar á bakinu, sem eru miklu þyngri en þessi litla græja. Rétt eins og rándýrir iPadar, fartölvur og snjallsímar hafa gert hingað til. Rétt eins og allir samskiptamiðlarnir sem verða ríkir á þeirri einföldu auðlind sem felst í því að fólk vill eiga samskipti og deila hlutum með hvort öðru.

Ásgeir H Ingólfsson

E.S.: Ég man ekkert hvað þessi rauði Walkman sem ég átti í æsku kostaði. En ég man samt vel að hann kostaði alveg örugglega ekki hálf mánaðarlaun, nema það hafi verið hálf mánaðarlaun tíu ára stráks – sem eru dálítið önnur hagfræði. Samt var hann miklu meiri tæknibylting þá en þessi Walkman núna – aldrei áður hafði maður beinlínis getað haft tónlistina í úlpuvasanum.