„Þú getur fundið tölfræði til að sanna allt,“ fullyrti heimspekingurinn Hómer J. Simpson eitt sinn og sem dæmi má fullyrða að Ísland vinni Evrópumótið þetta árið út frá því að árið 1992 urðu Danir óvæntustu Evrópumeistarar sögunnar og tólf árum seinna unnu Grikkir ennþá óvæntari Evrópumeistaratitil.

Þýðir það ekki örugglega að nú, einmitt tólf árum seinna, sé komið að Íslandi að vinna óvæntasta Evrópumeistaratitilinn þangað til Færeyingar taka titilinn árið 2028? Mögulega – en svo er líka rétt að hafa í huga að tólf árum á undan danska undrinu þá unnu Vestur-Þjóðverjar afskaplega fyrirsjáanlegan Evrópumeistaratitil. Sem sýnir kannski helst að það er hægt að sanna allt með tölfræði, svo framarlega sem hún er valin af nógu miklum hentugleik.

Að vera í göngunum

En hvað veldur því að hópur íþróttamanna nær mun betri árangri en nokkur reiknaði með? Fyrir því geta vitaskuld verið ótal ástæður, liðið var mögulega vanmetið til að byrja með, hugsanlega er þjálfarinn svona stórkostlega fær og stundum gengur einfaldlega allt upp. Á ensku er ósjaldan talað um að einhver sé „in the zone“ – illþýðanlegt hugtak sem kappaksturshetjan Ayrton Senna lýsti ágætlega með þessum orðum: „Skyndilega keyrði ég nærri tveimur sekúndum hraðar en allir aðrir, þar með taldir liðsfélagar mínir á sömu bílum. Og skyndilega áttaði ég mig á því að ég var ekki að aka bílnum meðvitað. Ég ók honum af eðlishvöt, það var eins og ég væri í annarri vídd, eins og ég væri í löngum göngum.“

Þetta svæði sem Senna lýsir kallast ágætlega á við það sem sálfræðingurinn Mihaly Csikszentmihalyi hefur kallað flæði – þegar einbeitingin er svo algjör að hámarksárangur næst. Það hvernig þú ferð á eitthvert órætt svæði í huganum – þar sem himininn og áhorfendastæðin og allir hinir bílarnir hverfa – er einfaldlega hluti af útilokun sem getur verið nauðsynleg til þess að ná hámarksárangri.

Þetta hljómar allt ósköp dulspekilega – og vissulega höfðu ýmsir austrænir spekingar fyrri alda sagt svipaða hluti og Csikszentmihalyi. En vísindin á bak við þetta snúast einfaldlega um að manneskjan nái að sigrast á takmörkuðum einbeitingarhæfileikum sínum. Hann segir flesta geta aðeins geta meðtekið 110 upplýsingabúta á sekúndu – sem virðist mikið, þangað til það kemur í ljós að einfaldar samræður geta kostað okkur 60 upplýsingabúta. Það eru smálegar upplýsingar allt í kringum okkur – og því er lykillinn að þeirri einbeitingu sem þarf til þess að ná góðu flæði sá að útiloka óþarfa áreiti og ná að gera sem mest ómeðvitað.

Það tekst með þjálfun og einbeitingu, en ekki síður gleði – og raunar byrjaði Csikszentmihalyi á að rannsaka hamingjuna. Hann lifði af helförina sem barn og velti mikið fyrir sér hvað olli því að flestir hinna fullorðnu virtust hafa misst gleðina. Sjálfur fann hann athvarf í hugaríþróttinni skák: „Ég komst að því að skákin var undratæki til þess að hverfa í annan heim þar sem ekkert af þessu skipti máli. Klukkutímum saman einbeitti ég mér bara af raunveruleika þar sem reglurnar og markmiðin voru skýr.“

Þetta skýrir mögulega ágætlega af hverju flæðið getur verið svona dýrmætt í íþróttum – sem snúast einmitt oftast um skýrar reglur og skýr markmið og margt af þessu varð hluti af kenningu hans um flæðið. Þess ber þó að geta að upphaflega var hann að rannsaka listamenn og það hvernig þeim tókst að týna sér í verkum sínum – þannig útilokar kenningin alls ekki sköpun og frumleika, þótt röng beiting hennar geti vissulega gert það.

Csikszentmihalyi telur upp nokkur lykilatriði til þess að ná flæði. Þeirra á meðal er nauðsyn þess að hafa skýr markmið, truflanir eru útilokaðar og áskorunin þarf að vera hæfilega erfið. Ekki of auðveld en ekki óyfirstíganleg, það er æskilegast að hún sé aðeins erfiðari en sem nemur getustigi okkar – því þá reynum við meira á okkur þangað til við komumst yfir hindrunina.

Hann leggur einnig áherslu á við hættum að vera sjálfsmeðvituð á meðan við erum í flæðinu – sem skýrir kannski hvernig flæði getur náðst innan hóps á borð við íþróttalið og jafnvel stuðningsmanna þeirra.

Þrautreyndir útbrunnir þjálfarar

„Hjá AC Milan náðum við því stigi að við vorum sem einn maður, hreyfðum okkur samstillt, á réttum tíma, í allar áttir.“ Svona lýsti varnarjaxlinn Franco Baresi hugarástandinu hjá einu sigursælasta fóboltaliði sögunnar. AC Milan var þó sannarlega ekki minnimáttar, liðið var forríkt og gat keypt allar stjörnurnar. Það var alveg hægt að ætlast til þess að liðsmenn þess ynnu titla – en þeir skoruðu tvisvar fjögur mörk í úrslitaleik Evrópukeppni meistaraliða, sem sýnir að þegar sterkustu liðin ná góðu flæði geta þau orðið yfirburðalið, ósigrandi – á meðan fyrir lítilmagnann þýðir gott flæði að hann geti unnið afrek sem enginn bjóst við, þótt yfirburðirnir séu sjaldnast til staðar.

Þegar leiðbeiningar Csikszentmihalyi til að ná góðu flæði eru skoðaðar minna þær töluvert á hugmyndir í nútíma kennslufræði, þar sem áherslan er lögð á að ná sem mestu út úr hverjum nemanda – og því er væntanlega hlutur þjálfarans stór, það er hann sem þarf að tryggja flæði hjá ellefu mönnum á sama tíma í gegnum langa og stranga keppni.

En þegar þjálfarar helstu spútnikliða sögunnar eru skoðaðir þá er ljóst að þótt töfraformúlan hafi mögulega fundist þá virkar hún sjaldan lengi í einu.

Sumir hafa unnið óvæntustu afrekin snemma. Sir Alf Ramsey hóf þjálfaraferilinn hjá Ipswich Town og kom þeim upp um tvær deildir áður en hann gerði liðið að Englandsmeisturum árið 1962 – þegar liðsmenn þess voru nýliðar í efstu deild. Hann gerði svo England að heimsmeisturum árið 1966 – sem þótti kannski ekki sérlega óvænt þá, en miðað við gengi Englands þessa hálfa öld sem hefur liðið síðan þá mætti kannski kalla það kraftaverk eftir á. Brian Clough var næsti stóri kraftaverkamaður enska boltans, hann kom Derby County upp í efstu deild og gerði þá að meisturum þremur árum síðar. Hann endurtók svo afrek Ramsey með því að gera Nottingham Forest að meisturum þegar þeir voru nýliðar – og bætti við tveimur Evrópumeistaratitlum í kjölfarið.

Swansea City v Leicester City - Premier League
SWANSEA, WALES – DECEMBER 05: Claudio Ranieri Manager of Leicester City looks on prior to the Barclays Premier League match between Swansea City and Leicester City at Liberty Stadium on December 5, 2015 in Swansea, Wales. (Photo by Ben Hoskins/Getty Images)

Þessi afrek voru rifjuð upp í vetur sem samanburður við óvæntan Englandsmeistaratitil Leicester City. Liðsmenn Leicester voru vissulega ekki nýliðar – það var árið áður þegar þeir þurftu kraftaverk til þess að halda sér uppi. En eftir umdeild þjálfaraskipti um sumarið spáðu flestir þeim niður síðasta sumar, enda virtust menn almennt sannfærðir um að tap gegn Færeyjum sem landsliðsþjálfari Grikkja væri staðfesting á því að Claudio Ranieri væri búinn að vera sem þjálfari. Ólíkt Clough og Ramsey er hann nú að blómstra við lok þjálfaraferilsins – en hann er þó ekki einn um það.

Ottó kóngur

Otto Rehhagel hafði unnið ófáa titla í Þýskalandi, fyrst með Werder Bremen og svo með Kaiserslautern – sem hann gerði að meisturum þegar þeir voru nýliðar. En hann entist ekki heilt tímabil hjá risunum í Bayern München og það fjaraði undan honum í Kaiserslautern; þegar hann flutti til Grikklands til þess að taka við gríska landsliðinu var hann maður gærdagsins í Þýskalandi, talinn útbrunninn. Það þótti nokkuð afrek að koma Grikkjum á Evrópumótið til að byrja með – og rétt eins og Ísland þá byrjaði Grikkland á að spila við Cristiano Ronaldo og félaga í Portúgal. Þeir unnu og komust áfram – og mættu svo Portúgölum aftur í úrslitaleiknum sjálfum.

RehhagelÞað skal ósagt látið hvort Lars Lagerbäck takist að endurtaka afrek Rehhagel, en hann á það sameiginlegt að semja við fótboltalega smáþjóð þegar ferillinn virtist farinn að dala. Honum gekk vissulega vel framan af með Svía en það var byrjað að fjara undan honum í lokin og honum mistókst að koma þeim á HM 2010 – en þar þjálfaði hann þess í stað Nígeríu með litlum árangri. Hann var vissulega stórt nafn fyrir lítið land eins og Ísland – en það var ekki verið að slást um starfskrafta hans árið 2011. En rétt eins og Ranieri og Rehhagel tókst honum að sanna rækilega að hann var ekki útbrunninn.

Óttinn við að mistakast

En mismunandi þjálfarar virka auðvitað fyrir mismunandi lið. Sumir virðast bæði geta stjórnað dvergum og risum; þeim Alex Ferguson og Jose Mourinho tókst til dæmis að vinna Evróputitla með liðum úr millistórum deildum í Evrópu áður en þeir gerðu það sama með risalið í stærstu deildum Evrópu.

Eitt af lykilatriðum flæðisins hans Csikszentmihalyi er að menn hafi ekki áhyggjur af að mistakast. Sá ótti er oftast minni hjá liðum sem enginn býst við að vinni neitt til að byrja með – en hjá meintum stórliðum sem mistekst ítrekað, eins og Englandi, þá getur sá ótti orðið lamandi. Þannig útskýrir Steven Gerrard, fyrrum landsliðsfyrirliði Englendinga, tapið gegn Íslandi; óttinn við mistök hafi alla tíð fylgt enska landsliðinu og hann játar að sjálfur hafi hann hugsað um, í miðjum leik, hver viðbrögðin yrðu heima fyrir ef þeir töpuðu og lýsir í raun einhverju sem getur kallast andstæðan við flæði: „Örvæntingin tekur völdin. Menn verða pirraðir. Menn frjósa og hætta að gera hlutina sem þeir vita að þeir eiga að gera. […] Það er engin ró í kringum landsliðið og hefur aldrei verið. Það er alltaf einhver móðursýki til staðar, það er óttamenning í kringum liðið og menn hafa ekki tekist á við hana.“

Þetta sást kannski best á svipnum á Jamie Vardy á mánudaginn. Hann hafði eytt vetrinum í að koma á óvart með Leicester og hafði, öllum að óvörum, verið óstöðvandi. Afrekið var það mikið að það varð að sögn, nú spyrja menn sig hvort Ísland ætli að „Leicestera“ þessa keppni? En þegar Vardy kom inn á í Nice var hann skyndilega kominn í nýtt hlutverk, hann var Davíðinn sem hafði gengið í lið með Golíötunum – og nú fann hann hvernig var að óttast alla íslensku Davíðana.

Sjóndaprir skíðastökkvarar

Lítilmagninn tekst á við risana og vinnur. Þessi saga er vissulega ekki jafn algeng og að risarnir staðfesti yfirburði sína – en þetta er sagan sem Hollywood elskar; það er þegar byrjað að vinna í bíómynd um Jamie Vardy (Íslendingar hjálpuðu handritshöfundunum sjálfsagt við að setja punktinn) og einhverjir frægustu lítilmagnar íþróttasögunnar eru þeir sem þóttu ekki einu sinni eiga erindi á stórmótið sem þeir urðu frægir fyrir. Jamaíska bobsleðaliðið á ólympíuleikunum 1988 var gert ódauðlegt í myndinni Cool Runnings og sjóndapri breski skíðastökkvarinn Michael Edwards, betur þekktur sem Örninn Eddie, fékk nýlega Hollywood-mynd um sig líka, Eddie the Eagle.

Hvorki Eddie né Jamaíka-mönnunum tókst þó að vinna neitt og urðu skúrkar í augum sumra sem fannst íþróttin vanvirt – en hetjur í augum annarra sem sáu að bara það að hafa verið með var í þessu tilfelli töluvert afrek, komandi frá löndum þar sem engar nær engar aðstæður voru til staðar til að stunda þessar vetraríþróttir. Þeir fyrrnefndu höfðu þó sigur – í kjölfarið voru reglurnar um þátttöku á ólympíuleikunum hertar til muna og því mögulega langt í álíka ævintýri.

Höfðatalan og fyrsta maraþonið

En hvernig skilgreinir maður lítilmagnann, hvaða skilyrði þurfa Davíðar heimsins að upplifa? Venjulega skiptir mestu máli að hafa ekki unnið nein sambærileg afrek áður og helst að gengið næstu misserin á undan hafi verið slakt, Leicester og Grikkland falla ágætlega undir þá skilgreiningu. Stundum geta þó Golítar skyndilega breyst í Davíð – Michael Jordan vann ekki mikil afrek þegar hann reyndi fyrir sér í hafnabolta en tékkneski hlauparinn Emil Zátopek gekk hins vegar mun betur að söðla um. Hann hafði unnið gull í bæði 5000 og 10000 metra hlaupi á ólympíuleikunum árið 1952, fæstum að óvörum – en það bjóst hins vegar enginn við að hann myndi vinna maraþonið líka, enda hafði hann aldrei hlaupið maraþon áður og skráði sig ekki í það fyrr en á síðustu stundu.

Uppáhaldið okkar Íslendinga er svo auðvitað höfðatalan – sem við þykjumst vinna allt á. En þótt við séum vissulega fámennasta þjóðin sem keppt hefur á Evrópumóti þá er ég ekki frá því að þriggja milljóna þjóð í Suður-Ameríku skáki okkur í höfðatölureikningi – en Úrúgvæ hefur unnið 2 heimsmeistaratitla og 15 Suður-Ameríkutitla, fleiri stórmót en bæði Brasilía og Argentína, sem eru sextíufalt og þrettánfalt fjölmennari. Sem þýðir að Ísland þarf helst að vinna þetta Evrópumót áður en við getum farið að kalla okkur Úrúgvæ norðursins.

Ásgeir H Ingólfsson

greinin birtist upphaflega í Fréttatímanum 1. júlí 2016.