„Austurríki-Ungverjaland eru að fara að spila.“ Frans Jósef keisari: „Frábært! Á móti hverjum?“ Þessi brandari gekk um netheima fyrir leik gömlu grannþjóðanna á þriðjudaginn var – en nú þegar þeim leik er lokið þá er svarið hins vegar Ísland, sem fylgir eftir jafnteflinu við Portúgal með tveimur leikjum gegn þessum föllnu stórveldum, sem einu sinni leiddu eitt helsta stórveldi Evrópu.

Austurrísk-ungverska keisaradæmið var vel að merkja ekki bara þessi tvö lönd, innan keisaradæmisins voru líka Tékkland, Slóvakía, Króatía, Slóvenía og Bosnía, stórir hlutar Póllands, Úkraínu og Rúmeníu og brot af Ítalíu, Serbíu og Svartfjallalandi.

FransJósefFrans Jósef hefði þó aldrei spurt svona í alvörunni, enda áttu báðar þjóðir sín eigin landslið þótt þjóðirnar væru í ríkjasambandi. Heimsveldið liðaðist svo sundur eftir heimstyrjöldina fyrri, en bæði Austurríki og Ungverjaland voru áfram stórveldi í fótboltanum næstu áratugi á eftir. Saga þeirra er um margt lík, bæði geta þakkað lítt þekktum Englendingi velgengni sína á meðan Þjóðverjar hafa oftar en einu sinni bundið ótímabæran endi á blómaskeið þjóðanna.

Niðurlæging þessara tveggja knattspyrnuþjóða hefur svo verið nær algjör undanfarin þrjátíu ár; mögulega var botninum náð þegar Austurríkismenn töpuðu fyrir Færeyingum í upphafi tíunda áratugarins á sama tíma og Ungverjar töpuðu þrisvar með stuttu millibili fyrir Íslandi og hvert félagsliðið á fætur öðrum fór á hausinn.

Vöðvastæltir gyðingar og Englendingur í útlegð

Jimmy Hogan var að þjálfa í Austurríki þegar heimsstyrjöldin fyrri skall á. Honum var varpað í fangelsi en fékk svo að fara til Ungverjalands til að þjálfa þar fótboltamenn, þótt áfram væri hann tæknilega séð stríðsfangi. Þegar hann snéri aftur til Englands eftir stríð þá kallaði enska knattspyrnusambandið hann svikara – og Hogan snéri því fljótlega aftur á meginlandið, þar sem hann eyddi næstu áratugum í að þjálfa knattspyrnumenn í Austurríki, Ungverjalandi, Hollandi og Sviss.

Þar fann hann sálufélaga í austurríska landsliðsþjálfaranum Hugo Meisl. Þeir voru báðir frumkvöðlar í taktískum pælingum og tækniþjálfun á meðan landar Hogans á Bretlandseyjum voru uppteknari af kraftþjálfun fótboltamanna. Meisl var einnig hvatamaður að stofnun Mitropa-bikarsins, Mið-Evrópsks knattspyrnumóts sem er flestum gleymt í dag en var forveri Evrópukeppni meistaraliða – og sú reynsla sem Mið-Evrópuþjóðir á borð við Austurríki, Ungverjaland, Tékkóslóvakíu og Ítalíu fengu úr mótinu hjálpaði þeim til að ná frábærum árangri á fyrstu heimsmeistaramótunum.

Vínarborg hélt svo stöðu sinni sem ein helsta menningarhöfuðborg Evrópu á millistríðsárunum. Frægt er hvernig Hitler, Trotskí, Titó, Freud og Stalín bjuggu samtímis í borginni rétt fyrir stríð og borgin var áfram suðupottur hugmynda eftir stríð og það gilti sömuleiðis um hina ungu íþrótt sem var um það bil að fara að sigra heiminn. Í þessari heimsborg voru gyðingar um tíu prósent af íbúunum – en þeir höfðu ekki sérstakt orð á sér fyrir íþróttaafrek. Það breyttist þó á fyrstu áratugum aldarinnar. Zíonistinn Max Nordau hafði komið fram með hugmyndir um vöðvastæltan júdaisma og meðal þeirra sem tóku hann á orðinu voru stofnendur Hakoah Vín – íþróttafélags sem fljótlega varð með sigursælustu liðum Austurríkis. Hakoa var fyrsta knattspyrnuliðið til að fara í heimsreisu og þótt gyðingafordómar grasseruðu víða þá þorðu fáir að ráðast á Hakoa-menn, enda var glímulið félagsins einnig með í för sem nokkurs konar lífverðir.

En þegar liðið kom til Bandaríkjanna þá fannst mörgum að þeir gætu loks um frjálst höfuð strokið, þarna virtust gyðingafordómar gamla heimsins víðsfjarri og margar helstu stjörnur liðsins urðu eftir þar, þar á meðal ungverjinn Bela Guttman, sem löngu seinna átti eftir að verða nokkurs konar guðfaðir portúgalskrar knattspyrnu sem þjálfari Evrópumeistara Benfica.

Wien Museum: Fußball-Schau noch bis Anfang August
Pappírsmaðurinn Martin Sindelar

Það var hins vegar annar gyðingur sem varð stærsta stjarna austurríska fótboltans, Martin Sindelar, kallaður Pappírsmaðurinn. Hann heillaði meira að segja menntamenn Vínarborgar, leikhúsgagnrýnandinn Alfred Polgar talaði um að hann hugsaði með fótunum og skrifaði með þeim mögnuð leikrit.

Undir stjórn Meisl var Austurríki með bestu liðum heims, svokallað Wunderteam. Ítalir komu þó í veg fyrir að þeir ynnu titla – en þeir strönduðu á ítalska landsliðinu í undanúrslitum HM 1934 og í úrslitum Ólympíuleikanna 1936. Meisl dó árið 1937, rúmu ári áður en Þjóðverjar hertóku Austurríki. Sindelar leist lítið á nasistana og neitaði að spila fyrir þá, bar fyrir sig að hann væri orðinn of gamall. Hann lét þó til leiðast að spila í vináttuleik á milli Þýskalands og Austurríkis, sem átti að enda í kurteislegu jafntefli. En eftir að hafa klikkað á ófáum færum, mögulega viljandi, þá skoraði hann og félagi hans Karl Sesta sitt hvort markið undir lok leiks – og Sindelar dansaði fagnaði fyrir framan háttsetta nasista í áhorfendastúkunni.

Ári seinna fannst hann svo látinn í íbúð sinni ásamt kærustunni Camillu. Ótal kenningar eru um hvað olli gaslekanum sem dró þau til dauða, og þar eru nasistarnir sannarlega meðal grunaðra, en það mættu fimmtán þúsund manns í jarðarförina, sem var á sinn hátt líka jarðarför Austurríkis sem stórveldis í fótbolta og menningu; landsliðið hafði verið innlimað í þýska landsliðið, sem fór sneypuför á HM sumarið 1938 – og þótt liðið næði bronsi á HM 1954 þá var 6-1 tapið fyrir Þjóðverjum í undanúrslitunum til marks um að gullöldin væri liðin.

Gullöld Ungverja

Gullöldin var hins vegar rétt að byrja hjá Ungverjum. Þeir höfðu komist í úrslitaleikinn á HM 1938, þar sem þeir töpuðu 4-2 gegn Ítölum – og fræg urðu orð markmannsins Antal Szabo sem sagði að hann hefði að vísu fengið fjögur mörk á sig – en hann hefði bjargað lífi Ítalanna. Mussolini notaði ítalska landsliðið miskunnarlaust í áróðursskyni á mótinu og var liðið einstaklega óvinsælt fyrir vikið. Szabo var þó væntanlega að oftúlka orð Mussolinis, enda var „vinnið eða deyið“ nokkuð algeng kveðja til fótboltaliða fyrir leik á Ítalíu sem ekki bar að taka bókstaflega.

En þótt Ungverjar hafi verið góðir fyrir stríðið áttu þeir eftir að verða enn betri eftir stríð. Þeir urðu Ólympíumeistarar árið 1952 – og ári síðar mættu þeir á Wembley. Á þessum árum höfðu aðeins farið fram fjögur heimsmeistaramót og vináttuleikir voru teknir miklu alvarlegar en í dag, sérstaklega þegar England átti í hlut, enda höfðu þeir ekki mætt á fyrstu þrjú heimsmeistaramótin. En þeir voru ósigrandi á Wembley og aðrar knattspyrnuþjóðir báru ennþá óttablandna virðingu fyrir þessum frumkvöðlum knattspyrnunnar.

Puskas
Ferenc Puskas, göldróttasti magæjarinn.

Leikurinn var kallaður leikur aldarinnar og Ungverjar voru ansi taugastrekktir fyrir leik – enda var þetta fyrir tíma sjónvarpsútsendinga og leikgreininga á myndböndum, varnarmaðurinn Jeno Buzánszky lýsti því hvernig hann nýtti tímann í göngunum fyrir leik til þess að átta sig á andstæðingunum: „Ég reyndi að sjá hvernig þeir voru vaxnir til að átta mig á hvernig leikmenn þeir væru. Ef þeir voru með sterklega fótleggi voru þeir oftast snöggir, ef þeir voru hjólbeinóttir voru þeir góðir í að sóla menn. En ég hafði áhyggjur af Robb, hann leit út fyrir að vera bæði snöggur og góður í að sóla menn.“

Áhyggjurnar voru þó óþarfi, Ungverjar burstuðu Englendinga 6-3 og neru salti í sárin eftir á þegar þeir sögðu að allt sem þeir kynnu í fótbolta hefðu þeir lært af áðurnefndum Jimmy Hogan. En Hogan var ekki spámaður í sínu föðurlandi, England var of íhaldssamt, fallandi heimsveldi, eða eins og fótboltaspekingurinn Jonathan Wilson orðaði það í bók sinni Behind the Iron Curtain: „Ungverjaland var kommúnískt, róttækt, framtíðin jafnvel; England var nýlenduveldi, dauðvona, vafalítið fortíðin.“

Árið eftir endurguldu Englendingar heimsóknina og meira en milljón Ungverjar reyndu að fá miða. Opinberar tölur segja að 105,000 manns hafi mætt á völlinn – en sagan segir að þeir hafi verið miklu fleiri, því þegar menn voru komnir inn á völlinn notuðu margir bréfdúfur til að senda miðana til vina og ættingja sem notuðu þá svo aftur. Yfirburðir Ungverja voru enn meiri í þetta skiptið, 7-1 sigur og bjartsýnin fyrir heimsmeistaramótið á næsta leyti var mikil. Ungverjar voru taplausir í fjögur ár, gervöll heimsbyggðin reiknaði með að titillinn væri á leiðinni til Búdapest.

Það varð þó ekki, eins og frægt er orðið. Þeir slátruðu Þjóðverjum 8-3 í riðlakeppninni, bara til að missa niður tveggja marka forskot gegn þeim í úrslitaleiknum og tapa 3-2. Einu gilti þótt þeir hefðu unnið stórkostlega sigra á Brasilíu og ríkjandi heimsmeisturum Uruguay á leiðinni í úrslitin, úrslitin gegn Þjóðverjum eru þau sem allir muna – og það meira að segja enn þann dag í dag. Þegar talað er um fótbolta í Ungverjalandi þá berst talið miklu frekar að Puskas og félögum en leikmönnum sem spila í dag. „Ungverskur fótbolti er frosinn í þessu augnabliki – og við getum aldrei haldið áfram,“ fullyrti Tibor Nyilasi eitt sinn, en hann var einn af landsliðsmönnunum sem fylgdi í kjölfar gullaldarliðsins löngu síðar.

En þótt flestir fótboltanördar þekki söguna um leikinn hafa margir gleymt pólitíkinni. Mörg hundruð þúsund manns fóru út á götur að mótmæla í kjölfar úrslitanna, en Guyla Grosics, markvörður ungverska liðsins, fullyrti síðar að fólk hefði í raun notað úrslitin sem yfirvarp, það væri raunverulega að mótmæla kommúnistastjórninni og í þessum mótmælum hefði fyrstu fræjum ungversku byltingarinnar árið 1956 verið sáð. Enda oft erfitt að aðskilja fótbolta og pólitík í Ungverjalandi, sem og víðar.

Liðið var þó enn sterkt og hefði mögulega getað bætt fyrir leikinn í Bern seinna meir ef atburðirnir 1956 hefðu ekki breytt gangi sögunnar. Þegar Rússar börðu uppreisnina niður var Honvéd Búdapest, sterkasta félagslið Ungverja, að spila í Evrópukeppni og þeir breyttu ferðinni í keppnisferðalag til að fresta heimkomunni. Stærstu stjörnur liðsins snéru svo aldrei aftur sem leikmenn, Ferenc Puskas endaði hjá Real Madrid og Zoltán Czibor og Sándor Kocsis hjá erkifjendunum í Barcelona.

Satt best að segja gekk Ungverjum þó ágætlega næstu áratugina. Florian Albert var verðugur arftaki Puskas – en var aldrei með jafn magnaða samherja og kom því Ungverjum aldrei lengra en í fjórðungsúrslit HM. En miðað við Austur-Evrópuþjóð á þeirra stærðargráðu var árangurinn prýðilegur í raun – en liðið var alltaf borið saman við gullöldina og árið 1974 gaf blaðamaðurinn Antal Végh út bókina „Af hverju er ungverskur fótbolti sjúkur?“ Tólf árum síðar kom framhaldið – sem hét einfaldlega „Ólæknandi?“

Það var árið 1986 – þegar Ungverjar komust í stórmót í síðasta sinn í 30 ár. Það er spurning hvað þriðja bókin hefði heitið ef Végh hefði enst aldur til að skrifa hana, vegna þess að á níunda og tíunda áratugnum var ungverskur fótbolti svo sannarlega í krísu – og bæði landslið þeirra og félagslið miklu slakari en lið nágranna þeirra í hinu nýfrjálsa austri.

Færeyjar og fasistar

Austurríki var löngu hætt að vera stórveldi þegar áttundi áratugurinn gekk í garð. En bjartsýnir stuðningsmenn sáu þó teikn á lofti um að það væri að breytast í byrjun þess níunda. Liðið hafði unnið frægan sigur á þáverandi heimsmeisturum Þjóðverja á HM 1978 og þeir unnu svo tvo fyrstu leikina á HM 1982. Allt gat gerst. En síðasti leikurinn í riðlakeppninni var gegn þeirra gömlu fjendum, Þjóðverjum – og staðan var skringileg – bæði lið myndu komast áfram ef Þjóðverjar ynnu bara 1-0. Sem varð vitaskuld raunin. Gönguboltinn sem boðið var upp á eftir að Þjóðverjar komust yfir hneykslaði heimsbyggðina, nú var enginn Sindelar til þess að óhlýðnast tilskipunum um óhóflega kurteisan leik.

Óvinsældirnar virtust þó lítið fara fyrir brjóstið á Þjóðverjum sem virtust jafnvel njóta þess að vera í hlutverki skúrkanna í alþjóðaboltanum – botninn datt hins vegar algjörlega úr leik Austurríkismanna, sem urðu svo að athlægi árið 1990 þegar þeir urðu fyrsta liðið til að tapa fyrir Færeyjum í keppnisleik. Þeir hafa vissulega komist á nokkur stórmót síðan en hafa aldrei gert neinar rósir og iðulega farið með fyrstu vél heim.

DavidAlaba2.jpg
David Alaba, nýstirni austurrísks fótbolta.

Fyrir tapið gegn Ungverjum í vikunni vonuðust menn þó til þess að það myndi breytast, liðið hafði farið létt með bæði Rússa og Svía í forkeppninni og spilað fantagóðan fótbolta. Stjarna liðsins er bakvörðurinn ungi úr Bayern München, David Alaba, sem er á miðjunni hjá landsliðinu og stjórnar þar öllu. Alaba er sonur filippeyskrar móður og nígerísks föður, eitthvað sem myndi líklega leggjast illa í Viktor Orbán og félaga hans í ungversku ríkisstjórninni – sem hefur verið talin óhóflega höll undir fasisma og útlendingahatur.

Orbán er hins vegar fyrrum hálf-atvinnumaður í fótbolta og ríkisstjórn hans hefur dælt fé í áður fjársveltan ungverskan fótbolta og má þakka uppgangi liðsins ríkisstjórninni að mörgu leyti, jafn vafasöm og hún er. Flestöll lið í efstu deild hafa verið í kröggum undanfarna áratugi og sum farið á hausinn, en núna eru þau flest í eigu manna tengdum ríkisstjórninni og Fidesz, flokki Orbán, sem gæti reynst ansi hættuleg þróun til lengri tíma.

Það er þó rétt að leyfa Evrópumótinu í hið minnsta að klárast áður en miklar yfirlýsingar eru gefnar út um hvort eyðimerkurgöngu ungversku og austurrísku landsliðanna er raunverulega lokið – eða hvort liðin þurfi áfram að lifa á fornri frægð.

Ásgeir H Ingólfsson

greinin birtist upphaflega í Fréttatímanum 18. júní 2016.