„Hvað er fair trade?“ er ljóð eftir Bryndísi Björgvinsdóttur úr hennar fyrstu og enn sem komið er einu ljóðabók, Ég hata alla! En hvað er fair trade? Jú, sanngjörn viðskipti þar sem enginn er arðrændur – það er svona almenni skilningur nútímamannsins á fair trade. Sanngjörn skipti væri önnur möguleg þýðing, sem kemur fyrir í ljóðinu. En mögulega segir það eitthvað um íslenskuna að við höfum ekki þýtt hugtakið almennilega ennþá, þannig að það endar á ensku í ljóðunum okkar.

Allavega;

Heimurinn er bastarður,
afkvæmi  vestan hafs og austan

BryndísBjörgvins
Bryndís Björgvinsdóttir / Mynd: Forlagið

Þetta er heimsmyndin sem við fáum í upphafi – og í kjölfarið kemur falleg mynd af rasistunum að flýja öldurnar, sem koma jú frá útlöndum, hin endanlega einangrunarstefna. Bókin er frá 2009, á þessum notalegu en ógnvænlegu dögum rétt eftir hrun, þegar allt var að fara til andskotans en allt var samt mögulegt. Þetta var fyrsta bókin í smábókaflokki Nýhil, fimm litlar bækur sem komu út á sama tíma. En sorrí, þetta á ekki að fjalla um ljóðabækur – bara stök ljóð – og á meðan rasistarnir flýja öldurnar situr ljóðmælandi og drekkur kaffi. Eins og ljóðmælendur eru ansi gjarnir á að gera. Þetta er fair trade kaffi – og ljóðmælandinn ímyndar sér tortímingu alheimsins sem fair trade, þar sem okkur væri refsað fyrir misskiptinguna með því að verða að lítilli ljótri kaffibaun í næsta svartholi. Þannig virðir ljóðmælandinn titil bókarinnar, hatar allra – eða ímyndar sér að minnsta kosti tortímingu okkar allra. Auðvitað væri það samt ekkert fair, ekkert sanngjarnt, að refsa öllum fyrir syndir hinna fáu. En ljóðmælandinn veit að stundum þarf að gera meira en gott þykir, þegar kemur að því að endurskipuleggja alheiminn.

Og þegar maður virðir þennan ljóðmælanda fyrir mér, þarna í Nauthólsvíkinni (er þetta ekki annars Nauthólsvík, hvar annars staðar var hægt að fá fair trade kaffi í fjörunni árið 2009?) þá fatta ég hver þetta er; þetta er auðvitað erkiskúrkurinn Thanos að vinna í hugmyndum sínum um endurskipulagningu alheimsins. Hann hefur vissulega þróað þær nokkuð á þessum árum sem liðin eru – en hugmyndin er til staðar, kannski hefur hún kviknað einmitt þarna, í Nauthólsvíkinni, þar sem rasistarnir flúðu öldurnar á meðan kaffibaunin frá Gvatemala lauk ferð sinni í maga Thanosar. Kaffibaunin sem tortímdi heiminum.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson