Ímyndaðu þér að þú sért að fara yfir götu, götu sem telur átta akreinar, götu sem meira en milljón bílar keyra um daglega. Líklega horfir þú bara á alla þessa bíla og áttar þig á að þú ert ekkert að fara að fara yfir þessa götu. Þessi gata er til og heitir Boulevard Périphérique, 35 kílómetra sporöskjulaga steinsteypuskrímsli sem umvefur París. Hvergi í Evrópu er umferðin jafn þung og þarna í útjaðri borgarinnar. Nafnið sjálft þýðir útjaðar, Útjaðarsbreiðgatan, og hún liggur þar sem fyrr á öldum voru virkisveggir og síki til varnar innrásarmönnum.
Gatan markar vissulega útjaðar hinnar glæstu Parísar, borgar ástar og rauðvíns og virðulegra dómkirkja, en gatan er samt í raun í miðju Parísar – handan hennar liggja úthverfin, hin alræmdu banlieues. Arkitektinn Richard Rogers, sem unnið hefur að nýju borgarskipulagi fyrir París, segist enga aðra borg þekkja þar sem „hjartað er jafn aðskilið frá útlimunum“ – og þótt það séu ekki margir metrar frá borgarmörkunum til úthverfanna þá er vegalengdin samt oft óralöng því lélegar samgöngur eru á milli – enda virðist hreinlega ekki reiknað sérstaklega með því að þarna sé samgangur á milli. Nema auðvitað þegar kemur að ríkari úthverfum Parísar – þá tengja oftast þægileg undirgöng þau við borgina og sums staðar er Útjaðarsbreiðgatan sjálf neðanjarðar. En í fátækari úthverfum Parísar er því ekki að heilsa, þar hrynur húsnæðisverð um helming í einu vetfangi og þessi fátækrahverfi eru að stórum hluta byggð múslimum.
Bardaginn við Tours
Charles Martel var kallaður Hamarinn og var afi Karlamagnúsar en hann er frægastur fyrir að hrekja Mára í burtu frá Frakklandi í bardaganum við Tours árið 732. Þessi bardagi er enn kenndur í frönskum skólum og er sagður marka vatnaskil í sögu hinnar kristnu Evrópu, þar sem kristnir herir sigruðust á herjum Múhammeðs. Nú hrekja menn kannski múslima ekki í burtu í bardögum – en þeir hrekja þá í útjaðra borga og í frönsk fangelsi.

Um 60 til 70 prósent franskra fanga eru taldir vera múslimar – þótt hlutfall þeirra af þjóðinni sé ekki nema á bilinu 5 til 10 prósent (þessar tölur eru á reiki – enda leyfa frönsk lög ekki að spyrja fólk að trúarskoðunum í mannfjöldaskráningum). Til samanburðar má skoða fjölda blökkumanna í bandarískum fangelsum – en þar eru þeir þó aðeins um 40 prósent af karlkyns föngum (hlutfallið er helmingi lægra meðal kvenkyns fanga), en blökkumenn telja um þrettán prósent af mannfjölda Bandaríkjanna.
Það er fleira líkt með þessum hópum; báðir eru afkomendur nýlendustefnu fyrri alda, Bandarískir blökkumenn eru flestir afkomendur þræla og flestir franskir múslimar rekja ættir sínar til franskra nýlendna, um 70 prósent franskra múslima koma frá Alsír, Marokkó og Túnis, sem voru franskar nýlendur langt fram á tuttugustu öld.
Þessi lönd urðu franskar nýlendur á nítjándu öld – í seinni heimstyrjöldinni var byrjað að flytja fjölda karlmanna þaðan til þess að þjóna í franska hernum og starfa í frönskum verksmiðjum og kolanámum. Fram yfir síðari heimstyrjöldina voru þetta fyrst og fremst karlmenn, en það fór að breytast eftir stríð og fjölskyldurnar fóru að fylgja þessum verkamönnum – sem höfðu áður oft litið á dvölina í Frakklandi sem tímabundna en voru nú flestir farnir að líta á Frakkland sem sitt eiginlega heimaland.
En þegar alsírska frelsisstríðið skall á kom samt skýrt í ljós að Frakkar litu ekki endilega svo á. Parísarbúar af alsírskum ættum boðuðu til friðsælla mótmæla vegna útgöngubanns árið 1961 – og öryggissveitir frönsku lögreglunnar drápu um fimmtíu manns og særðu meira en þúsund. Líkunum var hent í Signu.
Þótt stríðinu hafi lokið ári síðar þá hélt undirskipun Alsírættaðra Frakka áfram og sömu sögu má segja um þá sem ættaðir voru frá nágrannalöndunum Morokkó og Túnis. Þeir voru neðst í röðinni þegar húsnæði var úthlutað, á eftir bæði Frökkum, innflytjendum frá Evrópu og franskættuðum Alsírbúum (sem kölluðust Pied-Noirs) sem fluttu aftur til föðurlandsins eftir stríð. Þeir þurftu því flestir að eyða einhverjum tíma í slömmum og gettóum.
Samtvinnuð örlög Frakklands og Alsírs þýddu líka að um hundrað þúsund alsírskættaðir hermenn börðust með Frökkum í stríðinu, oft gegn eigin vilja. Þeir eru kallaðir harkis og enn í dag er þeim og afkomendum þeirra bannað að flytja til Alsír og mega jafnvel þola útskúfun í heimi innflytjenda í Frakklandi, þar sem margir sem börðust með uppreisnarmönnum líta niður á þá sem hálfgerða svikara, jafnvel nokkrum kynslóðum seinna. Alsírskir hermenn höfðu líka barist með Frökkum í heimsstyrjöldunum tveimur – þeir fengu þó verri mat en frönsku hermennirnir, minna frí og voru ólíklegri til að fá stöðuhækkun – og löngu eftir stríð voru þeir svo sviknir um eftirlaunin sem hvítir kollegar þeirra fengu.

Alsírskættaði franski leikstjórinn Rachid Bouchareb gerði um þetta kvikmyndina Heimamenn (Indigènes) fyrir áratug síðan – og þá fengu nokkrir eftirlifandi norður-afrískir hermenn loksins hluta þeirra eftirlauna sem þeir höfðu sannarlega unnið fyrir. Aðalleikarar myndarinnar, sem nánast allir voru ættaðir úr norður-afrísku nýlendunum gömlu, komu hins vegar af fjöllum þegar þeir heyrðu hvernig forfeðrum þeirra hafði verið mismunað; saga minnihlutahópa gleymist oft fyrst, jafnvel meðal þeirra sjálfra.
Frakkland fær raflost
Árið áður en myndin var frumsýnd voru þeir Muhittin, Zyed og Bouna á leiðinni heim af fótboltaæfingu. Muhittin og Zyed voru sautján ára og Bouna fimmtán. Þeir vildu komast heim tímanlega fyrir kvöldmat, áður en Ramadan skylli á. En þá beygir lögregubíll í veg fyrir þá. Þeir höfðu ekkert gert af sér en það er líklega til marks um djúpstætt vantraust milli múslímskra ungmenna í úthverfunum og lögreglunnar að þeirra fyrsta viðbragð var að flýja, enda sýna tölur að lögreglan er sexfalt líklegri til að stöðva múslima en aðra Frakka. Þeir földu sig í spennustöð – og fengu raflost sem kostaði þá Zyed og Bouna lífið, Muhittin lifði af þrátt fyrir alvarleg brunasár.

Í kjölfarið brutust út verstu óeirðir sem höfðu átt sér stað í Frakklandi í um 40 ár. Ungt fólk, sem mátti þola fátækt, kerfisbundið atvinnuleysi og ítrekaða mismunun, hafði loksins fengið nóg. Þeim tókst að beina augum heimspressunar tímabundið frá gliti Eifell-turnsins og yfir á malbiksskrímslið á útjaðrinum, þangað sem engir túristar koma.
Vorið eftir var svo Heimamenn frumsýnd á Cannes – og aðalleikararnir deildu með sér verðlaunum fyrir bestan leik. Þegar Roschdy Zem, einn aðalleikarana, var spurður út í óeirðirnar árið áður svaraði hann: „Mér fannst sérstaklega andstyggilegt hvernig óeirðir voru útmálaðar sem kynþátta- og trúarmótmæli. Þegar lestarstarfsmenn stöðva umferð í Frakklandi þá spyr engin um annað en kröfur þeirra, ekki litarhaft eða trú. Taktu hvaða Norðmann eða Svía sem er, láttu þá búa í úthverfunum í einhver ár og láttu þá þola þau lífsskilyrði sem þar bjóðast, þá get ég ábyrgst að þeir myndu enda á að kveikja í bílum líka.“
Fátækt, trúfrelsi og kynslóðastríð
Zem orðar þarna ágætlega hvernig barátta franskra múslima er oft frekar stéttarbarátta en trúarátök. Trúin hefur þó sannarlega átt undir högg að sækja frá upphafi. Það má vitaskuld leita allt aftur til bardagans við Tours fyrir nærri 1300 árum en látum okkur duga að fara aftur um rúma öld eða svo, árið 1905 nánar tiltekið, þegar hugtakið Laïcité var fest í lög. Þetta er illþýðanlegt hugtak sem snýst um aðskilnað ríkis og trúarbragða, upphaflega ætlað til þess að tryggja aðskilnað ríkis og kirkju og þá grundvallarreglu að engin eiginleg ríkistrú væri í Frakklandi; með öðrum orðum til að tryggja trúfrelsi.
Menn voru ekki mikið að hugsa um múslima í þessu samhengi þá, enda voru múslimar ættaðir frá Norður-Afríku þá þegnar Frakklands en ekki fullgildir borgarar. Undanfarna áratugi hefur þó hugtakinu hins vegar ítrekað verið misbeitt til þess að berja á múslimum. Misbeitt því upphaflega var trúfrelsi innifalið í hugtakinu, en nú er því ítrekað beitt til þess að skerða frelsi múslima til að iðka trú sína, reglur sem eru aðeins ætlaðar ríkisreknum skólum eru teygðar yfir í allt opinbert líf – þótt sömu meðölum sé sjaldnar beitt til að berja á kristnum trúartáknum.
Þetta hefur mest áhrif á múslimskar konur, enda hefur þetta verið notað til að banna ákveðnar tegundir af slæðum og fatnaði í almannarými – og menn hafa deilt hart um hvort þetta geri múslimum auðveldara að aðlagast frönsku samfélagi eða hvort þetta auki aðeins á jaðarsetningu þeirra.
Oft er það raunar fyrst og fremst jaðarsetningin og upprunin sem gerir franska múslima að múslimum; margir þeirra iðka trúna lítið eða jafnvel alls ekki. Það var ekki spurt um hversu heittrúaðir þeir voru þegar lögreglan gerði tilefnislausar húsleitir hjá múslimskum fjölskyldum og fyrirtækjum í kjölfar hryðjuverkaárásanna í nóvember í fyrra sem og í kjölfar morðanna á teiknurum Charlie Hebdo árið áður. Neyðarlög og harðlínustefna stjórnvalda gagnvart hryðjuverkum var einfaldlega notuð til að gefa lögreglunni frítt spil til þess að niðurlægja saklausa borgara.

Þetta náði alla leið niður í barnaskólana. Átta ára piltur var dreginn niður á lögreglustöð og tekin af honum skýrsla. Glæpurinn? Að neita að segja „Je suis Charlie.“ Þegar hann var spurður hvort hann vissi hvað hryðjuverkamaður var þá var svarið nei. Nemandinn var átta ára gamall. Þetta mál rataði í heimsfréttirnar en það átti ekki við um fjöldan allan af svipuðum tilfellum þar sem kennarar og skólastjórnendur niðurlægðu börn af múslimaættum í kjölfar bæði hryðjuverkaárásanna og morðanna á skopmyndateiknurunum á Charlie Hebdo.
Þegar bakgrunnur franskra jíhadista og hryðjuverkamanna síðustu tuttugu ár er skoðaður kemur svo í ljós að fæstir þeirra voru sérstaklega trúaðir, þeir eru þvert á móti flestir mjög vestrænir í háttum og höfðu drukkið áfengi, reykt gras og farið á kvennafar á næturklúbbum rétt eins og aðrir franskir unglingar. Stærstur hluti þeirra hafði dvalið í fangelsi. Sumir þeirra voru af múslimaættum en gáfu ekkert fyrir trúna og aðrir voru hvítir íbúar sömu úthverfanna sem snérust til múhameðstrúar rétt áður en þeir gerðust jíhadistar. Þeir voru ýmist annarrar kynslóðar innflytjendur eða af frönskum uppruna og höfðu snúist til múslimatrúar.
Blaðamaðurinn Olivier Roy hjá Foreign Policy telur þetta til marks um að þetta sé fyrst og fremst ofbeldisfull kynslóðauppreisn, uppreisn kynslóðar sem telur Frakkland hafa hafnað sér og leitar farvegs fyrir alla sína heift í Isis eða Al-Kaída eða hverjum þeim farvegi sem er til staðar hverju sinni. Þannig sé trúin aðeins hækja fyrir uppreisnargirni jaðarsettra og fátækra hópa þjóðfélagsins, eða öllu heldur þeirra áhrifagjörnustu og ofbeldisfyllstu í þeim stóra hópi.
Þannig er hin íslamska trú notuð sem hækja, bæði til að berja á milljónum múslima í Frakklandi sem og af þeim örlitla minnihluta múslimskra ungmenna sem nota hana í uppreisn sinni gegn samfélaginu sem hafnaði þeim. Svar þjóðfélagsins er því miður oftast að hafna þeim meira, færa þá enn lengra út á jaðarinn. Á meðan færist hjartað enn fjær útlimunum og bílarnir æða framhjá og dýpka gjána á milli útópíunnar um Frakkland og þeirra sem Frakkland hefur hafnað.
Ásgeir H Ingólfsson
greinin birtist upphaflega í Fréttatímanum 29. júlí 2016.