(drög að hátíðarræðu)
Ég lofa ykkur nútíma. Nútíma þar sem jöklarnir bráðna og tækifærin drjúpa af hverju strái. Hér verða meira að segja tré, ég lofa ykkur fleiri trjám – þið þurfið ekki lengur að fara til útlanda til að finna tré. Í útlöndum verða öll tréin löngu sokkin. En hér, á hálendinu, hér verða fagurgræn tré, græn eins og flokkurinn.
Ég lofa ykkur geislavirkum lóum, snjóbræðslukerfi á tuttugu prósent afslætti og grillveislum á kvöldin.
Tækifærin, þau eru í dag, ég lofaði ykkur þeim, tækifærin eru í nútímanum. Sumardagurinn fyrsti er dagurinn sem við hefjum byltinguna, byltingu tækifæranna. Byltinguna sem við græðum á. Grasið er byrjað að grænka, það er allt orðið grænt. Bráðum verður veröldin öll græn.
Bráðum verður veröldin á speed-dial – sumar-appið hjálpar þér til að finna sólina, hjálpar þér til að finna út úr því hvaða sumarkjóll heillar strákana, hvaða sólríku pikköpplínur virka á sætu stelpuna í sumarkjólnum – og ef það klikkar þá er alltaf einhver önnur sem gerir sama gagn.
Ég lofa ykkur hamingju. Ég lofa ykkur könnun frá fyrirtæki í útlöndum sem þið höfðuð aldrei heyrt um sem staðfesta þessa hamingju. Staðfestingin á því hvað við erum æðisleg kemur að utan – en allt annað sem að utan kemur er vont. Vondir ostar, vondir peningar, vondar moskur og sumarhitar sem drepa gamalt fólk.
Og ég lofa ykkur því að ég mun standa hér áfram að ári liðnu og flytja sömu ræðu. Ég veit samt að kannski get ég ekki staðið við það – kannski verð ég dauður, kannski verðið þið búin að fá nóg af mér. En þetta verður samt alveg örugglega sama ræðan.
Ásgeir H Ingólfsson