hvíslið nafninu
merkið landakortið
endurnýjið vegabréfið
glösin brotna á gólfinu
mér svelgist á hamborgaranum
karlar dansa!
Ramush Haradinaj,
bamm bamm!
það fer tveimur sögum af Ramush
en hér skiptir bara önnur þeirra máli
ég þarf vegabréf til að heyra hina
þið hafið séð þetta allt áður
gamall dans
í nýju landi
gömlu andspyrnuhetjurnar
bjóða upp á
bjór og minningar
við skiptumst á fótboltamönnum
Behrami fyrir Eið Smára
mosku fyrir leigubíl
Björk fyrir leigubílstjórann
sjálfstæði fyrir leigubílstjórann!
þið fyllið upp í himininn
myrkrið er á undan áætlun
leigubílstjórinn á réttum tíma
Í höfuðborginni
hrjóta risarnir á meðan
50 cent slær Tesla í gólfið
þið fljúgið yfir blóðuga velli
skiptið á rafmagni fyrir frið
hóruhúsum fyrir vopnabúr
nýburaland
sorgarland
Svartþrastaland
það syngur enginn þjóðsönginn
á banastundinni
Luan Haradinaj,
bamm bamm!
Ásgeir H Ingólfsson
birtist upphaflega í Grimmum ævintýrum, sem Nýhil gaf út árið 2010