Um pólska alræðisstjórn, valdamikla tvíbura og umdeilda fóstureyðingalöggjöf.

Það var í herbergiskytru á tékkneskri heimavist seint á síðustu öld sem ég fór að átta mig betur á trúmálum í gamla austrinu. Piotr, pólski herbergisfélaginn minn, var að rifja upp þegar páfinn kom til Póllands árið 1983. Þangað mættu milljónir Pólverja og þetta var hátíðleg stund, þau sungu ættjarðarlög með laglínum á borð við „Kæri Guð, færðu okkur aftur frjálst föðurland“ – og svo endaði Piotr söguna með þessum orðum: „Þetta var eina skiptið sem okkur fannst við vera frjáls.“

CROWD CHEERS POPE IN POZNAN, POLAND
Jóhannes Páll Páfinn í einni af Póllandsheimsóknum sínum.

Það að páfinn hafi verið pólskur og barist gegn kommúnismanum hefur örugglega ekki haft lítil áhrif á það að Pólverjar eru um þessar mundir lang trúaðasta þjóð Evrópu. En það á sér þó dýpri rætur. Á meðan nágrannar þeirra í Tékklandi, trúlausasta þjóð álfunnar, fengu að stóru leyti útrás fyrir þjóðfrelsisbaráttu sína í erjum gegn erlendum trúarhöfðingjum og erlendum kirkjum var þessu öfugt farið í Póllandi, þar var kirkjan iðulega vettvangur fyrir andspyrnu gegn erlendu yfirvaldi.

Pólland var stórveldi langt fram á átjándu öld en þegar komið var fram á þá nítjándu var Pólland ekki til lengur til sem ríki, mismunandi hlutar landsins voru undir yfirráðum Rússa, Prússa og Habsborgara og þeir voru gjarnir á að banna pólsku í skólum og jafnvel á almannafæri. Pólskir menntamenn voru margir í útlegð og oft var sveitapresturinn eini menntamaðurinn til sveita, stundum sá eini sem gat séð um kennslu – og kirkjurnar voru oft einu staðirnir þar sem menn gátu óhræddir talað – og sungið – pólsku.

Þessu hlutverki gegndi kaþólska kirkjan líka þegar Þjóðverjar og Rússar hernámu landið í seinni heimstyrjöldinni og áfram á tímum kommúnismans, þegar kaþólska kirkjan gat sótt aukinn styrk til pólsks páfa.

Páfinn þarf samt ekki að vera pólskur til að fólk mæti – það mættu meira en milljón manns til þess að hlusta á ræðu Francis páfa í Póllandi í fyrrasumar. En það hefur þó ýmislegt breyst. Páfinn hvatti menn til að taka vel á móti flóttamönnum og fékk sýrlenskan flóttamann upp á svið með sér til þess að segja sögu sína. Þegar kemur að málefnum flóttamanna þá er páfinn á öndverðum meiði við pólsku ríkisstjórnina, rétt eins og forveri hans var á öndverðum meiði við kommúnistastjórnina um flest – en það sem hefur hins vegar breyst er að núna er pólska kirkjan með ríkisstjórninni í liði. Hægri stjórninni sem hefur reynt að sölsa undir sig fjölmiðla og gera réttarkerfi landsins sér auðsveipt, hægri stjórninni sem Evrópusambandið fylgist með, tilbúið að grípa inn – því sambandið óttast það að ríkisstjórnin eyðileggi mögulega lýðræði í Póllandi endanlega ef hún gengur mikið lengra.

Tvíburinn sem stýrir Póllandi

Til þess að átta okkur betur á bakgrunni þessarar hægri stjórnar skulum við rifja upp upphaf og endalok kommúnismans í Póllandi. Þýskaland og Sovétríkin lögðu Pólland í sameiningu undir sig í upphafi heimstyrjaldarinnar síðari – en þegar Sovétmenn urðu skyndilega bjargvættir þeirra í lok stríðs þá hófust þeir handa við að endurskrifa söguna og kenna Þjóðverjum um allt hernámið, gera þá og hin kapítalísku Vesturlönd að óvininum – og festa þar með kommúnismann og sovésk áhrif í sessi, með leppstjórn fjarstýrða frá Moskvu. Og þótt hægri stjórnin núverandi telji sig svarna óvini gömlu kommúnistanna þá nota þeir sömu taktík, rifja upp yfirgang Rússa og Þjóðverja við hvert tækifæri til þess að ala á útlendingahatri og gera Evrópusambandið tortryggilegt.

Tímarit sem eru höll undir ríkisstjórnina hafa teiknað Angelu Merkel upp í nasistabúningi og illar tungur segja leynilögregluna Stasi hafa komið henni til valda, á meðan raunin er sú að ímyndin um vonda Þýskaland var stór hluti þess sem kom hægri stjórninni til valda.

LechWalesa
Andspyrnuleiðtoginn Lech Walesa veitir eiginhandaráritanir árið 1980.

En kommúnisminn leið undir lok í Póllandi árið 1989 – og það mátti þakka Samstöðu, sem var líklega öflugasta andspyrnuhreyfingin í Austur-Evrópu. Þar var Lech Walesa, eldklár og sjarmerandi verkamaður, ótvíræður leiðtogi. Walesa tók þó ekki við embætti strax. Hann hafði augastað á forsetaembættinu – en málamiðlanir höfðu hagað því þannig að kommúnistaleiðtoginn Jaruzelski varð áfram forseti um hríð á meðan Tadeusz Mazowiecki, lærifaðir Walesa, varð forsætisráðherra. En umskiptin yfir í markaðshagkerfi voru ekki átakalaus og eins þótti mörgum Samstaða hafa gefið gömlu kommúnistunum of mikið eftir.

Gamlir kommúnistar tóku til sín mikið af hagnaðinum þegar ríkisfyrirtæki voru einkavædd og þegar Jaruzelski yfirgaf loks sviðið í desember 1990 var óánægjan mikil, bæði hjá almenningi og hjá lægra settum meðlimum Samstöðu. Meðal þeirra voru tvíburarnir Lech og Jaroslaw Kaczynski. Þeir höfðu verið barnastjörnur eftir að hafa leikið í bíómyndinni Þessir tveir sem stálu tunglinu þrettán ára gamlir – og á endanum átti annar þeirra eftir að stela heilu landi.

Jaroslaw var ekki hátt settur á þessum tíma, en þetta var hans tækifæri. Hann klauf sig úr flokknum og þegar innbyrðisátökin náðu hámarki þegar gömlu baráttufélagarnir Tadeusz Mazowiecki og Lech Walesa börðust um forsetaembættið þá hafði hann komið sér í stöðu helsta ráðgjafa Walesa og var verðlaunaður með góðri stöðu innan stjórnarráðsins eftir sigur hans. En Walesa fékk fljótlega nóg af Jaroslaw og losaði sig við hann – og þeir hafa verið svarnir óvinir allar götur síðan.

Jaroslaw hefur reynt að grafa undan Walesa með sögum um meint samstarf hans við kommúnista á áttunda áratugnum og í dag er Walesa einn harðasti andstæðingur Jaroslaws – sem nú er orðinn valdamesti maður Póllands.

Lengst af var hann hluti af öflugu tvíburateymi sem komst fyrst til valda um miðjan síðasta áratug, Jaroslaw sem forsætisráðherra og Lech sem forseti. Þótt þeir litu nákvæmlega eins út skildi skapgerðin á milli – og þar bættu þeir hvor annan upp. Jaroslaw þykir snjallari pólitíkus en um leið þykir hann alls ekki viðkunnalegur, sérlundaður einfari sem kann hvorki á bíl né tölvu, auk þess sem hann neitar að halda bankareikning og þarf því iðulega að fá greitt í reiðufé. Lech var hins vegar alþýðlegur húmoristi sem lífið lék við, hann fiskaði atkvæðin á meðan Jaroslaw plottaði. En Jaroslaw tapaði kosningunum árið 2007 og það var útlit fyrir að Lech myndi tapa forsetaembættinu árið 2010. Sem hann og gerði – en ekki í kosningum.

Flogið yfir blóðuga velli

Ófáar þjóðir Evrópu eiga sína sorgarvelli. Gyðingar eiga Auschwitz og Pólverjar eiga Katyn. Áður en gyðingum var slátrað af Þjóðverjum í Póllandi hafði Pólverjum nefnilega verið slátrað í Katyn, skóglendi í vesturhluta Rússlands. Þar slátraði rússneska leyniþjónustan meira en 20 þúsund pólskum hermönnum á vordögum 1940. Rússar kenndu á sínum tíma Þjóðverjum um voðaverkin og á kommúnistatímanum var Katyn bannorð – það gat verið hættulegt að svo mikið sem minnast á voðaverkin, en á endanum viðurkenndi Gorbatstjof þó ábyrgð Sovétmanna á harmleiknum. Þessu til viðbótar var Katyn staðurinn sem kommúnistastjórnin lagði á ráðin um að koma mörgum helstu menntamönnum Póllands fyrir kattarnef stuttu eftir stríð. Til þess að breiða yfir samvinnu sína við nasista þá máluðu Sovétmenn pólsk stjórnvöld fyrir stríð sem barbaríska fasistastjórn og sama gilti um ótal pólskar stríðshetjur sem urðu ofsóttar eftir stríð.

KatynWajda
Ein af síðustu myndum pólska meistarans Andrzej Wajda fjallaði um harmleikinn í Katyn.

Katyn virtist þannig vera skurðpunkturinn þar sem öll ógæfa Póllands rennur saman í – og sú tilfinning ágerðist bara þegar minnast átti atburðanna 70 árum síðar, árið 2010. En í stað þess að minnast gamallar sorgar soguðust Pólverjar inní þoku nýrrar sorgar. Þokan var svo þykk að það sá ekki út úr augum þegar flugvél, með Lech Kaczynski forseta og eiginkonu hans innanborðs, brotlenti á leið sinni á minningarathöfnina. Í vélinni voru líka seðlabankastjóri Póllands, 18 þingmenn, flestir yfirmenn hersins og nokkrir afkomendur fórnarlamba hins upprunalega harmleiks. Það voru 96 manns um borð í vélinni og enginn lifði af. Minningarathöfn gat af sér aðra minningarathöfn.

Niðurstaðan var einföld; slys. Einhverjir héldu því þó fram að Lech forseti hefði beitt óþarfa þrýstingi, heimtað að reynt yrði að lenda þrátt fyrir ómöguleg veðurskilyrði, því hann vildi ekki verða of seinn. Þetta var upphafið að kosningabaráttunni og það var útlit fyrir að hún yrði nógu erfið án þess að hann myndi missa af eða verða of seinn á þennan lykilviðburð. Einnig hefur verið talað um að þeir bræður hafi verið í símasambandi og Jaroslaw hafi þrýst á Lech að halda förinni áfram.

En opinberlega dylgjar Jaroslaw þó iðulega um að Kreml hafi borið ábyrgð á slysinu, þótt ekkert benti til þess. Það passar hins vegar vel við söguskoðun þar sem Rússar eru hinn eilífi óvinur og þannig reyndist þetta slys svo síðasta bragðefnið í þann eitraða kokteil sem átti eftir að gera hann að valdamesta manni Póllands. Eftir slysið hefur hann ávallt gengið um svartklæddur – skuggi hins látna bróður hangir yfir honum og Póllandi öllu.

Konurnar sem mótmæltu

Mögulega var harmleikurinn akkúrat það sem Jaroslaw þurfti til þess að ná völdum aftur. Hann fékk kirkjuna í lið með sér og náði þar með góðu taki á landsbyggðinni – og bætti í með útlendingahatri og paranoju, ýkti upp úr öllu valdi ógnina sem stóð af Þýskalandi, nú öflugasta landi Evrópusambandsins, og Rússlandi. Það er skautað vandlega fram hjá því að þetta sé breyttur heimur – fornir óvinir Póllands bíða enn við hvert fótmál í heimsmynd Jaroslaws og vilja þar að auki eyðileggja gömul og góð pólsk gildi með vafasamri vestrænni frjálshyggju.

Það er hellingur af Pólverjum í borgum á borð við Varsjá og Kraká sem eru hjartanlega ósammála áherslum Jaroslaws – en bakland hans er í afskekktum sveitum þar sem menn telja sig svikna af landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins, íhaldssömum samfélögum þar sem kirkjan ræður og vestrænt frjálslyndi á lítt upp á pallborðið.

Með þessu náði hann að búa til eitraðan kokteil þar sem þjóðernishyggja, byggð bæði á raunveruleika pólskrar sögu – þegar nágrannaríkin réðust á Pólland, sem og á Moskvulyginni sem ýkti allar syndir Þjóðverja og dró úr syndum þeirra sjálfra til að tryggja eigin stöðu. Þýskaland og Rússland urðu því grýlurnar, byggðar á eldgamalli heimsmynd, að ógleymdum flóttamönnunum, sem Jaroslaw fullyrðir að „færi kóleru til grísku eyjanna, blóðkreppusótt til Vínarborgar og alls kyns sníkjudýr að auki.“

Með þessa stefnu í farteskinu tókst flokknum hans, Lög og réttlæti (skammstafað PiS), að ná 37,5 prósentum atkvæða – sem dugði til hreins meirihluta í pólska þinginu (þar hjálpar að fimm prósenta þröskuldurinn sem er í gildi hérlendis er átta prósent í Póllandi). Jaroslaw sjálfur gegnir þó engu embætti öðru en að vera formaður flokksins. Hann virðist mjög meðvitaður um eigin skort á kjörþokka, þannig að hann fær samflokksmenn sína til þess að taka að sér embætti forseta og forsætisráðherra – en það efast þó fáir um að hann ráði því sem hann vilji ráða bak við tjöldin. Hér ber þó að taka fram að þótt flokkurinn sæki í smiðju öfgahægriflokka þegar kemur að afturhaldssömu siðferði þá hjálpaði mikil áhersla flokksins á bætt velferðarkerfi honum líka að ná kjöri, sérstaklega stórbættar barnabætur.

Þótt ríkisstjórnin hafi sætt harðri gagnrýni fyrir að múlbinda fjölmiðla og dómstóla landsins þá urðu það hins vegar pólskar konur sem urðu loks til þess að ríkisstjórnin þurfti að hörfa. Kornið sem fyllti mælinn var frumvarp um hertari fóstureyðingalöggjöf – og er sú löggjöf nú þegar ein sú strangasta í Evrópu. Fóstureyðingar eru nú þegar bannaðar – nema ef líf móður er í hættu eða ef þungunin varð vegna nauðgunar eða sifjaspells. Nú átti meira að segja að girða fyrir þetta – og um leið hætta lífi fjölda kvenna. Þess ber að geta að undanfarin ár er talið að um þúsund löglegar fóstureyðingar séu framkvæmdar árlega í Póllandi – en því til viðbótar séu 80 til 190 þúsund fóstureyðingar sem eru annað hvort framkvæmdar ólöglega við misjafnar aðstæður eða á erlendum spítölum.

Nýju lögin urðu til þess að pólskar konur fengu nóg. Ekki bara þær frjálslyndari, heldur líka margar sem studdu það bann sem þegar var við fóstureyðingum. Þær mættu svartklæddar á götur Póllands og mótmæltu, fóru í verkfall að íslenskri fyrirmynd – og tókst loks að láta ríkisstjórnina bakka og lögin voru dregin til baka stuttu síðar. Mótmælin munu vafalaust verða vatn á myllu andspyrnuhreyfingunnar KOD, sem minnir um margt á Samstöðu en hefur ekki enn tekist að ná sömu breiðu samstöðunni meðal mismunandi þjóðfélagshópa – sem stendur er hópurinn borinn uppi af menntaðri millistétt og hefur ekki enn náð til yngri Pólverja á vinstri vængnum eða til landsbyggðarinnar.

Það á enn eftir að koma í ljós hvort þetta var bara hraðahindrun á valdabraut Jaroslaw Kaczynski og félaga eða upphafið að endanum. Þótt Pólverjar séu margir hallir undir þjóðernishyggju eru þeir líka Evrópusinnar – um þrír fjórðu hlutar landsmanna vilja vera áfram í Evrópusambandinu og tíminn einn mun leiða í ljós hvort framtíð þeirra verður þar eða í harðstjórnarfaðmi Jaroslaws.

Ásgeir H Ingólfsson

greinin birtist upphaflega í Fréttatímanum 11. nóvember 2016.