Fyrsti úrslitaleikur Evrópumótsins byrjaði á sunnudegi og endaði á mánudegi – og Mánudagur skoraði sigurmarkið. Leikurinn var spilaður í París, rétt eins og núna, og Frakkar voru mættir með sitt fyrsta gullaldarlið – höfðu náð bronsi á heimsmeistaramótinu tveimur árum áður og voru bjartsýnir á að vinna loksins stórmót.
En þetta var áratugur Austur-Evrópu – kommúnistaríkin áttu lið í undanúrslitum allra heims- og Evrópumeistaramóta á sjöunda áratugnum – og á EM 1960 röðuðu þær sé í þrjú efstu sætin, á undan Frökkum.
Í úrslitaleiknum mættust tvo stórveldi sem eru ekki lengur til, Sovétríkin og Júgóslavía. Lev Yashin, markvörður Sovétmanna, var stjarna mótsins en Júgóslavar komust þó yfir áður en Sovétmenn jöfnuðu. Meira var ekki skorað í venjulegum leiktíma og leikurinn fór því í framlengingu – og þegar framlengingin byrjaði var kominn mánudagur í Moskvu. Þar skoraði ungur framherji, Viktor Ponedelnik, sigurmarkið. Þetta var himnasending fyrir fyrirsagnaritara í Moskvu, þar sem Ponedelnik þýðir mánudagur á rússnesku. Forfeður hans voru bændur og þegar bændaánauðinni var aflétt tæpum hundrað árum fyrir úrslitaleikinn voru nöfn allra bændanna færð í þar til gerða bók. En drukkin skrifstofublók ruglaði saman nöfnum bændanna nýfrjálsu og vikudögunum og þar með hófst saga Mánudagsfjölskyldunnar.
Moskvugullið kostar gull
Mesta dramatíkin á þessu fyrsta Evrópumóti átti þó rætur sínar að rekja til spænsku borgarastyrjaldarinnar. Kommúnistarnir höfðu fengið vopn frá Rússum – og kostað til þess um tveimur þriðju af gullforða Spánar, sem fram að því höfðu átt gnægðir af gulli. Þetta dugði þó kommúnistum ekki til að vinna borgarastyrjöldina og Franco var svo í nöp við Sovétmenn eftir þetta að hann neitaði að leyfa Spánverjum að keppa við þá í fjórðungsúrslitunum árið 196. Þarna sluppu Evrópumeistararnir verðandi mögulega við sterkasta lið Evrópu. Þetta var árið sem Real Madrid vann sinn fimmta Evrópumeistaratitil í röð og Alfredo Di Stefano var á hátindi ferilsins. Hann náði þó aldrei að vinna neitt með landsliðinu, þökk sé Franco og meiðslum á HM 1962.

En eitthvað mildaðist Franco með árunum – og fjórum árum seinna voru Sovétmenn mættir til Madrídar að keppa við Spánverja í öðrum úrslitaleik keppninnar. Stjörnurnar úr gullaldarliði Real Madrid voru flestar hættar en Luis Suárez, sem hafði spilað fyrir erkifjendurna í Barcelona, var enn að spila. Hann var núna kominn til Inter og var stjarna Spánverja í 2-1 sigri. Hann sagði þetta spænska lið vera mun verr mannað en áður – „en þá unnum við ekkert. Þetta lið var liðsheild frekar en hópur stjörnuleikmanna.“ Líklega hefur þó fáa grunað þarna að Spánverjar þyrftu að bíða í heil 44 ár eftir næsta titli.
Heppnissigur Ítala
Það má lengi deila um heppni í íþróttum – en það er ómögulegt að neita því að Ítalir voru skrambi heppnir að vinna sitt eina Evrópumót árið 1968. Tveimur árum áður hafði úldnum tómötum rignt yfir þá eftir háðulegt tap fyrir Norður-Kóreu á HM og þeir voru staðráðnir í að endurheimta ást ítalskra áhorfenda. Eftir 120 markalausar mínútur gegn Sovétmönnum fagnaði svo ítalski fyrirliðinn Facchetti ógurlega – eftir að hafa unnið hlutkesti og komist þannig í úrslitaleikinn.
Þar mættu þeir Júgóslövum með Dragan Džajic í broddi fylkingar. Evróputitill er væntanlega akkúrat það sem þessi stærsta stjarna júgóslavneskrar knattspyrnusögu hefði þurft til þess að vera skipað á sess með þeim bestu í sögunni. Og það munaði ekki miklu, hann kom sínum mönnum yfir í upphafi leiks og í 70 mínútur virtist titillinn á leiðinni til Júgóslavíu. En Ítalir skoruðu jöfnunarmark tíu mínútum fyrir leikslok og náðu jafntefli, sem markvörður þeirra, Dino Zoff, játaði fúslega að þeir hefðu ekki átt skilið. Endurtekinn úrslitaleikur fór fram aðeins tveimur sólarhringum síðar – og gæfa Ítala var að hafa miklu meiri breidd auk þess sem þeir voru að fá mikilvæga leikmenn til baka úr meiðslum. Ítalir gerðu því fimm breytingar á byrjunarliðinu og Júgóslavar aðeins eina – og unnu öruggan 2-0 sigur þar sem Gigi Riva var aðalstjarnan, en hann hafði verið meiddur í fyrri leiknum.
Gullöld Þjóðverja
Næstu þrír úrslitaleikir áttu eitt sameiginlegt: Vestur-Þýskaland. Óvænt jafntefli í Albaníu hafði kostað þá sæti í fjórðungsúrslitunum 1968 en liðið var óstöðvandi 1972 og lék sér að Sovétmönnum í úrslitaleiknum í 3-0 sigri. Franska blaðið L‘Equipe talaði um fótbolta frá árinu 2000 og flestir voru sammála um að þetta væru langbestu Evrópumeistararnir til þessa. Leikstíllinn var kallaður Ramba Zamba fussball og það voru þrjár súperstjörnur í liðinu; Franz Beckenbauer sem var svo rólegur að hann spilaði fótboltaleiki með hvíldarpúls, Gerd Müller sem skoraði fleiri mörk en hann lék landsleiki og gleymda stjarnan Günter Netzer. Netzer var maður mótsins – það mætti kannski kalla hann George Best þýska boltans, hann nennti varla að æfa en stjórnaði spilinu áreynslulaust þegar á hólminn var komið. Netzer náði sér hins vegar ekki á strik á HM tveimur árum síðar og spilaði bara einn leik – og þótt Þjóðverjar ynnu titilinn þá voru það Hollendingar sem allir elskuðu og skyndilega var ramba-zambað flestum gleymt.
Evrópumótið 1976 reyndist svo það dramatískasta í sögunni. Allir fjórir leikir lokakeppninnar enduðu í framlengingu og Þjóðverjar virtust algerlega ódrepandi. Þeir lentu 2-0 undir á móti Júgóslavíu en unnu 4-2 og svo lentu þeir 2-0 undir á móti Tékkóslóvakíu en jöfnuðu og knúðu fram vítaspyrnukeppni. Við erum flest vön því að vítakeppni þýði sjálfkrafa þýskan sigur – en sú hefð kom síðar. Tékkinn Antonín Panenka skoraði sigurmarkið með frægasta víti knattspyrnusögunnar, vítaspyrnutækni sem hefur verið kennd við hann allar götur síðan.
Þetta byrjaði allt með veðmálum. Panenka var vanur að veðja um bjór eða súkkulaði við markmanninn á æfingavellinum – og hann tapaði ítrekað. Þangað til honum datt í hug að gabba markmanninn með því að skjóta í háum boga í mitt markið eftir að hann var búinn að skutla sér – tækni sem hann fullkomnaði þessa sumarnótt í Belgrad. Panenka var einn af fáum Tékkum í liðinu, þetta var gullöld slóvakíska fótboltans og þaðan voru 8 leikmenn af 11, en samt fengu Tékkar að erfa heiðurinn af þessum eina titli Tékkóslóvakíu.
Vestur-Þjóðverjar endurheimtu titilinn fjórum árum síðar, en það er minni glans yfir þessum hálf-gleymdu Evrópumeisturum frá 1980. Gömlu stjörnurnar voru flestar hættar og Karl-Heinz Rumenigge og Bernd Schuster voru nýstirnin – Rumenigge átti eftir að vera helsta stjarna þýska boltans næstu árin en Schuster var hins vegar andlegur arftaki Günter Netzer. Hann var besti maður keppninnar – en spilaði svo aldrei aftur á stórmóti eftir deilur við þjálfara, leikmenn og þýska knattspyrnusambandið. Liðið var þó ekki nærri því jafn sterkt og áður og náði aðeins að tryggja sér 2-1 sigur á spútnikliði Belga á lokamínútunum. Úrslitaleikurinn skipti þó jafnvel meira máli fyrir Belga – þeir voru hálfgerðir nýgræðingar á stórmótum og markvörðurinn frægi Jean-Marie Pfaff sagði seinna: „Fyrir EM 1980 vorum við amatörar.“ En það gjörbreytist og Belgar voru fastagestir á stórmótum næstu tuttugu árin.
Michel og Marco sigra Evrópu
Evrópukeppnin hefur alið af sér ófáar stjörnur en engar hafa átt heilu mótin með húð og hári eins og Michel Platini og Marco van Basten árin 1984 og 1988. Það voru samt engar skussar með þeim í liði. Franska liðið státaði af gullna ferhyrningnum í miðjunni – þeim Alain Giresse, Luis Fernández, Jean Tigana og Platini sjálfum – en þegar miðjumaður skorar níu mörk í fimm leikjum þá er óhætt að nota hástemmd lýsingarorð. Dramað var mest í undanúrslitunum og úrslitaleiksins gegn Spánverjum er aðallega minnst fyrir klaufaskap spænska markvarðarins Arconada þegar Platini skoraði fyrra markið í 2-0 sigri.
Fjórum árum síðar unnu Hollendingar sinn fyrsta titil – og þótt það kæmi lítið á óvart bjuggust flestir við að þetta yrði mótið hans Ruud Gullit. Og Gullit var þrælgóður á mótinu – en þeir töpuðu þó opnunarleiknum gegn Sovétmönnum. Þá var Marco van Basten á bekknum, enda hafði hann verið meiddur mestallan veturinn – og var heldur ekki ennþá orðin sú stórstjarna sem við munum í dag. En það breyttist fljótt, þrenna gegn Englendingum og mark þegar þeir náðu fram hefndum gegn Þjóð- verjum í undanúrslitunum þýddi að þeir mættu Sovétmönnum aftur í úrslitaleiknum. Þar mættust tveir guðfeður – Rinus Michels, guðfaðir hollenska total football skólans, var aftur orðinn landsliðsþjálfari og Valeri Lobanovsky, hugsuðurinn á bak við veldi Dynamo Kiev, stjórnaði Sovétmönnum. Þeir mættu í raun til leiks með hálf-úkraínskt landslið, eftir á að hyggja, en sjö Úkraínumenn, tveir Rússar og tveir Hvít-Rússar byrjuðu úrslitaleikinn. En ómögulegt galdramark van Basten tryggði Hollendingum 2-0 sigur, skömmu eftir að Sovétmenn höfðu misnotað víti.
Öskubuskuævintýri og gullmörk
Þjóðverjar snéru aftur í úrslitaleikinn 1992 – í fyrsta skipti sem sameinað Þýskaland – en það dugði ekki til þess að stoppa danska Öskubuskuævintýrið. Danir höfðu komist á EM bakdyramegin eftir að Júgóslavíu var hent út vegna borgarastyrjaldar, þeir höfðu komist naumlega upp úr riðlakeppninni og lifðu af undanúrslitaleikinn gegn Hollendingum á einhvern ótrúlegan hátt – þar sem hálft danska liðið virtist vera að spila framlenginguna í gegnum krampa. En þegar í úrslitaleikinn var komið var eins og Þjóðverjar hefðu sætt sig við að það væri þegar búið að skrifa handritið – og 2-0 sigur Dana var furðu þægilegur á endanum.
Það leit svo út fyrir að Þjóðverjar ætluðu að tapa aftur fyrir spútnikum fjórum árum síðar – ungu og upprennandi tékknesku liði sem enginn hafði búist við neinu af. En þegar tuttugu mínútur voru eftir kom Olivier Bierhoff inn á, framherji sem hafði ekki náð neinni fótfestu í Bundesligunni áður en hann varð aðalmarkaskorari Udinese á Ítalíu. Hann jafnaði fljótlega og skoraði svo gullmark á fimmtu mínútu framlengingar.
Gullmörkin voru skammlíf og umdeild tilraun til þess að lífga upp á framlengingar – þar sem það dugði til sigurs að skora fyrsta markið í framlengingunni. Þá var einfaldlega flautað af. Frakkar unnu líka á gullmarki fjórum árum síðar í 2-1 sigri á Ítölum og urðu þar með aðeins annað liðið á eftir Þjóðverjum til þess að vera bæði heims- og Evrópumeistarar í einu.
Næsta Evrópumót fór fram í Portúgal og gullaldarlið Portúgala, sem hafði bæst liðsauki í ungum Cristiano Ronaldo, ætlaði sér mikla hluti en tapaði óvænt fyrir Grikkjum í opnunarleiknum. Það virtist þó ekki ætla að koma að sök, þar sem þeir rifu sig upp og marseruðu nokkuð örugglega í úrslitaleikinn – þar sem Grikkir biðu þeirra á ný. Grikkland hafði aldrei unnið nein afrek á fótboltavellinum áður og landsliðsmenn þess höfðu verið niðurlægðir á HM tíu árum áður – markatalan þá var 0-10. En í útsláttarkeppninni 2004 tókst engum að skora gegn fjölmennri grískri vörninni, ekki Evrópumeisturum Frakka, ekki Tékkum, líklega besta liði keppninnar, og ekki heldur Portúgölum, sem töpuðu úrslitaleiknum 1-0.
Flestum sparkunnendum er svo vafalaust í fersku minni gullaldarlið Spánverja, sem urðu fyrstir allra til að verja Evrópumeistaratitilinn og voru raunar ekki í neinum vandræðum í úrslitaleikjunum tveimur. Fernando Torres skoraði eina markið gegn Þjóðverjum 2008 en sigurinn var miklu öruggari en þær tölur gáfu til kynna. Svo slátruðu þeir Ítölum 4-0 fyrir fjórum árum. En þeir ná ekki að verja titilinn – og núna bíðum við bara eftir að sjá arftaka þeirra krýnda. Vonandi eftir skemmtilegan og dramatískan fótboltaleik.
Ásgeir H Ingólfsson
greinin birtist upphaflega í Fréttatímanum 9. júlí 2016.