„Þetta fólk horfir ekki mikið í kringum sig,“ sagði Michel Platini þegar menn byrjuðu að tala um regnbogaliðið sem sameinaði Frakkland sumarið 1998, heimsmeistarana sem sömuleiðis voru kallaðir génération black, blanc, beur – svarta, hvíta og arabíska kynslóðin.

Platini var þó ekki að gagnrýna jákvæðnina gagnvart fjölmenningunni, heldur bara að benda á að þetta var ekkert nýtt. Sjálfur hafði Platini, sem er af ítölskum ættum, spilað með leikmönnum sem fæddir voru í Gvadalúpe, Martiník, Malí og Alsír þegar Frakkar urðu Evrópumeistarar 1984, auk þess sem hann var alls ekki einn um að vera innflytjendasonur. Platini sagði þessa umræðu 30 árum á eftir raunveruleikanum – en hún var raunar miklu lengra á eftir en það.

Gamlar og nýjar nýlendur

Byrjum á örfáum staðreyndum. Frakkar hernámu Alsír árið 1830 og ríktu þar fram að blóðugu frelsisstríði árin 1954 til 1962, en eftir það fékk Alsír sjálfstæði. Tveimur árum áður hafði Senegal fengið sjálfstæði frá Frakklandi, án blóðsúthellinga.

Karabíska eyjan Gvadalúpe og Reunion, eyja í Indlandshafi, stutt frá Madagaskar, eru hins vegar ennþá hluti af Frakklandi. Þetta eru bara brot af núverandi og fyrrverandi nýlendum Frakka – en þessar hafa kannski haft hvað mest áhrif á knattspyrnusögu þjóðarinnar.

Sú saga var í raun fjölþjóðleg nánast frá byrjun. Alex Villaplane fæddist í Alsír árið 1905 og varð árið 1926 fyrsti landsliðsmaður Frakka af afrískum ættum. Fjórum árum síðar þá var hann fyrirliði liðsins í opnunarleik fyrsta heimsmeistaramótsins. Ári síðar varð Raoul Diagne svo fyrsti blökkumaðurinn til þess að klæðast landsliðstreyjunni. En þar skildu þó leiðir þeirra tveggja; nú er annars þeirra minnst sem hetju og hins sem óþokka.

Eftir því sem fjaraði undan knattspyrnuferli Villaplane, eftir HM 1930, flæktist hann sífellt meir í undirheima Parísarborgar og þegar Þjóðverjar hernámu Frakkland áratug síðar var hann farinn að smygla gulli. En nasistarnir reyndu ýmislegt til að afla sér fylgis meðal franskra araba og gáfu meðal annars út dagblað á arabísku þar sem Hitler var sýndur sem frelsarinn mikli, sem myndi frelsa þá undan oki nýlendustefnu og kommúnisma. Í kjölfarið var mynduð Norður-afríska herdeildin, SS-herdeild sem ætlað var að hjálpa til við að koma frönsku andspyrnunni fyrir kattarnef. Villaplane var foringi herdeildarinnar sem varð fljótt alræmd og sýndi andspyrnumönnum litla miskunn og skutu meðal annars ellefu andspyrnumenn úti í skurði.

Flest bendir til þess að Villaplane hafi fyrst og fremst verið tækifærissinnaður glæpon, frekar en að hann hafi trúað áróðri nasista, enda reyndi hann að sýna á sér mildari hliðar þegar hann sá að nasistar voru að tapa stríðinu, sem kom þó ekki í veg fyrir að hann var tekinn af lífi eftir að bandamenn frelsuðu París – með franskar herdeildir, sem voru að meirihluta afrískar, í broddi fylkingar.

RaoulDiagne
Brautryðjandinn Raoul Diagne, var fyrsti afríski blökkumaðurinn til að spila fyrir Frakkland og fyrsti landsliðsþjálfari Senegal.

Raoul Diagne var fæddur í frönsku Gíneu en fluttist til Frakklands barnungur þegar senegalskur faðir hans, Blaise Diagne, varð fyrsti svarti Afríkubúinn til þess að vera kosinn á franska þingið. Sonurinn varð svo brautryðjandi á fótboltavellinum, varnarmiðjumaður sem fékk viðurnefnið svarta köngulóin sökum þess hve leggjalangur hann var.

Hann hafði þó líklega mest áhrif eftir að ferlinum lauk – en árið 1960 varð hann fyrsti landsliðsþjálfari Senegal, sem hafði nýlega öðlast sjálfstæði, og þótt hann hafi aðeins verið landsliðsþjálfari í eitt ár voru áhrif hans sem þekktasta knattspyrnumanns Senegals slík að hann hefur ósjaldan verið kallaður guðfaðir senegalskrar knattspyrnu. Hann var ennþá á lífi þegar Patrick Vieira, arftaki hans sem frægasti senegalski fótboltamaðurinn, varð heimsmeistari með Frakklandi árið 1998 – og sömuleiðis þegar þessi sami Vieira mátti þola frægt tap gegn upprunalandinu, Senegal, þegar þeir komust á sitt fyrsta heimsmeistaramót árið 2002. Diagne lifði líka til að sjá það og dó svo seinna um haustið.

Alsírska andspyrnulandsliðið

Frakkar voru þó ekkert stórveldi í fótboltanum á millistríðsárunum. Þeirra fyrsta gullaldarlið vann brons á HM 1958 og var skipað stjörnum á borð við hinn pólskættaða Raymond Kopa og markamaskínuna Just Fontaine, sem var fæddur í Marokkó. Það lið hefði þó verið enn sterkara ef ekki hefði verið fyrir frelsisstríðið í Alsír sem var þá í algleymingi. Mustapha Zitouni var lykilmaður í vörn landsliðsins og Rachid Mekhloufi hafði raðað inn mörkum fyrir Frakklandsmeistara St. Etienne – en báðir flúðu þeir Frakkland í apríl 1958, skömmu fyrir HM, ásamt sjö öðrum leikmönnum af alsírskum uppruna og stofnuðu þeir lið sem spilaði fyrir hönd Alsírsku frelsishreyfingarinnar og var nokkurs konar forveri alsírska landsliðsins. Þrátt fyrir mótmæli franska knattspyrnusambandsins spiluðu þeir tæplega hundrað leiki við lið víðs vegar að úr heiminum og vöktu mikla hrifningu fyrir góðan leik.

MustaphaZitouni
Andspyrnufótbolti Mustapha Zitouni valdi andspyrnulið Alsír fram yfir HM.

Samband þeirra við fyrrum fé­laga sína úr franska landsliðinu var þó áfram gott – frönsku landsliðsmennirnir skrifuðu til dæmis allir utan á póstkort sem þeir sendu Zitouni frá Svíþjóð og Mekhloufi átti eftir að snúa aftur til Frakklands eftir að frelsisstríðinu lauk og vinna þrjá meistaratitla í viðbót. Mörgum Frökkum var vissulega í nöp við hann en fyrir alsírska minnihlutanum var hann hetja.

Þrjátíu árum seinna varð svo hinn alsírskættaði Zinedine Zidane stærsta hetja franskrar knattspyrnusögu – og jafnvel alsírskrar líka – þegar hann tryggði Frökkum sinn fyrsta heimsmeistaratitil.

Fótboltafabrikkan í Karíbahafinu

Franskir leikmenn af alsírskum og senegölskum ættum geta þó flestir ráðið núorðið hvort landsliðið þeir spila fyrir. Slíkt val hafa þó leikmenn frá eyjunum Reunion og Gvadalúpe ekki, enda enn undir stjórn Frakka. Stjarna Frakka á núverandi Evrópumóti, Dimitri Payet, er fæddur og uppalinn í Reunion, en enn merkilegri er þó velgengni gvadalúpskra leikmanna, sem skáka jafnvel Íslendingum þegar kemur að höfðatölunni alræmdu. Þótt aðeins rúmlega 400 þúsund manns búi á eyjunni hefur hún alið af sér fótboltamenn á borð við Thierry Henry, Nicolas Anelka, Sylvain Wiltord, Lilian Thuram, William Gallas og Kingsley Coman – og fjórir af þeim fjórtán leikmönnum sem komu við sögu í úrslitaleik heimsmeistaramótsins 2006 hefðu verið löglegir með Gvadalúpe, þetta sumarkvöld þegar Zidane lauk ferlinum með því að stanga varnartröllið Marco Materazzi.

Rasisminn við enda regnbogans

En leikurinn var ekki bara svanasöngur Zidane, hann markaði líka endalok regnbogaliðsins fræga. Hinn umdeildi Raymond Domenech stýrði þeim í úrslitaleiknum – og þangað komust þeir að margra mati þrátt fyrir Domenech, sú söguskoðun var algeng að reyndari leikmenn liðsins hafi einfaldlega tekið völdin í búningsklefanum þegar leið á mótið. Franska knattspyrnusambandið stóð þó þétt við bakið á sínum manni – og gerði það áfram eftir skelfilegt Evrópumót tveimur árum síðar.

Það sauð svo upp úr í SuðurAfríku sumarið 2010 þegar leikmenn fóru í verkfall á miðju móti og Frakkar fóru heim með skömm. Og núna þótti frönsku þjóðinni sinn eigin regnbogi ekki jafn fagur; orðræðan um landsliðið kallaðist á við vaxandi spennu í landinu – óeirðirnar í París árin 2005 og 2007 voru mönnum enn í fersku minni, en þar hafði Sarkozy Frakklandsforseti kallað óeirðarseggina óþverra (racaille) – og sama orð var nú haft um landsliðið. Íþróttamálaráðherrann, Roselyne Bachelot, var einnig gagnrýnd fyrir að kalla liðið caïds immatures, en orðið caïd er slangur úr arabísku yfir smáglæpamenn.

Það kom betur og betur í ljós að fjölmenningin hugnaðist mörgum bara þegar vel gekk – en innflytjendur urðu vandamál um leið og harðnaði á dalnum. Það var raunar í kjölfar gagnrýni þjóðernispopúlistans Jean-Marie Le Pen árið 1996 sem menn fóru fyrst að tala um regnbogaliðið – gagnrýni Le Pen kom því harkalega í bakið á honum þá, en hins vegar tókst honum með þessu að setja málið á dagskrá og pólarísera umræðuna, þannig að um leið og harðnaði á dalnum fóru ólíklegustu menn að enduróma boðskap hans, þótt í mildaðri útgáfu væri.

Gengi franska liðsins hefur vissulega batnað töluvert síðan 2010 – en þó virðist það ítrekað taka eitt skref aftur á bak fyrir hver tvö skref fram á við. Laurent Blanc var til dæmis framan af mun vinsælli landsliðsþjálfari en Domenech – en það byrjaði að breytast eftir að samræður um að setja kvóta á afríska leikmenn í frönskum knattspyrnuakademí­ um var lekið – þar sem Blanc virtist óþægilega jákvæður gagnvart slíkum hugmyndum.

Eftir ágætt heimsmeistaramót þá varð svo einni stærstu stjörnu liðsins, Karim Benzema, sparkað úr liðinu eftir mútuhneyksli – og þótt erfitt sé að mótmæla þeirri ákvörðun sem slíkri er athyglisvert hversu kynþáttamiðuð viðbrögðin urðu. Það hefur verið talað um að Benzema, sem er ættaður frá Alsír, vilji spila fyrir Frakka en vilji ekki vera franskur, hann syngi ekki einu sinni þjóð­sönginn.

En Benzema er alinn upp í úthverfi Lyon, einu af hinum alræmdu banlieues sem umkringja franskar borgir. Þar er fátæktin oft svakaleg og lífsbaráttan hörð – og íbúarnir í miklum meirihluta innflytjendur. Margir franskir landsliðsmenn hafa alist upp í þessum úthverfum – og þar liggur oft stærsti munurinn á þeim og hvítum kollegum þeirra, þetta snýst um stéttabaráttu ekki síður en húðlit.

Skjannahvítir Belgar taka lit

Síðasti leikur Platini á stórmóti var bronsleikurinn á HM 1986. Andstæðingarnir voru spútniklið Belga, sem áttu efnilegasta mann keppninnar, miðjumanninn Enzo Scifo. Hann átti það sameiginlegt með Platini að vera af ítölskum ættum. Fjölþjóðlegra gerðist belgíska liðið þó ekki, leikmenn þess voru allir fæddir í Belgíu og voru skjannahvítir á hörund.

Eftir nokkurn öldudal kom svo önnur gullaldarkynslóð fram í Belgíu – og hún var ólíkt fjölþjóðlegri; í hópi liðsins á þessu Evrópumóti eru leikmenn ættaðir frá Indónesíu, Kenýa, Malí, Marokkó, Martiník, Portúgal og Spáni – og heilir sex leikmenn liðsins gætu spilað fyrir gömlu nýlenduna Kongó – og Lukaku-bræðurnir eru raunar synir fyrrum landsliðsmanns Zaire.

Þessi þróun á sér stað hjá fleiri og fleiri Evrópuþjóðum – þótt hún sé mest áberandi hjá Frökkum, Belgum og Svisslendingum á þessu móti – og það er líklegt að þau landslið sem enn eru jafn menningarlega fábreytt og belgíska liðið 1986 verði það ekki mikið lengur. Fyrir þessu eru margar og samverkandi ástæður. Nýlendustefnan hefur þýtt að örlög herraþjóða og gamalla nýlendna eru samtvinnuð áratugum og öldum eftir að formlegum yfirráðum lauk. Svo eru hvítir Evrópubúar að eignast færri og færri börn og þurfa á hjálp innflytjenda að halda við að halda mannfjöldanum við. Flóttamannastraumurinn frá Sýrlandi og öðrum löndum í austri mun vafalítið geta af sér merkilegar innflytjendakynslóðir á næstu áratugum.

Þessar kynslóðir finna sig margar fyrst í fótboltanum, því þótt fótbolti sé vinsæll meðal flestra stétta þá virðist hann ósjaldan þrífast best í fátækt. „Ég hyggst hlaupa eins og svartur maður svo ég geti lifað eins og hvítur,“ sagði kamerúnski leikmaðurinn Samuel Eto‘o eitt sinn. Sagan um fátæka götustrákinn sem brýst úr örbirgð í ríkidæmi sökum knattfimi er löngu orðin klisja – en það er umhugsunarvert hversu algengt er að innflytjendur séu áberandi í boltasparki þótt þeir séu lítt sýnilegir í öðrum efri lögum þjóðfélagsins.

Eftir að fótboltamenn hætta eru þeir svo misjafnlega sýnilegir – en leikmenn heimsmeistaraliðsins frá 1998 hafa þó fæstir horfið af sjónarsviðinu. Einn þeirra, varnarmaðurinn Lilian Thuram, hefur verið ötull í að verja innflytjendur og gagnrýndi meðal annars Sarkozy forseta fyrir að sýna raunveruleika franskra innflytjenda lítinn skilning. Áður hafði hann svarað áðurnefndum Jean-Marie Le Pen fullum hálsi og staðið fyrir sýningu um skrælingjasýningar fortíðarinnar. Þegar hann fer í heimsóknir í franska skóla þá fer hann með heimskort með sér – nema kortið snýr öfugt við það sem við erum vön og skyndilega eru Evrópa og Suður-Ameríka efst á kortinu. „Ætlunin er að fá þig til að horfa á heiminn upp á nýtt – og sjá að ef þú komst frá Afríku þá getur hún verið í miðju heimsins ekkert síður en Evrópa eða Bandaríkin,“ sagði Thuram í viðtali við Guardian – og svo er bara spurning hvort sífellt litríkari fótboltalið Evrópu geti kennt okkur að sjá þennan gamla heim upp á nýtt.

Ásgeir H Ingólfsson

greinin birtist upphaflega í Fréttatímanum 24. júní 2016.