Árið 2022 var ár þverstæðna, allavega síðustu mánuðina. Samherji framleiddi besta áramótaskaupið í mörg ár, Twitter varð mun bærilegri staður eftir að Elon Musk tók yfir og Katar hélt besta HM í manna minnum. Og það versta.

Enda eru forvitnilegustu sögurnar oft þversagnakenndar, sérstaklega þessar sönnu, tvær illsamrýmanlegar staðhæfingar geta báðir verið sannar í einu. HM byrjaði rólega og deilurnar um undirbúning mótsins voru forvitnilegri en fótboltinn á köflum – en þegar úrslitaleikurinn fór fram og ég var á kafi við að klára síðustu ritdómana fyrir jólin í bókablað Stundarinnar reyndist fimm stjörnu sagan sem ég var að bíða eftir vera dáleiðandi úrslitaleikur HM, sem ég horfði á eins og í leiðslu og byrjaði að skilja betur alla atburðarásina sem leiddi okkur á þetta leiksvið við Persaflóann.

Byrjum á fótboltanum sjálfum, byrjum á Messi. Nei, hann er enginn Maradona, þótt galdrarnir í fótunum séu sambærilegir. Hann er ekki götustrákur, hann hangir ekki með Fidel Castro og hann er sjaldan að búa til fyrirsagnir utan vallar, virðist raunar ekki sérlega mælskur, þótt það sé mögulega mest feimni. En á mjög líkamlegan hátt er hver sigur Messi sigur litla mannsins. Hann þurfti að flytja að heiman tólf ára, bókstaflega til að verða ekki dvergur, hann fór í hormónameðferð í boði Barcelona til að örva vöxtinn og var svo feiminn í klefanum að leikmenn sem seinna urðu góðir vinir hans héldu þá að hann væri jafnvel mállaus. Enda tólf ára og skyndilega kominn í aðra heimsálfu, með öllu sem því fylgir.

Þegar hann verður að manni hefst svo óformleg barátta á milli hans og Cristiano Ronaldo um að vera bestur í heimi – og það er í raun barátta litla og stóra, barátta fótboltamanns sem hefði getað verið búinn til í tilraunastofu annars vegar og hins vegar fótboltamanns sem er svo ótrúlega mennskur, lítill stubbur sem flestir myndu taka eftir á götu – ef hann væri ekki frægasti fótboltamaður í heimi.

Hann minnir mann á að fótboltasagan gaf okkur Puskas og brasilíska Ronaldo, sem samkvæmt nútímahugmyndafræði voru með alltof háa fituprósentu til að spila fótbolta, fótboltasögunni sem gaf okkur einhenta úrúgvæska heimsmeistara og brasilískan heimsmeistara sem varð besti maður mótsins fyrir meira en hálfri öld þótt annar fóturinn væri 6 sentimetrum styttri.

Fótbolti er nefnilega vinsælasta íþrótt heims af þeirri einföldu ástæðu að ólíkt mörgum íþróttum eru bestu leikmennirnir af öllum mögulegum stærðum og gerðum. Þetta er iðullega barátta risa og dverga, hörku og mýktar, jarðbundins háloftabolta og skýjaglópa sem trúa því að best sé að spila fótbolta á grasinu. Það eru reglulega teikn á lofti um að líkamsræktarsalir og fæðubótaefni séu að besta fótboltann og gera hann að hreinni baráttu um hver sé best þjálfaður, en vonandi haldast hinar ólíklegu hetjur aðeins lengur í fótboltanum. Eins og hinn markaskorari Argentínu í úrslitaleiknum, Angel Di María, sem norski rithöfundurinn Karl Ove Knausgård hefur skrifað langar greinar um af því hann lítur út eins og Kafka. Með öðrum orðum, hann virðist líklegri til að deyja úr berklum en að skora í úrslitaleik HM.

Versta heimsmeistaramótið

En þetta var líka versta heimsmeistaramótið, af því allir voru að horfa í laumi. Hér á meginlandi Evrópu fylla þúsundir venjulega bjórgarða og almenningstorg álfunnar á meðan heimsmeistaramót standa yfir og horfa á leikina í steikjandi hita, þannig að stemmningin gerir stundum leiðinlegustu leiki ógleymanlega. Eins og þegar ég fór á Íran-Portúgal og varð óvart umlukinn öllum Persunum í Prag, sem eru fleiri en maður heldur. En núna var mótið haldið í miðjum vetrarhörkum og jafnvel þótt maður færi stöku sinnum á bar að horfa á leiki voru fæstir gestanna að horfa. Það voru vissulega margir sem lýstu yfir sniðgöngu, en þó bara tveir í mínum kunningjahóp sem ég vissi að væru raunverulegir fótboltaáhugamenn. Flestir voru sjálfsagt að horfa heima eins og ég, án þess að hafa hátt um það. Þangað til mótið varð of spennandi, þangað til við þurftum að ræða um Messi og Marokkó, Króatíu og Mbappe.

Ástæðan var vitaskuld ekki bara vetrarhörkurnar, heldur líka ýmis mannréttindabrot og skelfileg meðferð á farandverkamönnum í Katar í aðdraganda mótsins, sem kostaði þúsundir þeirra lífið. Það var samt eitthvað einkennilegt í þeirri narratívu sem varð ráðandi. Jú, það var furðulegur skandall að örþjóð með enga alvöru fótboltahefð héldi þetta mót – en það varð skringilegra og skringilegra að heyra vestrænu pressuna staglast á orðinu íþróttaþvotti. Vegna þess að Katarmenn voru alls ekki að þvo neitt af sér, þvert á móti voru þeir að flagga skítuga þvottnum. Þeir vissu vel að þegar kastljósið myndi falla á þá myndu öll mannréttindabrotin koma í ljós.

En þeir voru einmitt að þessu fyrir kastljósið. Fyrir 2010 hefðu fæstir getað bent á Katar á korti, hvað þá meira. Þetta var bókstaflega öryggisaðgerð – pínulítið en forríkt land rétt hjá risanum Sádi-Arabíu, sem hafa jú sannarlega blandað sér í átök nágrannaríkja sinna síðustu misseri. Skoðið bara kort af Persaflóanum, reynið að finna Katar á því – og sjáið svo hvernig það hverfur í skuggann á Sádi-Arabíu – og skammt undan eru fleiri óútreiknanlegir risar á borð við Írak og Íran.

Þeir voru líka að þessu til að eignast vini á réttum stöðum. Ef eitthvað gerist fyrir Katar verða Beckham og Xavi líklegir til þess að tala þeirra máli. Það skiptir máli að eiga vini á réttum stöðum, volduga og ríka vini til að ná athygli heimspressunar þegar þess þarf.

Þeir eru að bjóða ríka fólkinu upp í dans, ekki fátæka fólkinu. Fátæka evrópska fótboltabullann sem safnar fyrir HM eða EM annað hvert ár þurfti líklega að sleppa Katar út af kostnaði – eða af því það stefndi í lélegt partí, með bjórinn á tvöþúsund kall, þar sem mátti á annað borð drekka hann.

En Katar er sama, Katar vill stuðning ríku Evrópubúana, sem fara þangað í sumarfrí til að fá frið frá pöpulnum. Og eru um leið mannlegur skjöldur – þorir einhver að gera eldflaugaárás þegar Beckham er á ströndinni? Samhliða eru þeir líka í vígbúnaðarkapphlaupi og að baktryggja sig efnahagslega á allan mögulegan hátt gagnvart því þegar olían klárast eða hættir að vera verðmæt. Á sínum tíma bauð Sarkozy þáverandi Frakklandsforseti Michel Platini og Tamim al-Thani, syni emírsins af Katar (sem nú hefur tekið við sem emír sjálfur) í hádegismat, þar sem ætlunin virðist hafa verið að tryggja Katar atkvæði Platini, enda sömdu Frakkland og Katar í kjölfarið um stórtæk viðskipti með bæði vopn og eldsneyti, auk þess sem Katar hefur bjargað fjárhag franska boltans í gegnum sjónvarpssamninga og keypt PSG og gert liðið að stórveldi og sameiginlegu krúnudjásni Katar og Parísar.

Þeir eru einfaldlega í allt öðrum PR leik en þeim sem við erum vön á Vesturlöndum, þar sem ríka og fræga fólkið reynir allavega að líta út fyrir að vera alþýðlegt. Þess vegna féllu Blatter og félagar í FIFA í gildruna þeirra, þeir áttuðu sig ekki á því að Katar er skítsama um fótbolta, og þetta mót gæti orðið þungt högg fyrir fótboltann langt inn í framtíðina. HM er jú mótið þar sem flestir fá fótboltabakteríuna, fyrstu alvöru fótboltaminningar margra eru frá stórmótum. Ég breyttist úr alvöruþrungnu antísportístabarni í fótboltagutta sumarið sem HM var síðast í Mexíkó og fjórum árum áður voru frænkur mínar í sinni fyrstu utanlandsferð á Ítalíu – og mundu helst gleðina og hasarinn þegar Ítalir urðu heimsmeistarar um sumarið. Þarna hefði FIFA vel getað klúðrað heilli kynslóð verðandi áhorfenda og iðkenda. Nema hvað, fótboltinn bjargaði sambandinu frá sjálfu sér.

Hvíta liðið og svarta liðið

Þegar leið á mótið fór þó jafnvel þessi saga að fá á sig annan blæ. Þegar Sádi-Arabía vann verðandi heimsmeistara og þegar Marokkó náði alla leið í undanúrslit, fyrst allra Afríkuþjóða og fyrst allra Arabaþjóða. Maður fór að skynja að þetta var HM suðursins, Arabaheimurinn og Afríka (í gegnum árangur Marokkó) fékk loksins sitt mót og þau voru orðin þreytt á því að ríkir Evrópubúar létu sífellt eins og þetta væri bara mót barbarisma og spillingar. Breskur kunningi minn, sem ég hafði haldið að væri eins og woke og hægt væri, fór á mótið og sagði dálítið aðra sögu en vestrænir fjölmiðlar. Hann er af arabískum ættum og það gætir þreytu yfir því hvernig arabísk spilling fær iðullega öðruvísi umfjöllun en vestræn spilling, henni er varpað á þjóðfélagið allt og heilu löndin – og þessi lönd eru orðin dálítið þreytt á Evrópubúum að segja þeim hvernig þau eiga að haga sér.

Aðallega er þetta samt bara flókið. Þetta var mót þar sem regnbogafánar voru bannaðir en palestínsk flögg leyfð, sumsé öfugt við Júróvisjón í Ísrael. Fótbolti er á sinn hátt siðlaus eins og skáldsagan, en það eru samt alltaf einhver lærdómur til staðar ef maður grefur nógu djúpt.

Frakkland var fulltrúi hinnar hvítu Evrópu í úrslitaleiknum, en eftir skiptingar voru bara blökkumenn á vellinum að keppa fyrir Frakka, að undanskildum markmanni liðsins. Þar á meðal líklegasti arftaki Messi, Kylian Mpabbe. Mbappe er innflytjendabarnið, hefnd fyrir nýlendustefnuna, gagnvart þeim sem vilja sitt hvíta Frakkland, en syndaaflausn fyrir þá sem sjá eftir glæpum nýlendustefnunnar.

Frá suðrinu kom svo nánast mjallahvítt argentínskt lið og vann mótið. Sumar heimildir herma að þriðjungur Argentínumanna hafi verið blökkumenn við lok átjándu aldar, nú eru þeir í kringum eitt prósent. Þess ber þó að geta að þá bjuggu líka miklu færri í landinu en nú til dags, þannig að stórfelldir fólksflutningar frá Evrópu breyttu tölfræðinni hratt – og eins hafa verið nefndar fleiri ástæður sem sagnfræðinga greinir þó á um, sögur um að argentínskir blökkumenn hefðu nánast verið fallbyssufóður í sumum stríðum nítjándu aldar eða kannski frekar að þeir hafi gerst liðhlaupar og flust norðar í álfuna. Um leið blandaðist þjóðin meira og finna má indjánablóð í stórum hluta þessa hvíta liðs, „morocho“ eru Argentínumenn eins og Maradona og Angel Di María kallaðir, örlítið dekkri á hörund en evrópskættaðri liðsfélagar þeirra, hvítir úr fjarlægð en öllu blandaðri þegar litið er nær. Allt þetta þýðir að annað liðið var að mestu hvítt og hitt að mestu svart – og hvoru tveggja var afleiðing flókins samspils kynþáttafordóma og fólksflutninga fyrri alda.

Fyrr í keppninni skoraði svo sonur fátækrar skúringakonu í Madrid markið sem sendi Spánverja heim og Marokkó áfram. Marokkó varð táknmynd þess að Afríka og Arabaheimurinn væri að rísa, en það var þó aðeins flóknara þegar betur var að gáð – Marokkó-menn tala berbísk tungumál sem aðrir arabar hafa iðullega litið niður á sem hálfgert hrognamál. Því voru blaðamannafundirnir oft einkennilegur kokteill af klassískri arabísku, mismunandi berbískum málum og ensku. Skyndilega vildu allir Marokkó kveðið hafa, líka þeir sem höfðu lítið viljað með landið hafa áður.

Undir öllu þessu marar svo spillingin. Infantino forseti FIFA stóð undir nafni og var nánast bernskur í einfaldleika sínum og fávitahætti – og virtist vera alveg í vasanum á Katar, enda virðist hann  meira og minna fluttur til landsins – enda stendur yfir skattrannsókn á honum í Sviss. Því er ekki nema von að hann þurfi að halda Katar-mönnum góðum, hann virðist hreinlega vera að undirbúa pólitískt hæli þar fyrir opnum tjöldum.

Þetta er kannski ískyggilegasti lærdómur þessa heimsmeistaramóts; ef forríkt smáríki eins og Katar eru með tangarhald á Infantino og bein tengsl við leiðtoga lykilríkja, gætu þeir eða önnur álíka stjórnvöld mögulega náð álíka sterku tangarhaldi á þjóðarleiðtogum og  þeir hafa náð á FIFA leiðtoganum? Ímyndarstríð og mannalæti ríkasta milliprósents heimsins er leikrit sem við hin venjulegu skiljum oft illa – en þurfum þó að æfa okkur betur í að lesa í, af því afleiðingarnar lenda alltaf á okkur. Hvort sem það er brenglað fótboltamót, brenglaður leigumarkaður eða brengluð heimssýn.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson