Fræ sem frjóvga myrkrið eftir Evu Rún Snorradóttur er ljóðabók með verndargyðju. Það er hún Baubó, gleymd gyðja sem er lýst svo í upphafi bókar: „Hún kom á sorglegustu augnablikunum í helgiathöfnum og harmleikjum og sýndi á sér píkuna til að létta stemninguna. Hún táknar gamansamt og leikandi kynfrelsi kvenna.“
Þegar best lætur gegnir bókin ekki svo ósvipuðu hlutverki og Baubó, en því miður er eins og Baubó vakni ekki fyrr en um miðja bók. Þetta er nefnilega tvískipt bók, í tveimur hlutum, gjörólíkum – þeir gerast meira að segja á sitt hvorri öldinni, sá fyrri árið 1999 og sá síðari í nútímanum.
Fyrri hlutinn ber titilinn „Far til að sýna öllum heima“ og gerist að mestu á spænskri sólarströnd – og þar er farið inní allar klisjurnar og fátt spennandi gert með þær. Fátt er í heiminum óljóðrænna en Íslendingar á sólarströnd, en jafnvel þar gæti nú samt alveg fundist eitthvað gull, en það finnst ekki hér. Ekki fyrr en alveg undir lok kaflans þegar við fáum nokkuð lunkna samfarasinfóníu, átján samfarir í einu ljóði, góðar og vondar, nærandi og heilandi en líka skemmandi og tæmandi. En mögulega er sú sem ekki varð sú sem mestu skipti: „Samfarir við stelpuna í framköllunarstofunni ef þú hefðir bara þorað að segja eitthvað.“
Maður áttar sig betur á því í seinni hlutanum hvað stelpan í framköllunarstofunni skipti hana miklu máli, þegar hún er komin út úr skápnum – og orðin fullorðin, jafnvel miðaldra. Seinni hlutinn er fjölbreyttari og betur ortur, miklu betri bók einfaldlega, og einkennist af prósaljóðum og nokkrum myndljóðum. Fókusinn er svo fyrst og fremst á tvennu; því að vera lesbía og, eftir því sem á líður, því að vera kona.

Í upphafi seinni hlutans talar hún um leyndarmál. „En þegar við loksins greinum frá þeim er eins og massi þeirra gufi upp, þau fuðra upp í munninum á okkur. Verða jafnvel annarlega skondin og veðruð af tímanum eins og litríkir trúðar á gömlum afmæliskortum.“
Og hver veit, mögulega var fyrri hlutinn bara þessir litríku trúðar? Ljóðið „Píkan á Þorrablóti“ er svo uppgjör við smábæjar-Ísland, það að koma út úr skápnum en þó sérstaklega ólgandi skemmtileg frelsisyfirlýsing.
„Aurskriða“ er svo merkilega öflugt #metoo ljóð og upptaktinum af þeirri baráttu og annarri kvennabaráttu er ágætlega lýst í „Stelpur,“ sem hefst á orðunum:
Líf okkar er salerni
þar sem er ekki ruslafata
og líkur með orðunum:
Innri stíflur okkar við það að bresta
með hávaða sem skekur alla tilvistina.
„Vinátta kvenna“ er systraljóð „Stelpna,“ þar sem þeirri vináttu er lýst sem eilífðarvél: „Innra gangverk allra samfélaga. Vináttu okkar halda engin mörk, engin landamæri, engar umferðarreglur, engin skriffinnska, boðorð eða lóðamörk.“
Formæðurnar fá líka sitt ljóð, „Vofur saumaklúbbana“ og þar er eiginlega skemmtilegast að fá forna gælunafnahefð alla upp á borðið í einu, það er heil kynslóð bara í þessum nöfnum; Sísí, Dódó, Dídí, Pússí, Gógó, Lóló og Bíbí.
Síðustu tvö ljóðin taka svo utan um lífið allt, samanber titlana: „Til barna“ og „Að deyja“ – og það næstsíðasta er einfaldlega það besta í bókinni. Þetta er óður um sársaukann og mikilvægi hans:
Farið ekki á mis við sársaukann.
Varist það að deyfa ykkur og tæta
gera ykkur ónæm og aftengd því að lifa.
Þegar lífið ber ykkur ofurliði, grátið.
Að því loknu er lokaljóðið svo eðlilegt framhald. „Að deyja.“
Texti: Ásgeir H Ingólfsson
Rýnin birtist upphaflega í Reykjavíkurblaðinu 15. desember 2018.