SpaceOddity

Hann dó á sunnudegi, en kvaddi okkur flest á mánudegi. Sem var viðeigandi, því þótt það væri fátt mánudagslegt við Bowie þá bjargaði hann mér frá mánudögum æskunnar.

Ég eyddi menntaskólasumrunum í garðræktinni. Var í prikastrákagengi og einkennisbúningurinn var grænn samfestingur, öryggisgríma með heyrnatólum og stáltárskór. Og vasadiskó auðvitað, það var eina leiðin til að lifa þetta af.

Fyrsta lagið á mix-teipinu var svo auðvitað Space Oddity. „Ground control to Major Tom“ hljómaði á meðan maður klæddi sig í gallann, „put your helmet on“ söng Bowie og maður hlýddi. „Commencing countdown“ söng hann á meðan maður beygði sig niður til að toga í spottann sem ræsti prikið, „engines on“ var skipunin og ég var stundum ekki viss hvort röddin í Bowie eða snærisspottinn hefði kveikt á maskínunni. „Check ignition and may God‘s love be with you“ hljómaði á meðan ég reisti mig aftur við, með þungt prikið bundið við síðuna, og þótt ég væri frekar nýlega hættur að trúa á Guð þá hafði ég að minnsta kosti röddina hans Bowie í eyrunum.

„Ten, Nine, Eight, Seven, Six, Five, Four, Three, Two, One, Liftoff“ og heimurinn hvarf, maður sá bara grasmökkinn sem maður skapaði og hávaðinn útilokaði öll samtöl á meðan tónlistin útilokaði hávaðann og geimurinn hans Bowie lokaði jörðina úti.

Bowie söng áfram til manns úr fjarlægum himingeimnum og það var einhver huggun í því, einhver huggun að þessi skelfilega gráa, ljóta og hávaðasama hversdagslega endurtekning ætti sér samt sitt lag, við sátum saman í þessari járndós, þótt ég væri tímabundið öllu jarðbundnari.

Við flutum svo ankannalega á meðan grasið gusaðist og geimurinn gleypti okkur á þessum sumrum seint á síðustu öld – og núna er vetur og stjörnurnar verða aldrei samar og það er ekkert sem við getum gert, því maðurinn með rafmagnsljáinn hefur tekið Bowie með sér í síðustu geimferðina.

Ásgeir H Ingólfsson