Tregahandbókin

Magnús Sigurðsson

Magnús Sigurðsson hefur gefið út sex ljóðabækur, þrjár ljóðaþýðingar, ritgerðasafn og smásagnasafn – og þessi upptalning skiptir máli þegar rætt er um hans sjöttu ljóðabók, Tregahandbókina. Magnús hefur áður blandað eigin ljóðum saman við þýðingar, en í þessari bók mætast allir þessir þræðir (að smásögunni undanskilinni), þræðir frumsaminna ljóða og ljóðaþýðinga, og bókin öll er ákveðinn vísir að ritgerð sem mögulega verður aldrei skrifuð.

Þetta er í raun eins og glósubók ljóðskáld að læra sína bókmenntafræði, hvort sem er í skóla eða sjálfsnámi. Eins og allar góðar glósubækur blandast hér saman beinar tilvitnanir, eigin hugleiðingar og útúrdúrar – þið vitið, þessir sem verða til þegar manni leiðist í tíma.

Það má líka ímynda sér að þetta séu minnispunktar fyrir langa ritgerð eða fræðirit sem aldrei varð skrifað – eða verður máski skrifað einn daginn, hver veit?

Þetta er ljóðabók um þýðendur, um bækur og bókaást og um ljóðið, óður til þýðinga og möguleika ljóðabókarinnar, bútasaumsteppi úr eigin hugsunum og annarra.

Bókin hefst á tilvitnun í Þorstein frá Hamri: „Mér er í mun að setja heiminn saman“

Magnúsi er það líka í mun – og hann setur heiminn saman úr tilvitnunum í aðra höfunda, blandaða eigin hugrenningum. Stundum kallast hann á við tilvitnanirnar, stundum lætur hann þær kallast á hvor við aðra, eins og á fyrstu síðu bókarinnar þar sem Shakespeare, Emily Dickinson, Nikos Kazantzakis og i leikhúsgagnrýnandinn Vivian Mercier kveðast á um ekkertið og möguleika þess.

Maður verður vissulega örlítið ringlaður á köflum í þessum höfundaflaumi, ekki alveg viss hvað er frumsamið af Magnúsi sjálfum – en ætla þó að það séu þær línur sem engum er eignaðar. Ef svo er, þá eru fyrstu frumsömdu línurnar ákveðið manifestó bókarinnar:

Andráin og aldirnar
þær tala ekki
sama tungumál

Einhver verður að túlka
samtal þeirra

Löngu seinna í bókinni segir hann okkur svo í hvaða hefð hann er að yrkja, „Cento: bókmenntaverk sem samanstendur af tilvitnunum í aðra höfunda.“ En þó ekki alveg, hann er sjálfur hérna líka. Held ég.

Á næstu síðum blandast svo þýddir textar saman við aulabrandara og krossapróf, það passar við þemað en á tímabili dregur það úr bókmenntagildinu – en þegar á líður verða textar Magnúsar sjálfs alvarlegri. Það er þó stundum heilmikið gildi í útúrsnúningunum og misheyrninni, samanber misheyrn fimm ára frænkunnar um „útfjör“ og ég velti fyrir mér hvort hún hafi heyrt brandarann um að maður geti ekki stafsett „funeral“ án þess að nota orðið „fun.“

Treginn treður sér svo í útúrsnúninga á dægurlögum:

Þangað liggur beinn
og breiður
tregi

(bíða mín
þar æsku-
trámalönd)

Og:

Treginn liggur
til allra átta

Bókin er öðrum þræði um gildi þýðinga og um tungumál heimsins, við fáum reglulega tilviljunakennda tölfræði um fámenn tungumál í útrýmingahættu og mikilvægi þeirra krystallast best í tilvitnun í Stanley Kunitz:

„Ég vildi óska að ég gæti þýtt úr öllum tungumálum heimsins. Ef ég fengi að lifa að eilífu, myndi ég gera það.“

Bókmenntasagan, líkt og aðrar sögur, er vissulega að mestu skrifuð af körlum en það er sterkur femínískur þráður í bókinni. Bæði birtast reglulega tilviljunakennd brot úr spjaldskrám bókasafna, þar sem gleymdar kvennabókmenntir eru reifaðar – þar á meðal Anna frá Moldnúpi sem skrifaði Fjósakona fer út í heim og hefur sannarlega verið merkileg kerling ef marka má örlítið gúgl.

Hin óuppgötvaða stjarna bókarinnar er þó Guðbjörg Jónsdóttir, húsfreyja á Broddanesi, sem slær mörgum höfundum heimsbókmenntanna rækilega við í textabútunum sem Magnús finnur eftir hana. Hún skrifar í raun tvö manifestó fyrir hann. Annað er um hinar gleymdu konur sem hann reynir að koma í dagsljósið:

„Jeg hef áður getið þess, að Valgerður langamma mín var systir Einars á Kollafjarðarnesi. En hún átti sjer minni sögu en hann, það er að segja, sem skráð verður. Hver veit nema þessar gömlu, gleymdu konur hafi átt sjer sögu alt að einu merkilega og skemtilega og sumir karlmenn, sem mikið er þó skrifað um, mest vegna þess að þeir voru ríkir? Hver þekkir strit og stríð konunnar, sem vinnur í kyrþey og þegir allar sínar vonir og óskir í hel?“

Seinna sýnir hún svo fram á hvernig þessi tækni Magnúsar, að flétta annarra manna ljóðum saman í eigin verk, eru í rauninni það sem sagnaskáld fortíðarinnar gerðu, þeir sem þurfta að muna kvæðin því þau áttu engar eða fáar bækur, kunnu mögulega ekki að skrifa – en ljóðin lifðu í raulinu:

„Fleiri kvæði mætti telja, sem sungin voru áður, því að fólkið kunni ekki lítið af kvæðum, og sumir mjög mikið. Gamla fólkið valdi vísurnar og kvæðin, sem það raulaði, í samræmi við lífskjör sín og hugsanir.“

Svo fylgir nístingssár saga um gamla konu sem missti einkadóttur, þar sem hún raular ægifagurt kvæði – og þegar maður áttar sig á að báðir þessir textabútar eru eftir Guðbjörgu (það er langt á milli þeirra) þá áttar maður sig á að þarna er stórskáld sem aldrei var uppgötvað, ein af þessum konum sem var í skugga karlanna sem töldu sig eina færa um að hugsa fyrir þessa þjóð.

Þetta er vissulega bók um bókmenntir, en samt, þetta gæti líka verið úrval af Facebook-veggnum þínum, eða brot úr bíómyndum eða söngtextum, lýsingar á málverkum – hverju því sem hugmyndaheimur þinn kann að vera helst samsettur úr. Og þótt að flestar vísanir hér séu í heim bókmennta þá fer fótboltaþjálfarinn Jose Mourinho hér líka með ljóð og fáa er vitnað oftar í en listmálarann Mark Rothko.

Textinn þarf heldur ekki að vera í bókum, tvö ljóð í röð finnur höfundur textann í umhverfinu, bæði á brúnni sem skáldið henti sér fram af og veggjakrotinu sem hann rekst á. Hér er svo ort um bókasafn hugans, ein af nokkrum manifestóum bókarinnar:

Líflínurnar.
Það sem hjartað elskar og styður sig við.

Það sem er letrað í spjaldskrá hvers og eins.

Fyrir röskum áratug síðan kom út bókaflokkurinn Svarta línan hjá Bjarti, bækur sem allar dönsuðu á mörkum skáldskapar og fræða – og þessi bók hefði passað vel þar inn, sem fyrsta ljóðabókin í flokknum. Og um leið má vel velta því fyrir sér hvort menningarumfjöllun mætti ekki oftar stíga þennan dans? Hún er vissulega oftast hluti af stærri fjölmiðlum, þar sem hún þarf endalaust að sanna sig á milli alvarlegri frétta, sanna tilverurétt sinn aftur og aftur. En tapar hún þá mögulega sérstöðu sinni, verður bastarður ljóðsins og ritstjóranna sem oftast líta hana hornauga?

Texti: Ásgeir H Ingólfsson

Greinin birtist upphaflega í Reykjavíkurblaðinu, en pappírsútgáfu þess má nálgast hér.